Gasrisi
Gasrisi er stór reikistjarna sem er að mestu úr gasi, en hefur þó líklega kjarna úr bergi eða málmi. Þegar talað er um að reikistjarna sé að mestu úr gasi er átt við að hún sé úr efnum sem eru við staðalskilyrði gas, en efnin geta verið í öðrum ham eftir aðstæðum á reikistjörnunni, til dæmis er Júpíter að mestu úr vetni í vökvaham. Ólíkt öðrum reikistjörnum hafa gasrisar ekki greinilegt yfirborð, en þeir hafa allir lofthjúp. Gasrisar sólkerfisins, einnig nefndir ytri reikistjörnur, eru (frá sólu talið): Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Hinar reikistjörnurnar kallast innri reikistjörnur.