Carl Sagan

Bandarískur stjarneðlisfræðingur, heimsfræðingur og rithöfundur (1934–1996)

Carl Edward Sagan (9. nóvember 1934 - 20. desember 1996) var bandarískur stjörnufræðingur og boðberi vísindanna og vísindalegrar hugsunar. Hann er upphafsmaður stjörnulíffræðinnar og hvatti mjög til þess að leitað yrði að vitsmunalífi utan jarðar. Hann er heimsfrægur fyrir bækur sínar um vísindi og fyrir sjónvarpsþættina Cosmos sem náðu gríðarlegum vinsældum um allan heim.

Carl Sagan við stofnun samtakanna Planetary Society árið 1980.

Carl Sagan fæddist í Brooklyn í New York þann 9. nóvember 1934. Hann stundaði nám við Chicago-háskóla þar sem hann hlaut BS gráðu árið 1955 og Meistaragráðu árið 1956 í eðlisfræði. Doktorsgráðu hlaut hann síðan árið 1960 í stjörnufræði og stjarneðlisfræði. Hann kenndi við Harvard-háskóla þangað til árið 1968 þegar hann flutti sig yfir til Cornell-háskóla.

Sagan varð prófessor við Cornell-háskóla árið 1971 þar sem hann stjórnaði rannsóknarstofu. Hann lagði af mörkum til allra ómannaðra könnunargeimferða sólkerfisins. Hann fékk þá hugmynd að senda meðferðis alheimsskilaboð í einni geimferðanna sem fara átti út fyrir sólkerfið. Skilaboðin var reynt að hafa þannig að allt vitsmunalíf utan jarðar ætti að geta ráðið í þau og skilið þau. Fyrstu skilaboðin sem send voru á þennan hátt voru á gullhúðuðum platta sem sendur var með geimfarinu Pioneer 10.

Meðal frægra bóka sem Carl Sagan skrifaði má nefna vísindaskáldsöguna Contact, sem samnefnd kvikmynd með leikkonunni Jodie Foster í aðalhlutverki, var byggð á.

Sagan glímdi um árabil við mergmisþroska sem leiddi hann til dauða. Hann lést úr lungnabólgu á Fred Hutchinson-krabbameinsrannsóknarstöðinni í Seattle í Washington eftir að hafa undirgengist þrjár mergígræðslur.

Tenglar breyta