Margrét af Frakklandi, Ungverjalandsdrottning

Margrét af Frakklandi (nóvember 1157 – ágúst/september 1197) var frönsk konungsdóttir á 12. öld, kona Hinriks unga, sem var meðkonungur föður síns, Hinriks 2. Englandskonungs og því Englandsdrottning, og síðar drottning Ungverjalands.

Margrét í pílagrímsferð sinni til Landsins helga.

Margrét var eldri dóttir Loðvíks 7. og miðkonu hans, Konstönsu af Kastilíu. Þriggja ára að aldri var hún heitbundin Hinrik unga, elsta syni Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu, sem áður hafði verið gift Loðvík föður Margrétar. Dætur Loðvíks og Elinóru, María og Alix, voru því hálfsystur þeirra beggja. Ríkharður ljónshjarta, bróðir Hinriks unga, var líka trúlofaður Alísu, alsystur Margrétar.

Margrét ól manni sínum son 19. júní 1177 en hann var fæddur fyrir tímann og dó fárra daga gamall. Fæðingin var mjög erfið og líklega varð hún til þess að Margrét gat ekki orðið þunguð aftur. Talið er að Hinrik hafi um 1182 farið að huga að því að reyna að fá hjónaband þeirra ógilt vegna barnleysisins og ásakaði hana meðal annars um framhjáhald með jarlinum af Pembroke, sem óvíst er að nokkur fótur hafi verið fyrir. En áður en af því yrði dó hann sumarið 1183.

Árið 1186 giftist Margrét aftur Bela 3. Ungverjalandskonungi. Hann dó 1196 og ári síðar dó Margrét í Akkó, þegar hún var í pílagrímsferð til Landsins helga.

Heimildir breyta