Max Weber

Max Weber (21. apríl 186414. júní 1920) var þýskur hagfræðingur og félagsvísindamaður. Hann er einn áhrifamesti fræðimaður á sviði félagsvísinda fyrr og síðar. Ásamt samstarfsmanni sínum Georg Simmel var hann leiðandi talsmaður eigindlegra rannsóknaraðferða í félagsvísindum.

Max Weber árið 1894

ÆviBreyta

Hann fæddist í Erfurt í Thϋringen og var sonur umsvifamikils lögmanns þar í borg er sat um skeið á prússneska þinginu og ríkisþinginu í Berlín. Móðir Webers var aftur á móti mjög trúrækinn og heittrúaður kalvínstrúarmaður. Weber var framúrskarandi námsmaður og lauk hinu meira doktorsprófi við Háskólann í Berlín árið 1891. Sérsvið hans var réttarsaga, en rannsóknir hans í þeirri grein gengu einnig mjög inn á svið hagsögu.

Weber var undir áhrifum frá tveimur skólum hugsunar, annars vegar var það þýski sagnfræðiskólinn þar sem hann tók margt frá Heinrich Rickert, og hins vegar var það marxíski hagfræðiskólinn. Afskipti hans af þýska sagnfræðiskólanum leiddu til þess að hann dróst inn í deilur um aðferðafræði. Þar varð hann að taka afstöðu sem var gagnrýnin í garð sögulegrar hagfræði og aðferða náttúruvísindanna.

Weber var afkastamikill fræðimaður og skrifaði mikið, mest þó á seinni árum. Eru verk hans best þekkt fyrir sögulega yfirsýn á vestræn samtímasamfélög og þróun þeirra á sviði efnahags, laga og trúarbragða. Hann skrifaði m.a. um hagfræði og hagsögu, aðferðafræði félagsvísindanna, charisma, skrifræði, lagskiptingu samfélagsins og um trúarbrögð í Kína og Indlandi. Þekktasta verk hans er líklega bókin Die protestantische Ethik und der 'Geist' des Kapitalismus sem hann skrifaði á árunum 1904 og 1905. Weber var einn fyrsti kennismiður skrifræðislegra skipulagsheilda sem hafðar voru sem fyrirmyndir bæði í stjórnun opinberra stofnana og fyrirtækja á einkamarkaði.

Bókin Mennt og máttur i íslenskri þýðingu Helga Skúla Kjartanssonar á tveimur fyrirlestrum sem Weber flutti upp úr aldamótunum 1900 - 1901 og kom út í lærdómsritaröð Bókmenntafélagsins 1973.

FélagsvísindinBreyta

Weber er þekktur fyrir margvísleg framlög hans til félagsvísindanna. Hann hefur haft varanleg áhrif hugmyndum manna á sviði félagsfræði, lögfræði, hagfræði, stjórnmálafræði, trúarbragðafræði og sagnfræði. Þekktasta verk hans er vafalaust Siðfræði mótmælenda og andi auðhyggjunnar (þ. Die protestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus) (1905) en í þeirri bók kannaði hann tengsl kalvínisma og þróun kapítalisma. Weber var sérlega áhugasamur um áhrif trúarbragða á mennningu og rannsakaði ítarlega öll helstu trúarbrögðin.

Weber setti fram þá skilgreiningu á nútímaríkið sem oftast er vísað í að það væri samfélag manna sem gerði viðurkennda kröfu til einokunar á réttmætri beitingu ofbeldis á afmörkuðu landsvæði.

Weber skilgreindi vald sem getu manna til þess að ná fram vilja sínum gagnvart öðrum burtséð frá óháð vilja þeirra. Valdi skipti hann í þrjá flokka:

  1. Náðarvald nefnist það vald sem er bundið einstaklingi og persónu hans. Slíkt vald er því tímabundið.
  2. Hefðarvald nefnist vald sem flyst milli kynslóða, t.d. innan konungsfjölskyldna.
  3. Regluvald byggist á formlegum, oftast skrifuðum reglum og föstu skynsamlegu kerfi (sjá skrifræði).

LjósmyndirBreyta

BókakápurBreyta

HeimildirBreyta

  • Weber, Max (1978(2. útgáfa)). Mennt og máttur. Hið íslenska bókmenntafélag.
  • Barnard, Alan (2000). History and Theory in Anthropology. Cambridge University Press.
  • Morrison, Ken (2000). Marx, Durkheim, Weber: Formations of Modern Social Thought. Sage Publications.

TenglarBreyta

 
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist