Doktorsgráða

æðst háskólagráða
(Endurbeint frá Doktorspróf)

Doktorsgráða eða doktorspróf er námsgráða og er æðsta námsgráðan á háskólastigi. Orðið er dregið af latnesku sögninni docere sem merkir að kenna en doctor er einhver sem kennir; fastráðnir háskólakennarar þurfa víðast hvar að hafa doktorsgráðu.

Háskólagráður

Grunnám
B.A. / A.B.
B.Ed.
B.Eng.
B.S. / B.Sc.

Meistaranám
B.Phil.
M.A.
M.Ed.
M.L.
M.Paed.
M.Phil.
M.S. / M.Sc.
M.St.

Doktorsnám
D.Eng.
D.Phil.
D.litt.
Dr.jur.
Dr.med.
Dr.phil.
Dr.theol.
Ph.D.
Th.D.

Ýmsar doktorsgráður eru til en algengastar eru dr. phil. og Ph.D. sem eru skammstafanir fyrir doctor philosophiae og philosophiae doctor tilsvarslega. Í þessu samhengi er orðið „philosophia“ notað um veraldleg fræði, það er að segja akademískar fræðigreinar aðrar en guðfræði, lögfræði og læknisfræði.

Í guðfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. theol. (doctor theologiae) eða Th.D. (theologiae doctor). Í lögfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar Dr.iur. (doctor iuris), JD (iuris doctor) og S.J.D. (scientiae iuridicae doctor). Í læknisfræði hefur tíðkast að veita gráðurnar dr. med. (doctor medicinae) og MD (medicinae doctor). En JD-gráða er víðast hvar ekki eiginleg doktorsgráða og sömuleiðis er MD-gráða víðast hvar sú námsgráða sem krafist er fyrir almennt lækningaleyfi og jafngildir ekki doktorsprófi. Því er stundum veitt dr. phil. eða Ph.D.-gráða í lögfræði og læknisfræði ofan á iuris doctor og medicinae doctor-gráður.

D.litt. eða Litt.D.-gráður (doctor litterarum) eru sums staðar veittar ofan á doktorspróf sem heiðursgráður fyrir vel unnið ævistarf í fræðum (yfirleitt hugvísindum. Gráðan L.H.D. (Litterarum humanarum doctor) er oftast sambærileg við D.Litt.-gráðuna. D.D. (Divinitatis Doctor) er stundum veitt guðfræðingum sem sams konar heiðursdoktorsnafnbót. Í lögfræði er LL.D. (legum doctor) stundum veitt sem heiðursgráða.

Í sumum Evrópulöndum hefur einnig tíðkast að veita æðra doktorspróf (dr. habil.) eftir doktorsvörn á töluvert umfangsmeira doktorsverkefni eftir fyrstu doktorsgráðu. Ólíkt doktorsverkefni fyrstu doktorsgráðu er verkefni æðra doktorsprófs ekki unnið undir leiðsögn kennara. Handhafi æðra doktorsprófs getur tekist á hendur leiðsögn doktorsverkefna. Í Norður-Ameríku er ekkert æðra doktorspróf veitt en ferlið er ekki ósvipað fastráðningarferlinu (e. tenure track).