Maríukirkjan í Lübeck
Maríukirkjan í Lübeck (eða Maríukirkjan í Lýbiku) er þekktasta kirkjan í Lübeck og er jafnframt hæsta mannvirki miðborgarinnar (124 m). Hún er einnig þriðja stærsta kirkja Þýskalands. Kirkjan er auk þess með stærsta kirkjuskip heims sem gert er úr tígulsteinum. Maríukirkjan er fyrirmynd að um 70 annarra gotneskra kirkna víða við Eystrasalt.
Saga Maríukirkjunnar
breytaByggingasaga
breytaMaríukirkjan átti sér tvo fyrirrennara. Fyrst var þar viðarkirkja í landnámi Þjóðverja, en síðar var reist þar steinkirkja þegar Lübeck var stofnuð. Núverandi kirkja var reist 1250-1350, en nokkrar viðbætur voru gerðar seinna. Kirkjan var fyrir auðstéttina, t.d. verslunarmenn, og því var ákveðið að hafa hana stærri en dómkirkjan sem stóð ekki langt frá. Kirkjan fékk 40 metra hátt skip, en það er stærsta kirkjuskip heims sem gert er úr tígulsteinum. Til að haldast uppi þurfti að reisa stuðningssúlur sitthvoru megin við kirkjuveggina að utan. Vegna þyngsla hefði þakið (sökum hæðarinnar) að öðrum kosti ýtt útveggjunum frá og við það hefði allt hrunið. Súlurnar gefa kirkjunni sérkennilegt útlit að utan. Turnarnir urðu tveir og eru 124 metra háir. Kirkjan var svo vígð 1350 og helguð Maríu mey.
Bruni og endurreisn
breytaÁ pálmasunnudegi 1942 varð Lübeck fyrir gríðarmiklum loftárásum Breta. Þótt Maríukirkjan sjálf hafi ekki orðið fyrir sprengingu, brann hún samt ásamt öðrum húsum í kringu. Allt kirkjuskipið brann til kaldra kola og hrundi þá þakið. Turnarnir tveir brunnu einnig. Báðar stóru kirkjuklukkurnar hrundu niður, en sú stærri var rúmlega 7,1 tonn að þyngd. Klukkurnar eru enn á staðnum þar sem þær hrundu og eru í dag minnismerki um stríðið. Þegar Bretar gáfu borginni grið, fékk Maríukirkjan bráðabrigðaþak meðan stríðið geysaði allt um kring. Hin eiginlega endurreisn hófst hins vegar 1947. 1951 voru framkvæmdir komnar svo langt áleiðis að hægt var að halda upp á 700 ára afmæli kirkjunnar. Við það tækifæri gaf Konrad Adenauer kanslari kirkjunni nýja stóra kirkjuklukku. Framkvæmdum lauk að mestu 1959 og var kirkjan þá endurvígð. 1980 var svörtum kirkjuturni aftarlega á skipinu bætt við.
Listaverk
breytaAntwerpen altaristaflan
breytaAntwerpen altaristaflan var smíðuð 1518, en 1522 var hún flutt til Lübeck og sett upp í hliðarkapellu í Maríukirkjunni. Altaristaflan er gerð úr málverkum og litlum höggmyndum og sýnir senur úr ævi Maríu mey á einkar glæsilegan hátt. 1869 voru nokkrir hlutir skornir af og seldir. Þeir eru á söfnum á nokkrum stöðum í Evrópu. Þegar kirkjan brann 1942 var altaristaflan enn stödd í hliðarkapellunni (ekki í meginskipinu) og slapp því við eyðileggingu. 1945 var nokkrum smástyttum stolið úr töflunni. Því er mikið holrými ofarlega fyrir miðju töflunnar. Taflan er þó enn hin glæsilegasta og er enn í kirkjunni í dag.
Dauðadansinn
breytaNokkrar freskur prýddu Maríukirkjuna í gegnum aldirnar. Ein merkasta freskan var Dauðadansinn svokallaði. Það eru myndir af dauðafígúrum sem eru í dansi við presta, biskupa, höfðingja og leikmenn. Dauðadansinn í kirkjunni var þekktasta og áhrifamesta dauðadans-myndin í Þýskalandi. Hún var búin til 1463, sennilega af áhrifum svarta dauða. Í brunanum 1942 eyðilagðist myndin algjörlega og er ekki til lengur í dag. Þó eru til ljósmyndir af verkinu. En sökum hitans í brunanum losnaði pússið innan á kirkjunni. Þá komu í ljós aðrar gamlar freskur sem huldar hafa verið áður fyrr og voru löngu gleymdar. Þegar kirkjan fékk nýja glugga eftir stríð, var myndefnið í nokkrum þeirra úr dauðadansinum.
Stjörnuúrið
breytaÍ kirkjunni stóð stjörnuúr sem smíðað var 1561-1566. Hún stóð í kórnum og gjöreyðilagðist í brunanum 1942. Aðeins ein af skífunum fannst heil og er hún til sýnis í St. Annen-safninu í borginni. Nýja stjörnuúrið var smíðað af úrsmiðinum Paul Behrens 1960-1967. Framhliðin líkist frumúrinu, en er þó einfaldari. Hún sýnir dagana, mánuðina, sólargang, tunglgang, stjörnumerki, páskadagsetningar og gang plánetanna. Klukkan 12 á hádegi fer klukkuspil í gang og ganga þá fígúrur úr Biblíunni út úr klukkunni og inn í hana aftur.
Orgel
breytaMaríukirkjan hefur átt nokkur stór og þekkt orgel. Elsta þekkta orgelið var Dauðadansorgelið. Það var smíðað 1477 og sett upp í nyrðra þverskipinu (þar sem stjörnuúrið stendur í dag). Þetta var dauðadanskepellan þá, þar sem sálumessur voru haldnar. 1937 var orgelið gert upp og var þá orðið víðfrægt. Annað orgel var Stóra orgelið (Grosse Orgel), upphaflega smíðað 1516-1518 með miklum tilkostnaði. Hún var stækkuð nokkru sinnum og fékk fallega skreytta framhlið í gotneskum stíl. Talið er að Johann Sebastian Bach hafi spilað á þetta orgel þegar hann sótti Lübeck heim 1705 til að kynnast organistanum Dietrich Buxtehude. Bach var boðið að verða eftirmaður hans, en hann neitaði. 1851 var orgelið endurnýjað frá grunni. Bæði Stóra orgelið og Dauðadansorgelið brunnu 1942 og gjöreyðilögðust. Nýja orgelið eftir stríð var sett upp 1968. Það var þá stærsta orgel heims sem ekki var knúið rafmagni. Það samanstendur af 8.512 pípum, þær stærstu 11 metra háar. 1955 var Dauðadansorgelið endursmíðað og sett upp á öðrum stað í kirkjunni. Hún er með 5.000 pípur.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Marienkirche (Lübeck)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt desember 2009.