Maríukirkjan í Dortmund

Maríukirkjan í Dortmund er elsta kirkja í Dortmund. Hún var reist á 12. öld. Í henni eru ýmis listaverk sem tókst að bjarga í loftárásum seinna stríðsins.

Maríukirkjan í Dortmund

Saga Maríukirkjunnar

breyta

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Maríukirkjan var reist, en það mun hafa verið á 12. öld að tilstuðlan Friðriks Barbarossa keisara. Hún kemur fyrst við skjöl 1267 og er því elsta kirkjan í Dortmund sem enn stendur. Á 14. öld var kórinn reistur og kirkjan stækkuð. Í siðaskiptunum á 16. öld varð Maríukirkjan lútersk og er hún það enn. 1661 hrundi turn Reinoldikirkjunnar í miðborginni. Þar sem Maríukirkjan stóð við hliðina, skemmdist hún talsvert af braki turnsins. Sökum fjárskorts reyndist ekki unnt að framkvæma neinar viðgerðir, þannig að Maríukirkjan stóð lengi vel tóm og var lokuð almenningi. Því grotnuðu aðrir hlutar hennar niður. 1805 varð að rífa norðurturninn og stóð hún þá aðeins með einn turn eftir. Svo er enn. Norðurturninn hefur aldrei verið endurreistur síðan. Þegar víst þótti að Suðurturninn myndi hrynja 1832, var ráðgert að rífa Maríukirkjuna alfarið. Auglýst var útboð á framkvæmdinni það ár en þá hófu íbúar að mótmæla. Þegar krónprins Prússlands, seinna Friðrik Vilhjálmur IV konungur, sótti Dortmund heim 1833 og skoðaði kirkjuna, ákvað hann að hún skyldi standa, þrátt fyrir að búið væri að gera áætlannir um að nýta byggingarefnið í nýjan skóla. Framkvæmdir við viðgerðir hófust 1834 og stóðu til 1839. Fyrsta messa fór fram í maí það ár, en það var fyrsta messan þar í hartnær tvær aldir. Í desember sama ár hrundi hluti turnsins þegar kirkjubjöllum var hringt og var það til marks um það í hvernig ástandi burðarvirki kirkjunnar var. Hún þykir enn ótraust. Enn kom til tals að rífa kirkjuna og reisa nýja. En það var látið nægja að gera kirkjuna upp aftur 1881. Samfara því voru nokkrir nýir gluggar settir í veggi og kirkjuskipið sett nýjum freskum. Á tímum nasista voru prestar kirkjunnar nokkrum sinnum handteknir, enda predikuðu þeir gjarnan gegn villu nasismans. Maríukirkjan stórskemmdist í loftárásum seinna stríðs, sérstaklega 6. október 1944 þegar sprengjur sprungu á þakinu, sem við það hrundi og eyðilagði innréttingar. Veðrið olli frekari skemmdum, þar sem kirkjan stóð eftir þaklaus. Helstu dýrgripum kirkjunnar hafði hins vegar verið komið í geymslu annars staðar. Viðgerðir stóðu allt til 1957.

Dýrgripir

breyta

Berswordt-altarið

breyta

Berswordt-altarið er eldra af tveimur altaristöflum frá miðöldum. Það er frá 1395 að talið er. Málarinn er hins vegar ókunnur. Altaristaflan sýnir krossfestingu Jesú á þremur myndum. Til vinsti ber Jesús kross sinn, fyrir miðju er krossfestingin sjálf, til hægri er Jesús tekinn niður af krossinum.

Berswordt-altarið (frá ca. 1395)
 
 
 

Maríualtarið

breyta

Maríualtarið er aðeins yngra en Berswordt-altarið, eða frá 1420. Það er eftir listamanninn Conrad von Soest. Altaristaflan samanstendur af þremur myndum, sem eitt sinn voru hluti af stærra verki. 1720 eyðilagðist aðalaltari Maríukirkjunnar og var þá Maríualtarið sett á altarið í staðinn. Það passaði þó ekki alveg og því þurfti að skera af töflunni á nokkrum stöðum. Slíkur gjörningur þætti óhugsandi í dag. Myndirnar sýna atriði úr ævi Maríu mey en merkilegt er að bakgrunnur myndanna minnir á miðaldaaðstæður (svo sem rúmið og sófinn). Undirritun Conrads von Soest var svo vel falin í einni myndinni að hún uppgötvaðist ekki fyrr en 1950.

Maríunaltarið frá 1420
 
 
 

Maríulíkneski

breyta
 
Hin gullna María frá 1230
 
Arnarpúltið frá 1450

Í kirkjunni eru tvö merk Maríulíkneski. Hin gullna María er stytta frá 1230 og er hún gerð úr hnetuviði. Litirnir eru hins vegar frá 15. öld. Hægri hönd Maríu er brotin af og týnd. Á ljósmynd frá 1894 er María enn með höndina. Á baki styttunnar er málverk frá 1470 og sýnir foreldra Maríu við Gullna hliðið, klædd í miðaldafötum. Maríustyttan hefur verið notuð í helgigöngum í gegnum tíðina. Hin styttan kallast Sandsteinsmadonna, þar sem hún er gerð úr sandsteini. Hún var gerð um 1420 af listamanni sem hét R. Fritz. Styttan lætur mjög á sjá. Litirnir eru næstum horfnir og höfuðið á Jesú er brotið og týnt.

Annað

breyta

Frekari listaverk eru kórbekkurinn frá 1523 sem skreyttur er fígúrum af dýrlingum. Lespúlt prestsins er frá 1450 og kallast Arnarpúltið (Adlerpult). Það er gert úr erni úr látúni sem stendur á sandsteinssúlu. Í kirkjunni er stór skírnarfontur sem ekki er hægt að dagsetja. Fonturinn er svo stór að talið er að fullorðnir menn hafi tekið skírn í honum. Um tíma stóð fonturinn fyrir utan kirkjuna og var sennilega notaður til að brynna hestum meðan kirkjan var ekki í notkun.

Heimildir

breyta