Morfís

(Endurbeint frá MORFÍS)
Stofnað: 1984 (1983)
Tegund: Rökræða, málflutningur
Formaður: Anton Björn Mayböck Helgason, MR
Framkvæmdastjóri: Þorgils Máni Jónsson, Kvennó

MORFÍS eða Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, er ein af þremur stærstu keppnum sem framhaldsskólar á Íslandi taka þátt í sín á milli. Hinar eru Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna.

Keppnin er með útsláttarfyrirkomulagi. Í hverri MORFÍS-viðureign takast á tvö keppnislið skipuð fjórum nemendum frá hvorum skóla. Þeir kallast liðsstjóri, frummælandi, meðmælandi og stuðningsmaður. Val á sigurvegara byggist á rökum liðanna, flutningi, svörum við rökfærslu andstæðinganna og hughrifum dómara.

Í hverri keppni eru þrír dómarar. Þeir einir geta hlotið dómararéttindi í MORFÍS sem fara á dómaranámskeið MORFÍS sem haldið er af framkvæmdastjórn MORFÍS ár hvert. Áður en því var breytt í lögum haustið 2006 hlutu þeir einnig dómararéttindi sem kepptu í MORFÍS. Lagabreytingin er ekki afturvirk svo þeir hafa enn dómaréttindi sem höfðu þau fyrir lagabreytinguna.

MORFÍS hefur verið með mjög föstu sniði undanfarin ár en raddir þess efnis að fyrirkomulagi keppninnar skuli breytt, til dæmis með breytingum á dómblaði, verða sífellt háværari.

Saga keppninnar

breyta

Veturinn 1983 til 1984 höfðu átta framhaldsskólar staðið að Ræðukeppni framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu (RFH). Hún þótti heppnast vel og vakti mikla athygli. Í framhaldi af því fóru framhaldsskólar á landsbyggðinni fram á aðild og var MORFÍS stofnað sumarið 1984.

Fyrir 1983 var lítil hefði fyrir ræðukeppnum í framhaldsskólum ef frá eru taldir MR og sem höfðu att kappi árlega um árabil og kallað til dómara frá Junior Chamber-hreyfingunni (sem á þeim tíma notaði aðeins skammstöfunina JC). Haustið 1983 leitaði framkvæmdaráð RFH til JC-hreyfingarinnar um að annast dómgæslu og tóku tveir tengiliðir frá JC Reykjavík að sér að annast hana en öll framkvæmd var í höndum fulltrúa framhaldsskólanna. Þegar líða tók á veturinn fóru að birtast viðtöl við fulltrúa JC í ljósvakamiðlum og á prenti þar sem þeir kváðust hafa átt frumkvæði að stofnun keppninnar og síðan annast alla framkvæmd hennar. Olli þetta mikilli reiði meðal framhaldsskólanema. [1]

Þegar MORFÍS var formlega stofnað í ágúst 1984 virtist ekki ætla að verða úr samvinnu. Nemendur vildu ekki líða sams konar framferði JC og hafði verið árið áður þegar JC eignaði sér heiður af keppninni. Þá bárust skilaboð frá JC um að þeir vildu gjarna sinna dómgæslu áfram, þeir lofuðu betri framkomu og að þeir myndu alfarið skipta um tengiliði við skólana. Þetta var samþykkt með semingi og þá þannig að samtökin legðu aðeins til oddadómara ef skólarnir myndu sjálfir þjálfa fólk til að vera meðdómendur. Þrátt fyrir það héldu JC-menn áfram að eigna sér heiðurinn af keppninni. Á landsþingi MORFÍS á Sauðárkróki 1985 var samþykkt að slíta á öll samskipti við JC-hreyfinguna en stofna þess í stað oddadómararáð skipað útskrifuðum fyrrverandi keppendum og dómurum úr framhaldsskólunum. Eftir það var útskrifaður nemandi oddadómari í hverri keppni en meðdómendur enn við nám í framhaldsskóla.

Þekktir einstaklingar sem tekið hafa þátt í MORFÍS

breyta

Margir þátttakendur í MORFÍS hafa síðan orðið áberandi í stjórnmálum, fjölmiðlum og menningarlífi. Meðal þekktra einstaklinga sem tekið hafa þátt í keppninni má nefna Benedikt Erlingsson, Björn Braga Arnarsson, Dag B. Eggertsson , Davíð Þór Jónsson, Halldór Laxness Halldórsson, Guðmund Steingrímsson, Gísla Martein Baldursson, Helga Hjörvar, Illuga Gunnarsson,Stefán Eiríksson, Rúnar Frey Gíslason, Sögu Garðarsdóttur og Króla.

Fyrirkomulag

breyta

Dómarar

breyta

Í venjulegri MORFÍSkeppni eru þrír dómarar með dómararéttindi frá stjórn MORFÍS. Þar til nýlega fengu allir sem tóku þátt í MORFÍS dómararéttindi, auk þeirra sem stóðust árlegt dómaranámskeið MORFÍS. Árið 2006 var lögum MORFÍS breytt á þá vegu að aðeins þeir sem standast dómaranámskeið Morfís hljóta dómararéttindi, áður höfðu þátttakendur einnig hlotið dómararéttindi.

Í hverri keppni er einn oddadómari. Löggildir oddadómarar hafa dómararéttindi frá MORFÍS og hafa lokið stúdentsprófi. Oddadómari situr í miðju dómarahópsins, gefur ræðumönnum refsistig á sínu dómblaði og tilkynnir úrslit í lok keppni. Í úrslitum MORFÍS kveða lög á um að allir dómarar skuli vera oddadómarar.

Ræðuþjálfarar og ræðulið koma sér saman um þessa þrjá dómara. Samkvæmt nýjum lögum MORFÍS (frá haustinu 2006) skal stjórn MORFÍS úthluta hlutlausum dómurum ef liðum hefur ekki tekist að koma sér saman um þrjá dómara þegar fjórir tímar eru til keppni. Til þessa ákvæðis hefur þurft að grípa ítrekað síðan þá.

Eftir að allir ræðumenn hafa lokið máli sínu, dómarar gefið einkunn fyrir alla liði hjá báðum ræðum allra ræðumanna og fundarstjóri sagt til um að eiginlegri keppni sé lokið, fara dómarar afsíðis og reikna úr stigum sínum í svokölluðu dómarahléi. Þar eru öll stig allra dómara lögð saman, refsistig dregin frá, og viðeigandi tölfræði reiknuð út. Að því loknu afhendir fundarstjóri oddadómara fundarstjórn og hann tilkynnir úrslitin í því sem nefnt er „oddadómararæða“. Í þessari ræðu eru heildarmunur liða, sigurlið og ræðumaður kvöldsins (stigahæsti ræðumaður kvöldsins) eða „ræðumaður Íslands“ ef um er að ræða úrslitakeppni Morfís. Þó hefur skapast hefð fyrir því að oddadómarar ræði daginn og veginn, gefi upp ógrynni af áhugaverðri eða óáhugaverðri tölfræði, gefi mat sitt á liðum og keppninni í heildinni, komi með athugasemdir og haldi áhorfendum og keppendum í heljargreipum spennu. Mjög misjafnt er, bæði hvað varðar lengd og eðli, hvernig oddadómarar flytja þessa oddadómararæðu og stundum mætti segja að henni svipi til uppistands.

Dómblað og stigagjöf

breyta

Hver um sig gefa dómararnir öllum ræðumönnum (frummælanda, meðmælanda og stuðningsmanni) einkunn frá 1-10 fyrir hvora ræðu í fjórum liðum. Oddadómari gefur, einn dómara, refsistig á sínu dómblaði og tilkynnir oft um fjölda refsistiga keppninnar í oddadómararæðu sinni. Venjulega eru heildarstig í Morfískeppni á bilinu 2000-3000 (3 dómarar * sex ræður * 4 liðir * einkunn á bilinu 1-10) en munur milli liða er allt frá örfáum stigum til nokkurra hundraða (stærsti munur Morfíssögunar voru 1093 stig þar sem Kvennó sigraði FL árið 2018) svo misjafnt er hvort refsistig breyta úrslitum keppna. Frægt dæmi eru úrslit Morfís árið 2004 þegar lið Verzlunarskóla Íslands vann lið Menntaskólans við Hamrahlíð með einu stigi. Dæmdur munur var 3 stig, MH í hag, en einn ræðumaður MH (Dóri DNA) talaði sex sekúndum yfir tíma meðan ræðumenn Verzlunarskólans töluðu aðeins tveimur sekúndum yfir tíma.

Tveir tímaverðir, einn frá hvorum skóla, starfa við keppnina til að taka tíma ræðumanna og tilkynnir fundarstjóri tíma hvers ræðumanns eftir að dómarar hafa lokið við að dæma hann.

1. Ræða

breyta

Í þessum lið er uppsetning og gæði ræðu metin. Þar spila rök, málfar, áhrifamáttur orða, skemmtanagildi og flæði stærst hlutverk. Morfísræður þykja oft hafa einkennandi stílbragð, oft eru myndlíkingar eða sögur hafnar í byrjun ræðu og þeim lokið í lok ræðu með meginmáli á milli. Hefð er fyrir því að inngangur og meginmál sé fyrir svarakafla og að honum loknum komi lokaorð með upphafsorðunum „góðir gestir“. Upphafsorðin er nánast alltaf „Fundarstjóri, dómarar, andmælendur og góðir gestir“ í fyrri ræðum en aðeins „Fundarstjóri“ í seinni ræðum og draga flestir dómarar ræðumenn niður ef svo er ekki. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 4 við útreikning stiga í dómarahléi.

2. Málflutningur

breyta

Í þessum lið er öryggi og flutningur ræðumannsins metin. Hvort hann horfir til fólksins eða niður á blaðið, hvernig handahreyfingar koma út, hversu skýrmæltur, sannfærandi, öruggur og áhrifaríkur flutningurinn og ræðumaðurinn er. Oft er hægt að sjá áhrif frá uppistandi, stjórnmálum, rappi, útvarpslestri, kennslu og fleiru í flutningi Morfísræðumanna. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 3 við útreikning stiga í dómarahléi.

3. Svör

breyta

Eitt af verkefnum ræðumanns er að svara rökum ræðumanna andstæðinganna, oftast í sérstökum svarakafla. Þetta þykir oft eitt vandasamasta verk ræðumanna og segir að margra mati mikið um eðli ræðumannsins. Svör eru bæði skrifuð fyrir fram og á staðnum. Í dag skrifa flest ræðulið mikið af svörum fyrir fram við þeim rökum sem þeir búast við að andstæðingarnir noti, oft skín þetta í gegn þar sem t.d. svara ræðumenn stundum rökum sem andstæðingarnir kannast ekki við að hafa komið með. Í þessum lið skipta gæði svara, rök, hnitmiðun, málfar, skemmtanagildi, öryggi flutnings, viðbrögð við ófyrirsjáanlegum rökum og þýðing þeirra fyrir rökræðuna í held mestu máli. Fyrri ræða frummælanda, framsöguræða keppninnar, inniheldur engin svör. Einkunn í þessum lið er margfölduð með 4 við útreikning stiga í dómarahléi.

4. Geðþóttastuðull dómara

breyta

Þessi liður er að mestu leyti frjáls dómaranum. Einstök atriði eða persónulegar tilfinningar í garð ræðumannsins geta ráðið öllu fyrir þennan lið og margir dómarar veigra sér ekki við að setja „1“ eða „10“ í þennan lið við lítil tilefni. Hann er ætlaður sem einkunn á almennri tilfinningu dómarans fyrir ræðumanninum. Hvernig ræða, flutningur og svör var dómaranum að skapi og hversu góður honum þótti ræðumaðurinn á heildina litið. Þessi liður er stundum kallaður "Hughrif" og það nafn var notað á tillögu að nýju dómblaði. Deilt hefur verið um hvort gefa megi 0 í þessum lið, þar sem lög Morfís og leiðbeiningar stangast á. Einkunn í þessum lið er ekki margfölduð við útreikning stiga í dómarahléi.

Refsistig

breyta

Refsistig eru gefin ræðumönnum sem fara út fyrir tímamörk ræðu sinnar. Í framsöguræðu (fyrri ræðu frummælanda) eru þau tímamörk 4-5 mínútur en í öðrum ræðum keppninnar eru þau 3-4 mínútur. 1 refsistig er gefið fyrir hverja sekúndu sem hver ræðumaður fer yfir eða undir þessi tímamörk í ræðu sinni.

Meðalstig framsöguræðu

breyta

Frummælandi svarar ekki í fyrru ræðu sinni (framsöguræðu) og fær því ekki stig fyrir svör í þeirri ræðu. Til að vega upp á móti þessu var settur inn liður á dómblaðið sem deilir heildarstigum framsöguræðu í 2 (námundað upp ef hálf tala kemur upp) og bætir þeim við heildarstig ræðumannsins. Þessum stigum skal þó ekki bæta við heildarstig keppninnar en það mundi, ólíkt trú margra, geta haft áhrif á úrslit keppninnar. Ef framsöguræða annars liðs er hærra dæmd en hins liðsins eykst sá munur við að bæta meðalstigum framsöguræðu við. Hærra dæmd ræða fær hærri meðalstig. Þannig eykur þetta vægi frummælandans í keppninni og ef samanburður frummælanda var ekki í samræmi við samanburð liðanna getur það breytt úrslitum keppni. Síðan er álitamál hvort þessi áhrif eigi rétt á sér.

Breytingartillögur

breyta

Fyrstu ár Morfískeppninnar ríkti mikið ósætti með form keppninnar. Eftir það var dómblaði breytt og ríkti nokkuð almennt sátt um keppnina næstu 15 árin eða svo. Síðustu ár hafa síðan sprottið upp fleiri ágreiningsefni um form dómgæslu (dómblaðið), fjölda dómara og val þeirra.

Sigurvegarar frá upphafi

breyta

Menntaskólinn á AkureyriMenntaskólinn í ReykjavíkVerzlunarskóli ÍslandsFlensborgarskólinn í HafnarfirðiVerzlunarskóli ÍslandsFlensborgarskólinn í HafnarfirðiMenntaskólinn í ReykjavíkVerzlunarskóli ÍslandsFlensborgarskólinn í HafnarfirðiVerzlunarskóli ÍslandsMenntaskólinn í ReykjavíkMenntaskólinn við SundVerzlunarskóli ÍslandsMenntaskólinn í ReykjavíkMenntaskólinn við HamrahlíðMenntaskólinn í ReykjavíkVerzlunarskóli ÍslandsMenntaskólinn við HamrahlíðMenntaskólinn á AkureyriVerzlunarskóli ÍslandsMenntaskólinn á AkureyriVerzlunarskóli ÍslandsFjölbrautaskólinn í BreiðholtiMenntaskólinn við HamrahlíðVerzlunarskóli ÍslandsFjölbrautaskólinn í GarðabæMenntaskólinn við SundMenntaskólinn í ReykjavíkFjölbrautaskólinn í GarðabæMenntaskólinn í Reykjavík

Tölfræði sigurliða

breyta
Fjöldi sigra í Morfís
Skóli Titlar Úrslitakeppnir kepptar
Verzlunarskóli Íslands 16 22
Menntaskólinn í Reykjavík 10 15
Menntaskólinn við Hamrahlíð 4 11
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 3 7
Menntaskólinn á Akureyri 3 4
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 2 6
Menntaskólinn við Sund 2 5
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 1 3
Fjölbrautaskóli Suðurnesja 0 2
Kvennaskólinn í Reykjavík 0 2
Menntaskólinn í Kópavogi 0 1
Borgarholtsskóli 0 1
Ræðumenn Íslands
Skóli Titlar
Verzlunarskóli Íslands 12*
Menntaskólinn í Reykjavík 8
Menntaskólinn við Hamrahlíð 5
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 4
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 4
Menntaskólinn við Sund 3
Menntaskólinn á Akureyri 2
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti 1*
*Árið 1996 urðu tveir ræðumenn Íslands, annar úr FB og hinn úr VÍ

Tilvísanir

breyta
  1. Þór Jónsson (1985, 20. júní). „Skylt er að hafa það sem sannara reynist“. Morgunblaðið 50. bls. 13 (Tímarit.is).

Tenglar

breyta