Lesótó

Land í sunnanverðri Afríku

Lesótó er landlukt land í sunnanverðri Afríku, umlukt Suður-Afríku á allar hliðar. Nafn landsins þýðir nokkurn veginn „land þeirra sem tala sesótó“. Lesótó er í Breska samveldinu. Íbúar eru rétt rúmlega tvær milljónir. Nær allir íbúar landsins eru sesótómælandi Basótar (Bantúþjóð). Landið er þróunarland þar sem um helmingur íbúa lifir af landbúnaði og um 40% eru undir alþjóðlegum fátæktarmörkum. Tíðni HIV-smita í Lesótó er sú önnur mesta í heimi, 23,6% íbúa eru með veiruna.

Mmuso wa Lesotho
Fáni Lesótó Skjaldarmerki Lesótó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Khotso, Pula, Nala (sesótó)
Friður, regn, velsæld
Þjóðsöngur:
Lesotho Fatse La Bontat'a Rona
Staðsetning Lesótó
Höfuðborg Maserú
Opinbert tungumál sesótó, enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Letsie 3.
Forsætisráðherra Moeketsi Majoro
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 4. október 1966 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
137. sæti
30.355 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
144. sæti
2.108.328
68,1/km²
VLF (KMJ) áætl. 2017
 • Samtals 7,448 millj. dala (172. sæti)
 • Á mann 3.868 dalir (200. sæti)
VÞL (2019) 0.527 (165. sæti)
Gjaldmiðill loti (L)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .ls
Landsnúmer +266

Áður hét Lesótó Basútóland og var undir stjórn Breta. Þegar Suður-Afríkusambandið varð til 1910 hófst vinna við að sameina Basútóland sambandinu. Íbúarnir voru hins vegar mótfallnir sameiningu og þegar kynþáttaaðskilnaður var lögleiddur í Suður-Afríku, stöðvaðist sameiningarferlið alveg. Landið var svo nefnt Lesótó þegar það fékk fullt sjálfstæði frá Bretum 4. október 1966.

Landfræði breyta

Lesótó er 30.355 km2 að stærð. Það er eina sjálfstæða ríki heims sem er allt í yfir 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Lægsti punktur landsins er í 1.400 metra hæð og er því hæsti lægsti punktur allra landa heims. Yfir 80% landsins eru í yfir 1.800 metra hæð. Lesótó er líka syðsta landlukta land heims og er alfarið innan Suður-Afríku. Það er milli 28. og 31. breiddargráðu suður og 27. og 30. lengdargráðu austur. Um 12% landsins er ræktarland, en það er í hættu vegna landfoks. Talið er að 40 milljón tonn af jarðvegi tapist árlega vegna jarðvegsrofs.[1]

Stjórnmál breyta

Í Lesótó er þingbundin konungsstjórn. Forsætisráðherra Lesótó, Moeketsi Majoro, er stjórnarleiðtogi og fer með framkvæmdavald. Konungur Lesótó, Letsie 3., hefur aðallega táknrænt hlutverk. Konungurinn hefur ekki lengur nein raunveruleg völd og er bannað að taka þátt í stjórnmálum.

Ríkjandi stjórnarflokkur er All Basotho Convention (ABC) sem leiðir samsteypustjórn á fulltrúaþingi Lesótó. Öldungadeild Lesótó er skipuð 22 höfðingjum sem hafa arfgeng embætti, og 11 fulltrúum sem skipaðir eru af konunginum, samkvæmt ráði forsætisráðherra.

Í stjórnarskránni er kveðið á um sjálfstæði dómstóla. Dómstólakerfið er myndað af hæstarétti, áfrýjunarrétti, dómstólum og hefðbundnum dómstólum, aðallega í dreifbýli. Allir dómarar í áfrýjunardómsólnum nema einn eru suðurafrískir lögmenn. Dómarar kveða upp dóma án kviðdóma, ýmist einir eða með tvo áheyrnardómara sér til aðstoðar.

Borgararéttindi eins og tjáningarfrelsi, félagafrelsi, fjölmiðlafrelsi, fundafrelsi og trúfrelsi, eru tryggð í stjórnarskránni. Lesótó var í 12. sæti af 48 löndum Afríku sunnan sahara í vísitölu um stjórnhætti í Afríku árið 2008.[2]

Árið 2010 kallaði stjórnmálahreyfingin People's Charter Movement eftir því að Lesótó gerðist hluti af Suður-Afríku vegna alnæmisfaraldurs í landinu. Næstum fjórðungur landsmanna er með HIV.[3] Landið hefur líka þurft að takast á við útbreitt atvinnuleysi, efnahagshrun, veikan gjaldmiðil og takmarkaðar ferðaheimildir. Afríkusambandið kallaði í ályktun eftir nánari efnahagslegum samruna Lesótó og Suður-Afríku en gekk ekki svo langt að stinga upp á sameiningu landanna.

Stjórnsýslueiningar breyta

Lesótó skiptist í tíu stjórnsýsluumdæmi sem hvert hefur sinn umdæmisstjóra og sinn höfuðstað.

 
Umdæmi og borgir í Lesótó

Umdæmin skiptast í 80 kjördæmi sem aftur skiptast í 129 sveitarfélög.

Íbúar breyta

Trúarbrögð breyta

 
Dómkirkja heilags Mikaels.

Talið er að yfir 95% íbúa Lesótó séu kristnir.[4] Af þeim eru 18,2% mótmælendatrúar, 15,4% hvítasunnufólk, 5,3% í biskupakirkjunni og 1,8% í öðrum kristnum trúfélögum.[5] 49,4% íbúa tilheyra kaþólsku kirkjunni,[5] sem erkibiskupinn af Maseru er yfir, ásamt þremur vígslubiskupum frá Leribe, Mohale og Qacha's Nek, sem mynda biskuparáð landsins. 9,6% íbúa eru í trúfélögum annarra trúarbragða og 0,2% trúlausir.[5]

Tilvísanir breyta

  1. „Lesotho Meteorological Services“. www.lesmet.org.ls. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. júlí 2015. Sótt 16. desember 2019.
  2. "Home | Mo Ibrahim Foundation" Geymt 21 mars 2016 í Wayback Machine. moibrahimfoundation.org.
  3. „HIV/AIDS in Lesotho“. HelpLesotho.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. nóvember 2014. „Lesotho has the second-highest HIV prevalence rate in the world – more than 23 percent of people, or just under one in four people in the country are living with HIV.“
  4. „Table: Christian Population as Percentages of Total Population by Country“. Pew Research Center. Afrit af uppruna á 11. maí 2017. Sótt 21. apríl 2018.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Lesotho“. Association of Religion Data Archives. 2015. Afrit af upprunalegu geymt þann 11 ágúst 2021. Sótt 18. maí 2020.
 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
   Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.