Landnámsmenn í Austfirðingafjórðungi
Landnámsmenn í Austfirðingafjórðungi og landnám þeirra. Farið er réttsælis um landið að hætti Landnámabókar og hefst upptalningin á Langanesi vestanverðu.
- Gunnólfur kroppa Þórisson nam Langanes allt fyrir utan Helkunduheiði og Gunnólfsvík. Hann bjó í Fögruvík.
- Finni nam Finnafjörð og Viðfjörð.
- Hróðgeir hvíti Hrappsson nam Sandvík norðan Digraness og að Viðfirði. Hann bjó að Skeggjastöðum.
- Eyvindur vopni Þorsteinsson nam allan Vopnafjörð frá Vestradalsá og bjó í Krossavík ytri.
- Steinbjörn körtur Refsson fékk land milli Vopnafjarðarár og Vestradalsár af Eyvindi vopna. Hann bjó að Hofi.
- Hróaldur bjóla nam land fyrir vestan Vestradalsá út til Digraness og bjó á Torfastöðum.
- Þorsteinn hvíti Ölvisson keypti land af Eyvindi vopna og bjó á Tóftavelli en flutti síðar að Hofi.
- Lýtingur Arnbjarnarson nam Vopnafjarðarströnd eystri, Böðvarsdal og Fagradal. Hann bjó í Krossavík.
- Þorfinnur bjó fyrstur á Skeggjastöðum að ráði Þórðar hálma.
- Þorsteinn torfi Arnbjarnarson nam Hlíð alla frá Ósfjöllum upp til Hvannár. Hann bjó að Fossvelli.
- Hákon nam Jökuldal vestan Jökulsár fyrir ofan Teigará. Hann bjó á Hákonarstöðum.
- Skjöldólfur Vémundarson nam Jökuldal austan Jökulsár upp frá Hnefilsdalsá. Hann bjó á Skjöldólfsstöðum.
- Þórður Þórólfsson nam öll Tungulönd milli Lagarfljóts og Jökulsár fyrir utan Rangá.
- Össur slagakollur nam land milli Ormsár og Rangár.
- Ketill Þórisson nam land vestan Lagarfljóts milli Hengifossár og Ormsár. Hann bjó á Arneiðarstöðum.
- Graut-Atli Þórisson nam eystri strönd Lagarfljóts milli Gilsá og Vallaness vestan Öxnalækjar.
- Brynjólfur gamli Þorgeirsson var fyrst í Eskifirði, en nam síðan Fljótsdal ofan Hengifossár og Gilsár, Skriðdal og Völluna út til Eyvindarár.
- Ævar gamli Þorgeirsson dvaldi fyrst í Reyðarfirði áður en hann fékk Skriðdal ofan Gilsár af Brynjólfi bróður sínum. Hann bjó á Arnaldsstöðum.
- Ásröður fékk öll lönd milli Gilsár og Eyvindarár af Brynjólfi gamla. Hann bjó á Ketilsstöðum.
- Hrafnkell Hrafnsson nam Hrafnkelsdal og bjó á Steinröðarstöðum.
- Uni Garðarsson nam land sunnan Lagarfljóts allt til Unalækjar. Hann fór síðar í Álftafjörð.
- Þorkell fullspakur nam Njarðvík og bjó þar.
- Veturliði Arnbjarnarson nam Borgarfjörð og bjó þar.
- Þórir lína nam Breiðuvík og bjó þar.
- Þosteinn kleggi nam Húsavík og bjó þar.
- Loðmundur gamli nam fyrst Loðmundarfjörð en fluttist síðar í Mýrdal.
- Bjólfur nam Seyðisfjörð allan og bjó þar.
- Án rammi fékk nyrðri strönd Seyðisfjarðar til Vestdalsár af Bjólfi.
- Eyvindur byggði Mjóafjörð.
- Egill rauði nam Norðurfjörð og bjó á Nesi.
- Freysteinn fagri nam Sandvík, Viðfjörð og Hellisfjörð. Hann bjó á Barðsnesi.
- Þórir hávi nam Krossavík milli Gerpis og Reyðarfjarðar.
- Krumur nam land á Hafranesi til Þernuness, Skrúð og aðrar úteyjar.
- Vémundur nam Fáskrúðsfjörð allan og bjó þar.
- Þórhaddur gamli nam Stöðvarfjörð allan og bjó þar.
- Hjalti nam Kleifarlönd og Breiðdal þar upp af.
- Herólfur nam land í Breiðdalsvík út til Hvalsnesskriðna.
- Herjólfur Þorgeirsson nam Heydalalönd neðan Tinnudalsár og út til Ormsár.
- Skjöldólfur nam land frá Skjöldólfsnesi við Fagradalsá út um Streiti allt inn að Gnúpi.
- Þjóðrekur nam fyrst Breiðdal en fór svo í Berufjörð og nam hann allan og um Búlandsnes að Rauðuskriðu. Hann bjó að Skála.
- Björn sviðinhorni nam Álftafjörð nyrðra inn frá Rauðuskriðu og Sviðinhornadal.
- Þorsteinn trumbubein nam land fyrir utan Leiruvog til Hvalsnessskriðna.
- Böðvar hvíti Þorleifsson nam alla dali inn frá Leiruvogi og Múla. Hann bjó að Hofi.
- Brand-Önundur nam Melrakkanes inn að Hamarsá og Kambsdal norðan Múla.
- Þórður skeggi Hrappsson nam land í Lóni milli Lónsheiðar og Jökulsár og bjó í Bæ. Síðar fluttist hann vestur í Mosfellssveit í Sunnlendingafjórðungi.
- Úlfljótur (sem flutti út lög til Íslands) keypti Lónlönd af Þórði skeggja.
- Þorsteinn leggur Bjarnarson nam öll lönd frá Jökulsá í Lóni að Horni og bjó í Böðvarsholti en fór svo aftur úr landi.
- Hrollaugur Rögnvaldsson nam land frá Horni til Kvíár. Hann bjó fyrst undir Skarðsbrekku í Hornafirði en síðan á Breiðabólstað í Fellshverfi.
- Ketill keypti Hornafjarðarströnd af Hrollaugi frá Horni inn til Hamra. Hann bjó að Meðalfelli.
- Auðunn rauði keypti land af Hrollaugi frá Hömrum til Viðborðs. Hann bjó á Hoffelli.
- Þorsteinn skjálgi keypti land af Hrollaugi frá Viðborði um Mýrar til Heinabergsár.
- Úlfur vörski keypti land af Hrollaugi frá Heinabergsá til Hregggerðismúla og bjó að Skálafelli.
- Þórður illugi Eyvindarson fékk land af Hrollaugi milli Jökulsár og Kvíár. Hann bjó undir Felli við Breiðá.
- Þorgerður nam allt Ingólfshöfðahverfi milli Kvíár og Jökulsár og bjó að Sandfelli.
- Helgi Heyangurs-Bjarnarson bjó að Rauðalæk.
- Gnúpa-Bárður Heyangurs-Bjarnarson nam fyrst Bárðardal (sjá Norðlendingafjórðung) en flutti síðar suður og nam Fljótshverfi allt. Bjó hann þá að Gnúpum.
- Eyvindur karpi nam land milli Almannafljóts og Geirlandsár og bjó að Fossi.
- Ketill fíflski nam land milli Geirlandsár og Fjarðarár og bjó í Kirkjubæ.
- Böðmóður nam land milli Drífandi og Fjarðarár og upp til Böðmóðshorns. Hann bjó í Böðmóðstungu.
- Eysteinn digri nam land austan Geirlandsár og bjó í Geirlandi.
- Eysteinn Hranason keypti Meðallönd af Eysteini digra og bjó að Skarði.
- Vilbaldur Dufþaksson nam Tunguland milli Skaftár og Hólmsár og bjó á Búlandi fyrst um sinn.
- Leiðólfur kappi nam land austan Skaftár að Drífandi og bjó að Á. Annað bú átti hann á Leiðólfsstöðum.
- Ísólfur skoraði á Vilbald til landa og eignaðist milli Kúðafljóts og Skaftár. Hann bjó eftir það á Búlandi.
- Hrafn hafnarlykill nam land milli Hólmsár og Eyjarár og bjó í Dynskógum en færði sig svo í Lágey.
- Molda-Gnúpur Hrólfsson nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Hann hrökklaðist síðar undan jarðeldi og flutti þá vestur í Grindavík (sjá Sunnlendingafjórðung).
- Eysteinn Þorsteinsson byggði Fagradal.
- Ölvir Eysteinsson nam land austan Grímsár og bjó í Höfða.
- Sigmundur kleykir Önundarson nam land milli Grímsár og Kerlingarár.
- Reyni-Björn nam land milli Kerlingarár og Hafursár og bjó að Reyni.
- Loðmundur gamli, sem áður hafði numið Loðmundarfjörð, kom austan og nam land að nýju milli Hafursár og Jökulsár á Sólheimasandi (Fúlalækjar). Hann bjó að Sólheimum.
Vestan Jökulsár á Sólheimasandi tekur við Sunnlendingafjórðungur.