Landnámsmenn í Sunnlendingafjórðungi

Landnámsmenn í Sunnlendingafjórðungi og landnám þeirra. Listinn fylgir upptalningu Landnámabókar sem byrjar á Ingólfi Arnarsyni í Reykjavík og telur þaðan réttsælis um landið.

  • Ingólfur Arnarson nam land milli Ölfusár og Brynjudalsár í Hvalfirði og öll nes út. Hann bjó í Reykjavík.
  • Vífill, þræll Ingólfs. Ingólfur gaf honum frelsi og land og bjó hann á Vífilsstöðum.
  • Þórður skeggi Hrappsson nam land með ráði Ingólfs milli Úlfarsár og Leiruvogs og bjó á Skeggjastöðum.
  • Hallur goðlaus Helgason nam land með ráði Ingólfs milli Leiruvogs og Mógilsár
  • Helgi bjóla Ketilsson nam Kjalarnes milli Mógilsár og Mýdalsár og bjó að Hofi.
  • Örlygur gamli Hrappsson nam land með ráði Helga bjólu frá Mógilsá til Ósvífurslækjar og bjó að Esjubergi.
  • Svartkell nam land milli Mýdalsár og Eilífsdalsár, bjó fyrst á Kiðafelli en síðan á Eyri.
  • Valþjófur Örlygsson nam Kjós og bjó á Meðalfelli.
  • Hvamm-Þórir, nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.
  • Þorsteinn Sölmundarson nam land milli Fossár og Botnsár.
  • Ávangur byggði fyrst í Botni í Hvalfirði.
  • Kolgrímur gamli Hrólfsson nam Hvalfjarðarströnd frá Botnsá til Kalmannsár og bjó á Ferstiklu.
  • Þormóður gamli Bresason nam land á Akranesi sunnan Reynis til Kalmannsár og bjó á Innri-Hólmi.
  • Ketill Bresason nam land á Akranesi vestan Reynis til Urriðaár.
  • Bekan fékk land í landnámi Ketils milli Berjadalár og Urriðaár. Hann bjó á Bekansstöðum.
  • Finnur auðgi Halldórsson nam land sunnan Laxár að Kalmannsá og bjó á Miðfelli.
  • Hafnar-Ormur nam Melasveit frá Laxá að Andakílsá og bjó í Höfn.
  • Grímur háleyski Þórisson fékk land af Skalla-Grími milli Andakílsár og Grímsár. Hann bjó á Hvanneyri.
  • Þorbjörn svarti keypti land af Hafnar-Ormi frá Seleyri til Fossár. Hann bjó á Skeljabrekku.
  • Skorri, leysingi Ketils gufu, nam Skorradal fyrir ofan vatn.
  • Björn gullberi nam Lundarreykjadal milli Grímsár og Flókadalsár. Hann bjó á Gullberastöðum.
  • Þorgeir meldún fékk lönd af Birni ofan Grímsár og bjó í Tungufelli.
  • Flóki, leysingi Ketils gufu, nam Flókadal milli Flókadalsár og Geirsár. Hann bjó í Hrísum.
  • Ólafur hjalti nam land að ráði Skalla-Gríms milli Grímsár og Geirsár og bjó að Varmalæk.
  • Ketill blundur nam land að ráði Skalla-Gríms milli Flókadalsár og Reykjadalsár upp að Rauðsgili. Hann bjó í Þrándarholti.
  • Geir auðgi Ketilsson, sonur Ketils blunds, bjó í Geirshlíð í Flókadal.
  • Önundur breiðskeggur nam alla tunguna milli Reykjadalsár og Hvítár. Hann bjó á Breiðabólstað.
  • Rauður nam land sunnan Reykjadalsár frá Rauðsgili til Gilja. Hann bjó að Rauðsgili.
  • Grímur nam land frá Giljum til Grímsgils og bjó við Grímsgil.
  • Þorkell kornamúli nam ásinn upp frá Kollslæk til Deildargils og bjó í Ási.
  • Úlfur Grímsson, sonur Gríms háleyska, nam land milli Hvítár og jökla. Hann bjó að Geitlandi.

Við Hvítá í Borgarfirði voru mörk fjórðunga. Héðan rekur Landnáma sig áfram réttsælis um Vestfirðingafjórðung, Norðlendingafjórðung og Austfirðingafjórðung. Við Jökulsá á Sólheimasandi er aftur komið í Sunnlendingafjórðung.

Tengt efni

breyta