Loðmundarfjörður
Loðmundarfjörður er fjörður norðarlega á Austfjörðum, á milli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystra. Norðan við Loðmundarfjörð er Húsavík. Loðmundarfjörður er í eyði, en þar eru hreindýr og búfjár á beit. Áður fyrr var Loðmundarfjörður sérstakt sveitarfélag, Loðmundarfjarðarhreppur, en var sameinaður Borgarfjarðarhreppi 1. janúar 1973.
Helstu kennileiti og fjallvegir
breytaLoðmundarfjörður er fremur stuttur og snýr sem næst í austur-vestur. Hann er umgirtur fjöllum, sem torvelda samgöngur. Helstu fjöll eru: Að sunnanverðu Rjúpnafell ytra og innra, Gunnhildur og Árnastaðfjall. Fyrir fjarðarbotni, milli Bárðarstaðadals og Hraundals, eru Herfell, Miðfell og Karlfell (Kallfell). Að norðanverðu eru: Kerlingarfjall, Skúmhöttur, Bungufell og Skælingur. Yst er Álftavíkurfjall.
Eitt mesta berghlaup á Íslandi, Loðmundarskriður eða Stakkahlíðarhraun, er í firðinum.
Sæmilegur jeppavegur er frá Borgarfirði um Húsavíkurheiði og Nesháls til Loðmundarfjarðar. Fornir fjallvegir og gönguleiðir eru: Kækjuskörð til Borgarfjarðar, Tó að Gilsárteigi í Eiðaþinghá, Árnastaðaskörð og Hjálmárdalsheiði til Seyðisfjarðar.
Býli í Loðmundarfirði
breytaByggðin í Loðmundarfirði skiptist um Fjarðará í Suðurbyggð og Norðurbyggð.
Suðurbyggð:
- Hjálmárströnd
- Sævarendi (í eyði frá 1974)
- Úlfsstaðapartur – Tilheyrir Úlfsstöðum, en var að fornu e.t.v. sérstök jörð. Þar eru rústir beitarhúsa, Ísleifsgerði, og við Hofsá eru fornar rústir.
- Árnastaðir
Örnefni benda til að í fornöld hafi býlið Hof verið á milli Sævarenda og Árnastaða.
Norðurbyggð:
- Bárðarstaðir
- Úlfsstaðir (í eyði frá 1959 eða 1960)
- Klyppsstaður – kirkjustaður (í eyði frá 1959 eða 1960)
- Stakkahlíð (í eyði frá 1974)
- Seljamýri
- Nes (í eyði frá 1953 eða 1954)
- Neshjáleiga (í eyði frá 1951 eða 1952)
- Innri-Álftavík
Saga og menning
breytaÍ Loðmundarfirði hefur þýski listmálarinn Bernd Koberling dvalist allmörg sumur og málað þar sérstæðar myndir, einkum vatnslitaverk.
Tenglar
breyta- Örnefni í Loðmundarfirði Geymt 17 apríl 2011 í Wayback Machine
- Borgarfjörður eystri — Vefsíða Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine