Reyni-Björn
Reyni-Björn var landnámsmaður í Mýrdal og nam land milli Kerlingarár og Hafursár. Hann bjó á Reyni í Reynishverfi.
Í Landnámabók segir að Björn hafi verið auðugur maður og ofláti mikill. Hann var frá Valdresi í Noregi og er eini landnámsmaðurinn sem er sagður hafa verið þaðan. Landnáma segir að hann hafi átt í erjum við Loðmund hinn gamla, nágranna sinn.
Hann er sagður hafa verið forfaðir Þorláks helga en ekki er vitað hvernig sú ætt er rakin.