Helgi Heyangurs-Bjarnarson
Helgi Heyangurs-Bjarnarson var landnámsmaður í Öræfasveit í Austur-Skaftafellssýslu. Hann var bróðir Gnúpa-Bárðar og Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnarsona. Samkvæmt Hauksbók helgaði Þorgerður ekkja Ásbjarnar sér Ingólfshöfðahverfi en Helgi nam síðan land næst henni að ráði hennar. Bárður flutti að sögn Landnámu suður um fjöll eftir skamma vist norður í Bárðardal og bjó á Núpsstað í Fljótshverfi, handan Skeiðarár.
Helgi hefur líklega átt land frá Skeiðará að Sandfelli, þar sem Þorgerður bjó. Hann bjó á Rauðalæk, sem líklega var á milli Svínafells og Sandfells. Þar var kirkjustaður seinna. Bærinn eyddist í Öræfajökulsgosinu 1362 og sjást nú engar menjar um hann.