Ásröður (landnámsmaður)

Ásröður var fyrsti bóndinn á Ketilsstöðum á Völlum og telst í hópi landnámsmanna þótt hann kæmi ekki að ónumdu landi þar, heldur fékk hann öll lönd austan Lagarfljóts, milli Gilsár og Eyvindarár, í heimanmund með konu sinni, Ásvöru Herjólfsdóttur, dóttur Herjólfs Þorgeirssonar, sem nam Heydalalönd. Eftir að faðir hennar dó hafði móðir hennar gifst bróður hans, Brynjólfi gamla, landnámsmanns í Fljótsdal og á Völlum, og réð hann giftingu Ásvarar og fékk henni heimanmund.

Landnámabók getur ekki um ætt Ásröðar en sonur þeirra Ásvarar var Þorvaldur holbarki. Dætur Holbarka voru Þórunn, kona Þorbjarnar Graut-Atlasonar, og Ástríður, formóðir Kolskeggs fróða, helsta heimildarmanns höfundar Landnámabókar um landnám í Austfirðingafjórðungi, og Finns Hallssonar lögsögumanns.

Þjóðsögur segja að Ásröður hafi verið heygður í Rauðshaugi, á hálsinum milli Valla og Eyvindarárdals.

Tenglar breyta

  • Landnámabók. Hjá snerpu.is“.