Þorgerður (landnámskona)
Þorgerður var landnámskona í Öræfasveit. Hún lagði af stað til Íslands ásamt manni sínum, Ásbirni Heyangurs-Bjarnarsyni, og sonum þeirra, en Ásbjörn dó á leiðinni. Synirnir hafa líklega verið börn eða unglingar því Þorgerður taldist fyrir landnáminu og segir í Hauksbók:
„En það er mælt, að kona skyldi eigi víðara nema land en leiða mætti kvígu tvævetra vorlangan dag sólsetra í millum, hálfstalið naut og haft vel. Því leiddi Þorgerður kvígu sína undan Tóftafelli, skammt frá Kvía suður og í Kiðjaklett hjá Jökulfelli fyrir vestan. Þorgerður nam því land um allt Ingólfshöfðahverfi á millum Kvíár og Jökulsár og bjó að Sandfelli.“
Jökulsá er án efa Skeiðará en óvíst er hvar hún rann á landnámsöld. Helgi, bróðir Ásbjarnar og mágur Þorgerðar, nam land vestan við landnám hennar. Í Sturlubók segir að Guðlaugur sonur Þorgerðar og Ásbjarnar hafi búið í Sandfelli eftir móður sína og frá honum séu Sandfellingar komnir. Annar sonur þeirra var Þorgils, forfaðir Hnappfellinga og sá þriðji Össur, faðir Þórðar Freysgoða.