Lögreglan á Íslandi

Lögreglan er ríkisstofnun sem hefur það meginhlutverk að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu. Í lögreglulögunum frá 1996 er hlutverk stofnunarinnar útlistað nánar. Einnig er þar tekið fram að dómsmálaráðherra sé æðsti yfirmaður lögreglunnar, en ríkislögreglustjóri stýri henni í hans umboði. Lögregluþjónar eru meðal fárra ríkisstarfsmanna sem mega beita valdi í starfi sínu. Alltaf þurfa þeir þó að gæta að því að beita ekki meira valdi en nauðsynlegt er.

Hlutverk lögreglu

breyta

Íslenska lögreglan hefur margþættu hlutverki að gegna samkvæmt lögum. Skipta þar mestu lögreglulögin, lög um meðferð sakamála og umferðarlögin. Hefur lögreglan reyndar einhverju hlutverki að gegna í samtals 80 núgildandi lögum.

Í 2. gr. lögreglulaga er hlutverk lögreglu skilgreint nánar:

Að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna og vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Helsta leiðin til að vinna að markmiðum þessa ákvæðis er almennt eftirlit lögreglu. Einkennis- sem óeinkennisklæddir lögregluþjónar starfa um allt land við eftirlit og eru til taks allan sólarhringinn.

Að stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins. Í þeim tilgangi hefur verið unnið að öflugu forvarnastarfi um allt land undir handleiðslu ríkislögreglustjóra og lögreglunnar í Reykjavík. Fræðsla til barna, unglinga og fullorðinna fer reglulega fram um flest málefni samfélagsins og haldið er uppi öflugu eftirliti með heimilum fólks um stórar ferðahelgar.

Að vinna að uppljóstran brota, stöðva ólögmæta háttsemi og fylgja málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð opinberra mála eða öðrum lögum. Að uppljóstran brota starfa aðallega rannsóknarlögregluþjónar. Í sumum tilvikum eru störf þeirra mjög sérhæfð, sérstaklega hjá lögreglunni í Reykjavík. Að rannsókn lokinni eru málin send löglærðum fulltrúum eða saksóknara til frekari ákvörðunar um framhaldið. Lög um merðferð opinberra mála eru mjög ítarleg um hvernig rannsókn mála skuli fara fram, sérstaklega hvað varðar þvingunarúrræði lögreglu, t.d. hlerun, handtöku og gæsluvarðhald svo eitthvað sé nefnt.

Að greiða götu borgaranna eftir því sem við á og aðstoða þá þegar hætta steðjar að. Einkennisklædd lögregla sér aðallega um þennan hluta starfsins. Lögregla gengir mikilvægu hlutverki þegar neyð skapast og þá getur viðbragðsflýtir skipt miklu. Til að tryggja sem best árangur þessa starfs tók lögreglan yfir rekstur almannavarna árið 2003 og starfsrækir fjarskiptamiðstöð lögreglu, en hún sér um öll neyðarútköll lögreglu sem berast til Neyðarlínunnar 112. Einnig er það hlutverk lögreglu að stýra leit og björgun fólks á landi í samvinnu við björgunarsveitir.

Að veita yfirvöldum vernd eða aðstoð við framkvæmd starfa sinna samkvæmt fyrirmælum laga eða venju eftir því sem þörf er á. Í fjöldamörgum lögum sem snerta rekstur annarra ríkisstofnana er fjallað um að sú stofnun geti kallað til lögreglu til að framfylgja ákvörðun þeirrar stofnunar.

Að starfa í samvinnu við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði lögreglu. Samstarf lögreglu við tollgæsluna og landhelgisgæsluna er mjög víðfemt og líklega skýrasta dæmið um ofangreint lagaákvæði. Samstarfið við tollgæsluna snýr aðallega að því að sporna við innflutningi fíkniefna, en samstarfs við Landhelgisgæsluna er margofnara, þjálfun er að hluta til sameiginleg, sérstaklega þjálfun í sprengjuleit og eyðingu og þjálfun sérsveitar ríkislögreglustjórans.

Að sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin í lögum eða leiðir af venju. Tvö atriði er sérstaklega talin upp í lögum um meðferð opinberra mála sem falla ágætlega að þessu ákvæði, það er skylda lögreglu til að rannsaka slys og bruna. Þetta ber að gera þrátt fyrir að ekki sé ástæða til að ætla að saknæmt athæfi hafi átt sér stað.

Saga lögreglunnar

breyta

Almenn saga

breyta

Á þjóðveldistíma var dómsvaldið bundið við Alþingi, þar sem goðar gátu dæmt menn fyrir brot sem þeir áttu að hafa framið. Ekkert framkvæmdavald var til í landinu til að fylgja dómnum eftir heldur þurfti sá sem brotið var á, eða ættingjar hans að honum látnum, að sjá til þess að dómnum væri framfylgt.

Fljótlega eftir að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd var nýr lagabókstafur tekinn upp, Jónsbók. Valdsmenn, umboðsmenn konungs, fengu þar hlutverk í íslensku samfélagi, og giltu þau lög fram á 18. öld. Valdsmenn þessir voru einnig kallaðir sýslumenn og var gert að handtaka þjófa og aðra misindismenn og sjá um að framfylgja dómum. Upp frá þessu urðu sakamál opinber mál og blóðhefndir lögðust af.

Lítil þróun varð í löggæslumálum á Íslandi fyrr en rétt fyrir aldamótin 1800. Bruni í Innréttingum Skúla Magnússonar árið 1778 varð til þess að vaktarar voru settir við verksmiðjurnar á næturnar. Fljótlega var vaktaranum sagt upp hjá Innréttingunum en annar var ráðinn til starfa hjá Reykjavíkurkaupstað.

15. apríl 1803 var svo skipaður bæjarfógeti í Reykjavík og hafði hann tvo einkennisklædda lögregluþjóna sér til aðstoðar, báða danska. Þeir hétu Ole Björn og Wilhelm Noldte. Fyrsti íslenski lögregluþjónninn, Jón Benjamínsson, tók til starfa árið 1814 og árið 1859 varð löggæsla á Íslandi alíslensk.

Lög um lögreglusamþykktir voru samþykkt á Alþingi árið 1891 og upp frá því var hafist handa við að ráða lögregluþjóna á helstu þéttbýlisstöðum víðsvegar um landið. Lögreglumönnum fjölgaði svo jafnt og þétt á landinu, sérstaklega í Reykjavík, í upphafi 20. aldar. Árið 1933 var stofnuð ríkislögregla á Íslandi í kjölfar óeirða sem urðu 1932 á bæjarstjórnarfundi í Reykjavík. Þrátt fyrir þetta voru flestir lögregluþjónar starfsmenn bæjarfélaga og varð ekki breyting þar á fyrr en 1972. Þá tók ríkið yfir rekstur lögreglu og hefur síðan þá aðeins verið eitt lögreglulið á Íslandi.

Rannsóknarlögregla ríkisins var stofnuð 1977 og sá um að rannsaka öll sakamál, þ.e. öll brot á almennum hegningarlögum. Einnig var hún öðrum embættum til aðstoðar.

Í September 1982 var Sérsveit Lögreglunnar í Reykjavík stofnuð, þegar fyrstu sérsveitarmennirnir luku æfingum með norsku sérsveitinni, sem ber nafnið Beredskapstroppen. Sérsveitin var færð undir embætti Ríkislögreglustjóra þegar það var stofnað 1997 og varð þá Sérsveit Ríkislögreglustjóra.

Árið 1992 urðu frekari breytingar á skipulagi lögreglu þegar dómsvald var tekið af sýslumönnum og fært til sérstakra héraðsdómstóla. Lög um meðferð opinberra mála voru endurskrifuð í leiðinni og færð í nútímalegra horf.

Embætti ríkislögreglustjóra var stofnað árið 1997 samfara því að Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður. Var rannsóknarskylda mála flutt að flestu leyti aftur til sýslumanna í þeim tilgangi að flýta málsmeðferð.

Ásakanir um kynþáttafordóma, útlendingaandúð og öfgahópamyndun

breyta

Fánamálið

breyta

Árið 2020 komst upp um hatursmerkingar á búningi Anítu Rutar Harðardóttur yfirlögregluþjóns.[1] Lögreglan sagðist líta málið alvarlegum augum en árið 2022 leit út fyrir að lögreglan hefði eingöngu litið málið sem brot á búningareglum en ekki brot á hegningarlögum. Merkin á búningnum voru Vinlandsfáninn með viðskeyttri "punisher hauskúpu," svarthvítur íslenskur fáni og svarthvítur íslenskur fáni með blárri línu. Tvö af merkjunum höfðu lengi verið kennd við kynþáttahatur og öðrun í gegnum notkun bandarísku lögreglunnar á merkjunum.[2][3][4]

Merkingar táknanna
breyta

Vínlandsfáninn átti að verða leyni merki hvítrayfirburðarsinna og "punisher hauskúpan" er unnin úr nasíska tákninu Totenkopf.[5][6][7][8] "Punisher hauskaupan" var mikið í umræðu í sambandi við notkun bandarísku lögreglunnar á merkinu sem ofbeldishótun og haturstákni.[9][10] "Þunna bláa línan" yfir þjóðarfána er samstöðu tákn lögregluþjóna víðsvegar um heim, merkingin er sú að lögreglan sé þunna blá línan milli siðmenningar og óreiðu.[11] Þunna bláa línan er einnig kennd við ofbeldishótanir og öðrun, bent hefur verið á að táknið haldi uppi "Við á móti þeim" hugmyndafræði.[12][13] Öll táknin höfðu verið notuð í kringum "blue lives matter" hreyfinguna í Bandaríkjunum, sem setti sig upp á móti baráttu Black Lives Matter hreyfingunnar.[10] Margir lásu í samhengi merkjana yfirlýsingu um kynþáttahyggju, útlendingaandúð, öfgaþjóðernishyggju og ofbeldishótanir.[14][15][16] Anítu til varnar var bent á að vínlandsfáni og "punisher hauskúpa" væru saklaus ein og sér. Á merkingum Anítu er "punisher hauskúpu" og vínlandsfána skeytt saman á einn og sama fánan.

Samstaða og öfgahópamyndun
breyta

Aníta neitaði að kannast við merkingar merkjana, hún var ekki látin ábyrgjast gjörðir sínar sem kunna að hafa brotið hegningarlög.[17][18] Aníta Rut Harðardóttir skipti um starfstöðvar árið 2022 og vinnur hjá ríkislögreglustjóra.[19]

Meðan á svokallaða "fánamálinu" stóð komu fyrrverandi lögregluþjónar fram til að fordæma umræðuna um Anítu, sem snerist einmitt um merkingar fyrrnefndra hatursmerkja. Þar á meðal var Arinbjörn Snorrason sagðist myndu lögsækja ummælendur sem kenndu Anítu Rut Harðardóttur við nýnasisma, í krafti landssambands lögreglumanna.[20] Samhliða þessari umfjöllun og samstöðu lögregluþjóna gegn umfjölluninni mynduðust þyngri sakir um öfgahópamyndun innan lögreglunnar.[21][22] Niðurstöður nefndar um eftirlit með lögreglu um málið hafa ekki verið birtar almenning.

Meint mannréttindabrot

breyta

Árin 2019 réðst lögreglan á friðsamleg mótmæli hælisleitenda og stuðningsmanna þeirra, myndbönd af atvikinu eru til og sýna lögregluþjón meðal annars neyta að ávarpa mótmælendur á tungumáli sem þeir skilji. [23][24][25] Lögreglan var ásökuð um að hafa brotið mannréttindi við upplausn þessara mótmæla vegna þess að 19. grein lögreglulaga, sem heimilar lögreglu valdbeitingu sé fyrirmælum hennar ekki fyglt, stangast mögulega á við alþjóðalög sem Ísland heyri undir.[23] Lögreglan neitar að valdi hafi verið misbeitt eða kynþáttafordómar birtir.[26]

Önnur afskipti lögreglu af hælisleitendum og stuðningsfólki þeirra hafa kallað fram viðbrögð almennings, bæði hefur hún verið kenndi við að framfylgja tilskipunum útlendingastofnunnar sem sagðar voru ómannúðlegar og að beita óþarfri hörku.[27][28]

Kynþáttahyggja og áreiti

breyta

Árið 2022 leitaði Lögreglan strokufanga og birti myndir af manninum sem leitað var af. Lögreglan fylgdi eftir tveimur ábendingum sem sem fengu talsverða umfjöllun fjölmiðla.[29] Lögregla barst ábending um að strokufangann væri mögulega að finna í strætó í Reykjavík. Sérsveit Ríkislögreglustjóra stöðvaði strætisvagninn og fór inn til að leita strokufangans en þar var 16 ára strákur sem var af sama kynþátt og strokufanginn. Sérsveit yfirgaf vettvang þegar kom í ljós að strokufangann var ekki að finna.[30] Önnur ábending barst um að strokufangann væri að finna í bakaríi í Mjóddinni. Lögregluþjónar frá Lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu fóru í bakaríið en þar var fyrrnefndi 16 ára drengur ásamt móður sinni sem var í talsverðu uppnámi vegna afskipta lögreglu af syni hennar.[31] Drengurinn og maðurinn sem leitað var voru taldir líkjast lítið, annar verandi einhverjum 30 sentímetrum hærri, en þeir féllu inn í sama "racial profile" og vilja því sumir meina að hann hafi verið áreittur af lögreglu.[32]

Lögreglan, ríkislögreglustjóri og Dómsmálaráðherra brugðust við þessum ásökunum með því að draga upplifanir þolenda um kynþáttafordóma í efa.[33] Dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri hörmuðu skaðan en neituðu sök lögreglunnar, bæði á skaðanum og ásökunum um kynþáttahyggju.[34][35]

Stjórnskipulag lögreglu

breyta

Dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglunnar á Íslandi. Í umboði hans fer ríkislögreglustjóri með daglega stjórn lögreglu í landinu. Aðalhlutverk embættis ríkislögreglustjóra er að samhæfa og samrýma lögregluliðin í landinu, svo sem með rekstri bílaflota og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga. Ríkislögreglustjóri fer því sjaldnast með eiginlega stjórn, nema í þeim tilvikum sem talið er að málin séu það víðfeðm að annað sé ekki gerlegt. Má þar nefna greiningardeild, alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sem sér um öll samskipti við erlend lögreglulið, sérsveit ríkislögreglustjóra sem sér um vopnaða öryggisgæslu og útköll þar sem vopnaðrar lögreglu er þörf.

Töluverðar skipulagsbreytingar innan lögreglunnar tóku gildi 1. janúar 2007, lögregluembættum fækkaði þá úr 26 í 15. Veigamesta breytingin var sú að embættin í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði voru sameinuð í eitt embætti fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Á Suðurnesjum voru embættin á Keflavíkurflugvelli og í Keflavík sameinuð. Á landsbyggðinni var lögreglustjórn í eftirfarandi sýslumannsumdæmum færð undir annan lögreglustjóra: Búðardalur var færður undir embættið í Borgarnesi; Bolungarvík, Hólmavík og Patreksfjörður undir Ísafjörð; Ólafsfjörður og Siglufjörður undir Akureyri; Höfn undir Eskifjörð og Vík undir Hvolsvöll.[36]

Stærsta lögreglulið landsins er lögregla höfuðborgarsvæðisins. Starfsemi þess skiptist niður í þrjú svið: löggæslusvið, lögfræði- og ákærusvið[37] og stjórnsýslu- og þjónustusvið, yfir hverju sviði er aðstoðarlögreglustjóri. Löggæslusviðið skiptist svo í þrjár deildir sem lúta stjórn yfirlögregluþjóna: almenna deild, umferðardeild og rannsóknardeild. Rannsóknardeild er einnig skipt niður eftir þeim málaflokkum sem eru til rannsóknar, s.s. fíkniefnadeild, auðgunarbrotadeild, ofbeldisbrotadeild og kynferðisbrotadeild.[38] Við lögreglu höfuðborgarsvæðisins er einnig starfandi tæknideild, undir löggæslusviði, en hún sinnir einnig útköllum á landsvísu. Þar eru framkvæmdar margvíslegar tæknirannsóknir, allt frá töku fingrafara til DNA-rannsókna.

Fyrir utan embættið á höfuðborgarsvæðinu eru sérstakar rannsóknardeildir starfræktar við embættin á Suðurnesjum, Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði og Selfossi. Deildirnar á Akranesi, Akureyri, Eskifirði og Selfossi ná einnig yfir önnur embætti í viðkomandi landshlutum.

Embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var áður undir stjórn utanríkisráðuneytisins en ekki dómsmálaráðuneytisins eins og önnur sýslumannsembæti landsins. Þetta kom til af því að stór hluti embættisins var bandarísk herstöð. Breyttar aðstæður í kjölfar brottfarar varnarliðsins á árinu 2006 urðu til þess að embættið var fært undir dómsmálaráðuneytið þann 1. janúar 2007 samhliða því sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli tók við lögreglustjórn á öllum Suðurnesjum. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli sinnir nokkrum sérhæfðum störfum, aðallega varðandi eftirlit á varnarsvæðinu og landamæraeftirlit.

Lögreglumenn

breyta

Til að geta starfað sem lögreglumaður þarf einstaklingur að vera orðinn 20 ára, hafa lokið stúdentsprófi, hafa hreinan sakaferil og vera andlega og líkamlega heilbrigður samkvæmt læknisvottorði.

Til að verða fullgildur lögreglumaður þarf að ljúka 2 ára bakkalárs námi í lögreglufræði frá Háskólanum á Akureyri, en kennsla fer fram í fjarnámi og því hægt að sækja hvert á land sem er. Verklegi hluti námsins er kennt í lotum og er í höndum Mennta og Starfsþróunarsetri Lögreglu þar sem reyndir lögreglumenn stýra kennslu og snúa beint að lögreglustarfinu sjálfu. Áður var námið í höndum Lögregluskóla Ríkisins en hann var lagður niður 2016 og tók þá við nýja námið.

Starf lögreglumanna er mjög fjölþætt. Sýnilegasti hlutinn er líklega einkennisklædd lögregla við eftirlit á vegum úti. Ásamt því að sinna eftirlit með umferð sér einkennisklædd lögregla líka um flest útköll sem upp koma. Flóra þeirra er óendanleg og eru fyrstu menn á vettvang flestra alvarlegra brota einkennisklæddir lögreglumenn í útkalli. Þeir sjá um þær aðgerðir sem þarf að framkvæma á vettvangi, hvort sem það er handtaka brotamanna eða lokun vettvangs svo frekari rannsóknarvinna geti farið fram.

Störf rannsóknarlögreglumanna er einnig mjög mismunandi. Í flestum tilvikum er verið að rannsaka glæp sem hefur átt sér stað og verið tilkynnt um, t.d. líkamsárásir og þjófnaði. Einn flokkur mála sker sig út úr hvað þetta varðar, þar skiptir mestu að lögreglumenn séu vel á verði og rannsaki mál á eigin spýtur, það er fíkniefnamál. Áður hefur verið minnst á tæknideild lögreglunnar í Reykjavík sem er sérhæfð í rannsókn brotavettvanga.

Frá árinu 2003 hefur verið unnið ötult verk við að efla stjórnunareiningar innan lögreglunnar með sérstöku stjórnunarnámi fyrir yfirmenn. Starf þetta er unnið í samvinnu framhaldsdeildar lögregluskóla ríkisins og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.

Einkenni og tign

breyta

Lögreglan starfar að mestu í einkennisbúningum og hafa starfsmenn hennar tign eftir starfi og ábyrgð. Tignarheiti lögreglunnar eru eftirfarandi:

Lögreglustjóri, varalögreglustjóri, yfirlögregluþjónn, aðstoðaryfirlögregluþjónn, aðalvarðstjóri/lögreglufulltrúi, varðstjóri/rannsóknarlögregluþjónn, lögregluþjónn og afleysingamaður/héraðslögregluþjónn.

Til að geta orðið lögreglustjóri eða varalögreglustjóri þarf viðkomandi að uppfylla sömu skilyrði og sett eru til að hljóta skipun sem héraðsdómari.

Tignarheitin aðalvarðstjóri og lögreglufulltrúi er jafnhá, sem og tignarheitin varðstjóri og rannsóknarlögregluþjónn. Skiptingin er tilkomin vegna þess munar sem er á störfum rannsóknardeilda og almennra deilda. Aðalvarðstjórar stýra vöktum og varðstjórar stýra einstökum lögregluþjónum. Á hinn bóginn stýra lögreglufulltrúar rannsóknardeildum og rannsóknalögregluþjónar stýra rannsókn einstakra mála.

Afleysingamenn og héraðslögregluþjónar eru þeir sem eru ráðnir til lögreglustarfa án þess að hafa lokið prófi frá lögregluskóla ríkisins. Afleysingamenn eru ráðnir til lengri tíma, en héraðslögregluþjónar eru aðallega notaðir á landsbyggðinni til að styrkja liðin þegar stærri viðburðir eru í gangi.

Starfsstig Danska lögreglan Norska lögreglan Sænska lögreglan
Sænska saksóknarar
Finnska lögreglan
Finnska saksóknarar
Lögreglustjóri Politimester Politimester Polismästare
Chefsåklagare
Poliisipäällikkö
Valtakunnansyyttäjä
Varalögreglustjóri Vicepolitimester Visepolitimester
Politiadvokat
Polisintendent
Kammaråklagare
Apulaispoliisipäällikkö
Kihlakunnansyyttäjä
Yfirlögregluþjónn Politiinspektør Politistasjonssjef
Lensmann
Poliskommissarie
(sektionschef)
Ylikomisario
Aðstoðaryfirlögregluþjónn Vicepolitiinspektør Politioverbetjent Poliskommissarie Komisario
Lögreglufulltrúi Politifuldmægtig Politifullmektig Assistentåklagare Apulaissyyttäjä
Aðalvarðstjóri Politikommissær Politiførstebetjent Polisinspektör
(gruppchef)
Ylikonstaapeli
Varðstjóri Vicepolitikommissær Politibetjent 3 Polisinspektör Ylikonstaapeli
Rannsóknarlögreglumaður Vicepolitikommissær Politibetjent 3 Kriminalinspektör Rikosylikonstaapeli
Lögreglumaður Politiassistent
Politibetjent
Politibetjent 2
Politibetjent 1
Polisassistent Vanhempi konstaapeli

Nuorempi konstaapeli

Lögreglunemi Politiaspirant Student ved Politihøgskolen Polisaspirant ..
Afleysingamaður í lögreglu jafngildi vantar jafngildi vantar jafngildi vantar jafngildi vantar
Héraðslögreglumaður jafngildi vantar jafngildi vantar jafngildi vantar jafngildir vanta

Tengt efni

breyta

Heimildir

breyta
  • Lögreglan á Íslandi: stéttartal og saga

Neðanmálsgreinar

breyta
  1. ÞRÁINSDÓTTIR, ANNA SIGRÍÐUR (21. október 2020). „Lögreglan lítur fánamálið alvarlegum augum“. RÚV. Sótt 23. apríl 2022.
  2. Yaghi, Nadine Guðrún. „Blöskrar ummæli þingmanns og merkir engan rasisma - Vísir“. visir.is. Sótt 24. apríl 2022.
  3. „Letters to the Editor: We need to talk about racism and 'blue lives matter'. Los Angeles Times (bandarísk enska). 18. apríl 2021. Sótt 24. apríl 2022.
  4. Lewis, James E. (23. febrúar 2019). „Formulated Racism and the Thin Blue Line Flag“. Law Enforcement Today (bandarísk enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 26. september 2022. Sótt 24. apríl 2022.
  5. Ónafngreindur. „Stormfront“.
  6. „Vinland Flag“. Anti-Defamation League (enska). Sótt 23. apríl 2022.
  7. León, Gregorio. „Marvel's "Punisher" Was a Hate Symbol Long Before Police Co-opted His Character“. Truthout (bandarísk enska). Sótt 23. apríl 2022.
  8. „Totenkopf“. Anti-Defamation League (enska). Sótt 23. apríl 2022.
  9. Masciotra, David (28. apríl 2019). „The Punisher skull: Unofficial logo of the white American death cult“. Salon (enska). Sótt 23. apríl 2022.
  10. 10,0 10,1 „Why have Blue Lives Matter and QAnon adopted the skull symbol of comic book vigilante, the Punisher?“. The Millennial Source (bandarísk enska). 19. apríl 2020. Sótt 23. apríl 2022.
  11. „That Thin Blue Line – What Does It Really Mean?, National Police Association“. National Police Association (bandarísk enska). 29. október 2020. Sótt 24. apríl 2022.
  12. „The Short, Fraught History of the 'Thin Blue Line' American Flag“. The Marshall Project (enska). 8. júní 2020. Sótt 23. apríl 2022.
  13. „Police chief bans 'Thin Blue Line' imagery, says it's been 'co-opted' by extremists“. NBC News (enska). Sótt 23. apríl 2022.
  14. „Hvenær er rasisti rasisti?“. Sósíalistaflokkurinn. Sótt 23. apríl 2022.
  15. Nadine Guðrún Yaghi, Samúel Karl Ólason. „„Þetta eru alls ekki skilaboð sem lögregla vill senda frá sér" - Vísir“. visir.is. Sótt 23. apríl 2022.
  16. Fontaine, Andie Sophia (21. október 2020). „From Iceland — Flags On Police Uniform Raise Questions; Capital Area Police Respond“. The Reykjavik Grapevine (bandarísk enska). Sótt 23. apríl 2022.
  17. „19/1940: Almenn hegningarlög“. Alþingi. Sótt 23. apríl 2022.
  18. GUNNARSSON, FREYR GÍGJA (25. desember 2020). „Brutu ekki siðareglur með frétt um fána lögreglukonu“. RÚV. Sótt 23. apríl 2022.
  19. Hassell Guðmundsson, Árni Reynir. „Umfjöllun Árna“. Facebook. Sótt 23. apríl 2022.
  20. „Authorities Denounce Racist Symbols While Officer Rejects Accusation of Racism“. Iceland Review (bandarísk enska). 23. október 2020. Sótt 23. apríl 2022.
  21. Hassell Guðmundsson, Árni Reynir. „Ásökun Árna um samstöðu“. Facebook. Sótt 23. apríl 2022.
  22. „Nýju fánar löggunnar - fornleifur.blog.is“. fornleifur.blog.is. Sótt 23. apríl 2022.
  23. 23,0 23,1 „A Stacked Deck: Police, Courts, And The Right To Protest In Iceland“. The Reykjavik Grapevine (bandarísk enska). 25. nóvember 2020. Sótt 23. apríl 2022.
  24. „Valdbeiting lögreglu talin nauðsynleg“. www.mbl.is. Sótt 24. apríl 2022.
  25. „Piparúða beitt á Austurvelli“. www.mbl.is. Sótt 24. apríl 2022.
  26. Olgeirsson, Birgir. „Lögreglan sver af sér rasisma og harðræði - Vísir“. visir.is. Sótt 24. apríl 2022.
  27. „Annar hælisleitandinn endaði á sjúkrahúsi eftir handtöku lögreglu - Aktívisti segir hann hafa verið laminn“. DV. 8. júlí 2021. Sótt 24. apríl 2022.
  28. „Laugarneskirkja opin hælisleitendum“. www.mbl.is. Sótt 24. apríl 2022.
  29. „Vegna gagnrýni á aðgerðir lögreglu“. Lögreglan. 20. apríl 2022. Sótt 24. apríl 2022.
  30. Örlygsdóttir, Urður. „Sérsveitin leitaði að strokufanganum í strætó - RÚV“. ruv.is. Sótt 7. október 2022.
  31. Ólafsdóttir, Kristín. „Maður á Teslu hafi tilkynnt son hennar í bakaríinu - Vísir“. visir.is. Sótt 24. apríl 2022.
  32. Tilvísunar villa: Villa í <ref> tag; tilgreindu texta fyrir tilvísun með nafnið :1
  33. Logadóttir, Fanndís Birna. „Lögregla hafi ekki átt annarra kosta völ: „Við erum að leita að hættulegum manni" - Vísir“. visir.is. Sótt 24. apríl 2022.
  34. Proppé, Kristín Ólafsdóttir,Óttar Kolbeinsson. „Hafnar því að rasismi grasseri innan lögreglunnar - Vísir“. visir.is. Sótt 24. apríl 2022.
  35. Logadóttir, Fanndís Birna. „Lögregla hafi ekki átt annarra kosta völ: „Við erum að leita að hættulegum manni" - Vísir“. visir.is. Sótt 24. apríl 2022.
  36. Um breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92 1. júní 1989, skoðað þann 19. janúar 2007.
  37. „Breytingar á skipan saksóknara“. Sótt 19. janúar 2007.
  38. „Nýtt lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu – helstu áhersluatriði, skipulag og yfirstjórn nýs embættis“. Sótt 19. janúar 2007.

Tenglar

breyta