Vík í Mýrdal

Vík í Mýrdal

Vík (einnig þekkt sem Vík í Mýrdal) er þorp í Mýrdalshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu og er syðsti þéttbýlisstaður á Íslandi. Róið var til fiskjar úr fjörunni fyrr á árum en sjósókn var mjög erfið þar sem engin hafnaraðstaða var og mjög brimasamt. Íbúafjöldi 1. janúar 2023 var 645 en 877 manns búa í Mýrdalshreppi.[1]

 
Vík í Mýrdal, séð úr fjöru
 
Séð til Reynisdranga frá Vík í Mýrdal.

Öldum saman var enginn verslunarstaður á Suðurlandi frá Eyrarbakka austur á Papós en árið 1883 tóku bændurnir í Suður-Vík og Norður-Vík í Mýrdal sig saman um að panta varning frá Bretlandi og selja hann heima hjá sér. Þá stóð svo á að í kjölfar mikilla harðinda höfðu fátækir bændur í Skaftafellssýslu fengið peningaúthlutun og gátu nýtt féð til að kaupa varning í stað þess að fara um óravegu með sauðfé og aðra framleiðsluvöru til að leggja inn hjá kaupmönnum og taka út nauðsynjavöru, en slík ferðalög gátu tekið tvær eða þrjár vikur.

Í framhaldi af þessu var komið upp verslun í Vík, farið var að slátra þar sauðfé og árið 1903 var reist þar tvílyft verslunarhús og annað skömmu síðar. Þorp myndaðist smám saman í kringum verslunina og árið 1905 bjuggu í Vík um 80 manns á þrettán heimilum. Skólahald hófst þar upp úr aldamótunum 1900.

Þjónusta og atvinna

breyta
 
Vík úr lofti.

Víkurkirkja var reist á árunum 1932-1934 en prestur hafði setið í kauptúninu frá 1911. Kirkjan stendur hátt yfir þorpinu og er talin ein af fáum opinberum byggingum sem yrði örugg fyrir hamfaraflóði í kjölfar Kötlugoss.

Læknissetur hefur verið í Vík frá 1915 en fyrstur til að sitja þar var raunar Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem þar bjó frá 1809-1833. Nú er heilsugæslustöð í Vík og þar er einnig dvalarheimili aldraðra.

Helstu atvinnuvegir eru verslun og þjónusta, bæði við bændur í Vestur-Skaftafellssýslu og í vaxandi mæli við ferðamenn, en þjóðvegur 1 liggur í gegnum Vík og margir vinsælir ferðamannastaðir eru í nágrenninu. Talsverður iðnaður er í Vík. Þar eru meðal annars verksmiðja Icewear (áður Víkurprjón) og bruggverksmiðjan Smiðjan.

Tilvísanir

breyta
  1. „Sveitarfélög og byggðakjarnar“. Hagstofa Íslands. Sótt 31.8.2023.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta