Kirgistan

(Endurbeint frá Kyrgyzstan)

Kirgistan er landlukt ríki í Mið-Asíu með landamæri að Kína í austri, Kasakstan í norðri, Tadsíkistan í suðri og Úsbekistan í vestri. Höfuðborg landsins og stærsta borgin er Bishkek. Kirgisar eru meirihluti íbúa landsins en þar búa líka stórir hópar Rússa og Úsbeka. Kirgisíska er tyrkískt mál og er opinbert mál landsins ásamt rússnesku. 90% íbúa Kirgistans eru múslimar og meirihlutinn aðhyllist súnní íslam. Menning Kirgistans ber merki um áhrif Rússa, Mongóla og Írana.

Kirgistan
Кыргыз Республикасы
Qırğız Respublikası
Fáni Kirgistans Skjaldarmerki Kirgistans
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Þjóðsöngur Kirgistan
Staðsetning Kirgistans
Höfuðborg Bishkek
Opinbert tungumál Kirgisíska, rússneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Sadyr Japarov
Forsætisráðherra Akylbek Japarov
Sjálfstæði
 • frá Rússlandi 27. nóvember 1917 
 • Sovétlýðveldi 5. desember 1936 
 • frá Sovétríkjunum 31. ágúst 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
85. sæti
199.951 km²
3,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
110. sæti
6.586.600
28/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 35,324 millj. dala (127. sæti)
 • Á mann 5.470 dalir (158. sæti)
VÞL (2019) 0.697 (120. sæti)
Gjaldmiðill Som (KGS)
Tímabelti UTC+6
Þjóðarlén .kg
Landsnúmer +996

Kirgistan hefur verið hluti af ýmsum menningarsvæðum og stórveldum. Landið var hluti af Silkiveginum og öðrum verslunarleiðum um Mið-Asíu. Landið hefur verið undir stjórn Göktyrkja, Úígúraveldisins og Kitana, þar til Mongólar lögðu það undir sig á 13. öld. Landið varð aftur sjálfstætt en varð fyrir innrásum Kalmyka, Mansjúmanna og Úsbeka. Árið 1876 varð landið hluti af Rússneska keisaradæminu. Kirgistan var Sovétlýðveldi til 1991 þegar landið fékk sjálfstæði. Forseti landsins, Askar Akajev, sagði af sér 4. apríl 2005 í kjölfar Túlípanabyltingarinnar. Eftirmaður hans, Kurmanbek Bakiyev, neyddist einnig til að segja af sér og flýja land í kjölfar blóðugra uppþota árið 2010. Eins fór með forsetann Sooronbay Jeenbekov, sem sagði af sér eftir fjöldamótmæli árið 2020.[1]

Kirgistan er aðili að Samveldi sjálfstæðra ríkja, Evrasíska efnahagssambandinu, Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni, Samvinnustofnun Sjanghæ, Samtökum um íslamska samvinnu, Tyrkíska ráðinu, Türksoy og Sameinuðu þjóðunum. Kirgistan er þróunarland og situr í 120. sæti Vísitölu um þróun lífsgæða. Landið er það annað fátækasta í Asíu. Efnahagur landsins reiðir sig á olíu og jarðgas, ásamt vinnslu gulls, úrans og steinkola.

Orðið Kyrgyz er dregið af tyrkíska orðinu yfir „fjörutíu“ og vísar til ættbálkanna 40 sem sagnahetjan Manas sameinaði gegn Úígúrum. Kyrgyz merkir bókstaflega „við erum fjörutíu“. Á 9. öld réðu Úígúrar yfir stórum hluta þess sem í dag eru Mið-Asía, Mongólía, Rússland og Kína. Viðskeytið -stan kemur úr persnesku og merkir „staður“ eða „land“.

Sólin í fána Kirgistans er með fjörutíu geisla sem vísar til ættbálkanna fjörutíu, og hringurinn í miðjunni er lykilhringurinn, tunduk, efst á júrt, tjaldhýsi sem hirðingjar Mið-Asíu bjuggu í.

Opinbert heiti landsins er „Kyrgyz-lýðveldið“ en í flestum málum er landið kallað einhverju afbrigði af Kirgistan. Eldra heiti þess, Kirgisía, er notað í nokkrum málum, til dæmis rússnesku og grísku.

Landfræði

breyta
 
Hæðakort af Kirgistan.

Kirgistan er landlukt land í Mið-Asíu með landamæri að Kasakstan, Kína, Tadsíkistan og Úsbekistan. Það liggur milli 39. og 44. breiddargráðu norður og 69. og 81. lengdargráðu austur. Það er lengra frá sjó en nokkurt annað land og öll vatnsföll í landinu renna í lokuð vatnasvið sem ekki tengjast neinum úthöfum. Fjallahéraðið Tian Shan nær yfir 80% landsins og Kirgistan er stundum kallað „Sviss Asíu“ vegna þess.[2]

Stöðuvatnið Ysyk-Köl er annað stærsta fjallavatn heims, á eftir Titikaka. Lægsti punktur Kirgistans er Kara-Daryya í 132 metra hæð yfir sjávarmáli, og hæstu fjöll landsins eru Kakshaal-Too-fjallgarðurinn sem myndar landamærin við Kína. Hæsti tindur Kirgistans er Jengish Chokusu í 7.439 metra hæð, sem er líka talið nyrsta fjall heims sem nær yfir 7.000 metra. Mikil snjókoma á vetrum leiðir oft til skyndiflóða á vorin sem geta valdið miklu tjóni. Kirgistan framleiðir mikið rafmagn með vatnsaflsvirkjunum.

Í Kirgistan er að finna mikið af gulli og lantaníðum. Þar sem landið er mjög fjalllent eru innan við 8% þess ræktarland, mest á láglendinu í norðurhlutanum og á jaðri Ferganadals. Höfuðborgin og stærsta borg Kirgistans er Bishkek í norðurhlutanum með um milljón íbúa. Önnur stærsta borgin er Osh í Ferganadal við landamærin að Úsbekistan. Stærsta fljót Kirgistans er Kara Darya sem rennur í vestur gegnum Ferganadal inn í Úsbekistan þar sem það mætir Naryn og verður að Syr Darya sem áður rann í Aralvatn. Eftir 2010 hefur áin ekki náð þangað þar sem vatnið er nýtt í áveitur á bómullarakra ofar í árfarveginum, í Tadsíkistan, Úsbekistan og Kasakstan. Chu-fljót rennur líka um Kirgistan áður en það rennur inn í Kasakstan.

Stjórnmál

breyta

Héruð í Kirgistan

breyta

Kirgistan skiptist í sjö héruð sem héraðsstjórar stjórna. Höfuðborgin, Bishkek, og önnur stærsta borgin, Osh, eru sjálfstæðar með sömu stjórnsýslulegu stöðu og héruðin.

 
Héruð Kirgisistan

Héruðin og sjálfstjórnarborgirnar eru:

  1. Borgin Bishkek
  2. Batken
  3. Chuy
  4. Jalal-Abad
  5. Naryn
  6. Osh
  7. Talas
  8. Issyk-Kul
  9. Borgin Osh

Hvert hérað skiptist í nokkur umdæmi (raion) með umdæmisstjórum sem ríkisstjórnin skipar. Sveitahéruð (ayıl ökmötü) með allt að 20 smáþorpum hafa sinn eigin kjörna sveitarstjóra og sveitarstjórn.

Tilvísanir

breyta
  1. „For­seti Kirg­ist­an seg­ir af sér“. mbl.is. 15. október 2020. Sótt 16. október 2020.
  2. Escobar, Pepe (26. mars 2005). „The Tulip Revolution takes root“. Asia Times Online. Afritað af uppruna á 27. mars 2005.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.