Kristján Jónsson (dómsstjóri og ráðherra)

Kristján Jónsson (f. 4. mars 1852, á Gautlöndum við Mývatn, d. 2. júlí 1926) var íslenskur embættismaður og stjórnmálamaður. Kristján var ráðherra Íslands árin 19111912.

Kristján Jónsson

Fjölskylda og uppvöxtur

breyta

Fjölskylda Kristjáns var fyrirferðarmikil í íslenskum stjórnmálum á nítjándu öld og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Foreldrar Kristjáns voru Jón Sigurðsson alþingismaður og kona hans Solveig Jónsdóttir, húsmóðir. Bræður Kristjáns voru Pétur Jónsson alþingismaður og ráðherra og Steingrímur Jónsson alþingismaður. Kristján var tengdafaðir Sigurðar Eggerz alþingismanns og ráðherra. Árið 1880 giftist Kristján Önnu Þórarinsdóttur, dóttur Þórarins Böðvarssonar alþingismanns. Þau áttu saman átta börn.

Embættisstörf

breyta

Kristján lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum árið 1870 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1875. Eftir útskrift starfaði Kristján sem Landfógetaskrifari 1876 – 1877. Árið 1878 var hann gerður sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu en því embætti gegndi hann í átta ár, til 1886. Hann lét af því embætti er hann var skipaður annar meðdómari og dómsmálaritari í Landsyfirrétti. Árið 1889 var hann skipaður fyrsti meðdómari og árið 1908 dómsstjóri og háyfirdómari. Því embætti gegndi hann til 1911 er hann gegndi embætti ráðherra. Eftir að hafa látið af ráðherrastörfum tók Kristján aftur við dómsstjóraembættinu sem hann gegndi til 1919 er Landsyfirréttur var lagður niður. Kristján var þá skipaður dómsstjóri við Hæstarétt, en hann gegndi því starfi til dauðadags.

Dómarastörfin voru aðalstörf Kristjáns, en auk þeirra gegndi hann ýmsum öðrum embættum og trúnaðarstörfum. Kristján var settur amtmaður í Suður- og vesturamtinu 1891 – 1894. Gæslustjóri Landsbankans 1898 – 1909. Endurskoðandi landsreikninganna 1889 – 1895. Skipaður formaður milliþinganefndar í kirkjumálum 1904 en sagði því starfi af sér 1905. Endurskoðandi Íslandsbanka 1915 – 1920. Á árunum 1912 – 1914 var Kristján settur bankastjóri Íslandsbanka. Árin 1877, 1887 og 1891 var Kristján skrifstofustjóri Alþingis.

Kristján kenndi kirkjurétt við Prestaskólann 1889 – 1908 og árin 1904 – 1909 var hann forseti Reykjavíkurdeildar Bókmenntafélagsins.

Í minningargrein um Kristján sem birtist í Ísafold sagði:

 

Með láti Kristjáns Jónssonar er lokið löngum og merkilegum starfsferli. Enginn íslenskur maður núlifandi hefir gegnt jafnmörgum og miklum trúnaðarstörfum og hann, nje jafnlengi. ...
Kristján Jónsson var óvenjulega vel gefinn maður, bæði andlega og líkamlega. Hann var ágætlega gáfaður maður, vel að sjer og víðlesinn. Munu fáir hjer hafa fylgst jafnvel með því, sem gerðist með öðrum þjóðum. Lagamaður var hann góður. Hann var föngulegur maður og fyrirmannlegur og sköruglegur í framgöngu. [1]

 
 
— Ísafold

Stjórnmálaferill

breyta

Á Hafnarárum sínum kynntist Kristján Jóni Sigurðssyni forseta og var með honum í ritnefnd Andvara á síðasta ári sínu í háskóla, 1875. Árin 18931905 sat hann á Alþingi sem konungkjörinn þingmaður. Kristján fylgdi Valtý Stefánssyni í stjórnarskrármálinu og var einn stofnenda Framsóknarflokksins eldri. Árið 1908 var Kristján kosinn á þing fyrir Borgfirðinga og aftur 1911 og sat á þingi til 1913, fyrst fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri, en hann gekk úr flokknum 1911 og sat eftir það á þingi utan flokka. Kristján gegndi embætti varaforseta efri deildar 1901 og forseta efri deildar 1909.

Þann 14. mars 1911 var Kristján skipaður ráðherra Íslands. Kristján fékk lausn frá embætti 24. júlí 1912.

Eftir 1913 bauð Kristján sig ekki aftur fram til Alþingis og hætti afskiptum af stjórnmálum.

Tilvísanir

breyta
  1. Minningargrein um Kristján Jónsson, Ísafold 35. tbl. 51 árg (6. júlí 1926), bls. 1.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Björn Jónsson
Ráðherra Íslands
(14. mars 191125. júlí 1912)
Eftirmaður:
Hannes Hafstein