Landsbankinn

íslenskur viðskiptabanki

Landsbankinn hf. er íslenskur viðskiptabanki sem tók til starfa í núverandi mynd þann 9. október 2008. Rætur bankans ná þó allt aftur til ársins 1886 þegar Landsbanki Íslands hóf starfsemi sína.

Landsbankinn hf.
Rekstrarform Banki
Stofnað 9. október 2008
Staðsetning Reykjavík, Ísland
Lykilpersónur Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri
Starfsemi Banki
Starfsfólk 1100
Vefsíða www.landsbankinn.is/

Landsbanki Íslands (1886–2008)

breyta

Landsbanki Íslands var stofnaður 18. september 1885[1] en hóf starfsemi sína 1. júlí 1886. Bankinn var því elsti banki Íslands.

 
Landsbankinn við Austurstræti um 1915.

Bankinn var fyrst staðsettur í Bankastræti í Reykjavík og voru þá þrír starfsmenn í hlutastarfi skipaðir af landshöfðingja. Þann 19. apríl 1887 var Landsbankinn sameinaður Sparisjóði Reykjavíkur. Á fyrstu fimm árum starfseminnar lánaði bankinn ríflega eina milljón króna. Árið 1893 sagði Lárus E. Sveinbjarnason, yfirdómari, starfi sínu lausu, en hann var fyrsti bankastjóri Landsbankans. Sex sóttu um starfið en þeir voru séra Arnljótur Ólafsson, Kristján Ziemsen kaupmaður, Sighvatur Bjarnason bankabókari, Sigurður Briem cand. polit og Tryggvi Gunnarsson kaupstjóri sem var ráðinn. Árið 1896 keypti Landsbankinn töluvert landsvæði í miðbænum til undirbúnings fyrir byggingu stórhýsis á þess tíma mælikvarða.

Ári seinna var kvartað yfir Tryggva Gunnarssyni bankastjóra á Alþingi. Hann var gagnrýndur fyrir að vera bankastjóri, þingmaður og standa í útgerð þilskipa allt í senn. Landshöfðingi vísaði gagnrýninni á bug enda hafði hagur bankans vænkað síðan Tryggvi hóf þar störf. Í ágúst 1899 var byggingu nýs Landsbankahús lokið og flutti bankinn aðsetur sitt í hið nýja hús á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Innflutt danskt vinnuafl sá um smíði hússins og umsjón með verkinu hafði Valdemar Baldt, sonur F. Baldt sem sá um byggingu Alþingishússins.

 
Landsbankinn við Austurstræti í dag.

Árið 1901 var deilt um tillögu á Alþingi um stofnun nýs einkabanka. Valtýingar vildu bankann en heimastjórnarmenn ekki og hjá því var komist að Landsbankinn yrði lagður niður. Árið 1902 opnaði Landsbankinn fyrsta útibú sitt á Akureyri. Í samvinnu við Oddfellowregluna gaf Landsbankinn út sérmerkta sparibauka gerða úr kopar sem kallaðir eru Oddfellowbaukar. Næsta ár opnaði bankinn útibú á Ísafirði en nú var líka komin samkeppni annars banka því Íslandsbanki hafði verið stofnaður og kom hann strax á fót útibúum á Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Á árunum 1907-9 kvörtuðu Íslendingar mikinn yfir háum vöxtum. Á sama tíma sérhæfði Íslandsbanki sig í útlánum til sjávarútvegs en báðir bankarnir komu að fjármögnun kaupanna á Jóni forseta, fyrsta íslenska togaranum.

Á Alþingi skipaði Björn Jónsson ráðherra nefnd til þess að rannsaka störf Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Björn sagði Tryggva því næst upp störfum og skipaði Björn Kristjánsson þingmann nýjan bankastjóra. Niðurstöður nefndarinnar voru þó ekki að Tryggvi hefði gerst brotlegur í starfi en þetta þótti mjög umdeilt mál og tóku sumir viðskiptavinir bankans út innistæður sínar í mótmælaskyni.

Á árunum 1927 til 1961 starfaði bankinn sem seðlabanki landsins, þar til Seðlabankinn var stofnaður 1961.

Þann 1. janúar 1998 var bankanum breytt í almenningshlutafélag og þaðan í frá var hann einkavæddur í skrefum, því ferli lauk 2003.

 
Fyrra myndmerki Icesave.

Í október 2006 hóf bankinn að bjóða upp á innlánsreikninga á netinu í Bretlandi og í Hollandi undir vörumerkinu Icesave. Viðskiptavinir urðu um 350 þúsund.

Fyrir hrunið átti Landsbanki Íslands eignir upp á 3.058 milljarða króna (desember 2007). Bankinn rak 13 útibú á höfuðborgarsvæðinu og 27 á landsbyggðinni. Bankinn stundaði sömuleiðis ýmis konar starfsemi erlendis í gegnum dótturfyrirtæki sín.

Bankinn fer í þrot (2008)

breyta

Efnahagskreppa skall á á Íslandi í byrjun 2008 og leiddi það til erfiðrar stöðu fjármálafyrirtækja. Um haustið var auðséð að íslensku bankarnir gætu ekki lengur staðið undir sér og því voru neyðarlög sett 6. október 2008 sem gáfu íslenska ríkinu víðtækar heimildir til aðgerða á fjármálamörkuðum. Stóru íslensku bankarnir þrír fóru því í greiðsluþrot.

Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir rekstur bankans og stofnaði 9. október 2008 nýjan banka til að halda utan um öll innanlandsviðskipti, innlendar innistæður, og meirihluta innlendra eigna bankans.[2] Þannig var reynt að viðhalda fjármálastöðugleika og tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi.[3][4] Nýi bankinn kallaðist þá Nýi Landsbanki Íslands (NBI hf.). Allar aðrar eignir og skuldir urðu eftir í gamla bankanum og var hann settur í slitameðferð til að skipta upp eignum hans til kröfuhafa. Landsbanki Íslands er enn í slitameðferð og heitir þrotabúið nú LBI hf.

Aðaleigandi bankans þegar hann fór í þrot var Samson eignarhaldsfélag ehf. með ríflega 40% hlutdeild, eigendur þess voru í fyrstu Björgólfur Thor Björgólfsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Guðmundsson en Magnús seldi síðar sinn hlut.

Landsbankinn (2008–)

breyta

Bankinn var stofnaður í sinni núverandi mynd 9. október 2008 og heitir nú Landsbankinn eftir nafnabreytingu í apríl 2011.

Í mars 2011 sameinuðust Landsbankinn og Sparisjóður Keflavíkur. Í mars 2015 tók Landsbankinn yfir Sparisjóð Vestmannaeyja og í september 2015 tók bankinn yfir Sparisjóð Norðurlands.[2]

Ríkissjóður Íslands á 98,2% eignarhlut í bankanum.[2]

Tilvísanir

breyta
  1. Ísafold 1913
  2. 2,0 2,1 2,2 Saga bankans. Geymt 29 júní 2019 í Wayback Machine Landsbankinn.is. Sótt 1. desember 2018.
  3. „Á grundvelli nýsettra laga grípur Fjármáleftirlitið inn í rekstur Landsbankans til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi“ (pdf). 7. október 2008. Sótt 7. nóvember 2008.
  4. „Starfsemi Landsbankans óbreytt og bankastjórn ber áfram ábyrgð á daglegum rekstri“. 7. október 2008. Sótt 7. nóvember 2008.