Skrifstofustjóri Alþingis

Skrifstofustjóri Alþingis er æðsti embættismaður þingsins. Embættið á rætur að rekja til ársins 1593 en þá var talað um alþingisskrifara eða lögþingsskrifara sem „tilskikkaður“ var til embættisins af konungi. Um tíma var einnig notast við orðið landþingsskrifari. Guðmundur Þórðarson var sá fyrsti til að gegna starfinu en hann sinnti því frá 1593-1600. Hlutverk skrifarans var að skrá niður það sem fram fór á þinginu og láta þingmönnum og öðrum í té eftirrit af skjölum og dómum.

Eftir endurreisn Alþingis árið 1845 og fram til ársins 1914 voru starfandi skrifstofustjórar eða skrifarar forseta eins og starfið var yfirleitt nefnt. Þeir störfuðu hins vegar aðeins á meðan þingið sat, yfirleitt annað hvert ár, einn til tvo mánuði í senn.

Til embættis skrifstofustjóra Alþingis eins og það er í dag, var fyrst stofnað með þingskaparlögum árið 1915[1] en í 11. og 12. grein núgildandi þingskapa er fjallað um embætti skrifstofustjóra þingsins. Forsætisnefnd þingsins ræður skrifstofustjóra og er hann skipaður til sex ára í senn. Hann stjórnar skrifstofu þingsins og framkvæmdum á vegum þingins og hefur umsjón með fjárreiðum þess og eignum í umboði forseta Alþingis og ræður annað starfsfólk þingsins.

Skrifstofustjóri þingsins situr fundi forsætisnefndar og er forseta Alþingis og nefndinni innan handar við stjórn þingsins. Skrifstofustjóri eða fulltrúi hans situr þingfundi og er forsetum til aðstoðar jafnframt því að sjá til þess að samþykktir þingsins séu skrásettar.[2]

Skrifstofustjórar Alþingis frá 1915

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 Sigtryggur Sigtryggsson, „Tímamót í sögu Alþingis“, Morgunblaðið 27. júní 2019 bls. 26.
  2. Alþingi.is, „Lög um þingsköp Alþingis“, (skoðað 27. júní 2019)