Kristófer 2. (29. september 12762. ágúst 1332) var konungur Danmerkur 1320-1326 og aftur 1329-1332. Hann var sonur Eiríks klippings og Agnesar af Brandenborg og tók við ríkjum eftir lát eldri bróður síns, Eiríks menved.

Innsigli Kristófers 2. (bakhlið).

Kristófer var hertogi af Lálandi og Falstri 1289-1301, hertogi af Eistlandi 1303-1307 og hertogi af Hallandi og Sámsey 1307-1315. Þá varð hann að flýja land vegna þátttöku í samsæri um að koma Eiríki bróður hans frá völdum. Árið 1318 tók hann þátt í öðru samsæri með landflótta aðalsmönnum og erkibiskupinum Esger Juul og reyndu þeir að ráðast inn í Skán en höfðu ekki erindi sem erfiði. En í nóvember 1319 dó Eiríkur og þá stóð Kristófer næstur til ríkiserfða þar sem ekkert af fjórtán börnum Eiríks hafði komist á legg. Sagt er að Eiríkur hafi í banalegunni varað við því að bróðir hans yrði valinn konungur en danskir aðalsmenn munu hafa talið að þeir hefðu betri tök á Kristófer, sem þótti veiklundaður, en Eiríki 2. hertoga af Slésvík, sem einnig kom til greina. Kristófer undirritaði heitbréf, þar sem hann lofaði meðal annars að létta á skattaáþján, 25. janúar 1320 og var hylltur á landsþingunum en ekki krýndur fyrr en 1324. Eiríkur sonur hans var þá krýndur sem meðkonungur.

Konungur hélt heit sín illa, hækkaði meðal annars skatta og þótti hinn mesti harðstjóri. Margir aðalsmannanna gengu þá í bandalag við greifana af Holtsetalandi og gerðu uppreisn. Árið 1326 var Geirharður 3. greifi búinn að ná yfirráðum bæði á Jótlandi og Fjóni og náði svo Eiríki ríkisarfa og hélt honum föngnum. Kristófer flúði til Þýskalands. Þar sló hann lán og leigði sér her til að vinna Danmörku að nýju en þegar hann sneri aftur gengu engir Danir í lið með honum og hann varð að leggja á flótta aftur.

Valdimar hertogi af Slésvík, sonur Eiríks hertoga, var þá valinn konungur en hann var aðeins 11 ára og móðurbróðir hans, Geirharður greifi, varð ríkisstjóri. Árið 1329 skiptu greifarnir af Holtsetalandi og fleiri aðalsmenn, sem áttu veð í ríkiskassanum, landinu upp á milli sín. Kristófer sneri aftur og reyndi að kaupa sér völd að nýju, veðsetti Jóhanni milda greifa af Holtsetalandi, sem var hálfbróðir hans sammæðra, Sjáland og Skán og var tekinn til konungs þar að nafninu til. Geirharði veðsetti hann Jótland og Fjón og mátti aðeins innleysa veðið með eingreiðslu, 100.000 mörkum silfurs, og annað eins skuldaði hann Jóhanni. Jóhann var bróður sínum þó heldur hliðhollur og kom til átaka milli aðalsmannanna. Jóhann fór halloka, Kristófer var settur af öðru sinni og þurfti meðal annars að flýja upp um stromp á húsi þar sem átti að svæla hann inni. Hann dó 2. ágúst 1332 á Lálandi og var lagður til hvílu í Sórey.

Kristófer 2. var giftur Evfemíu, dóttur Bogislavs 4. hertoga af Pommern. Þau áttu eina dóttur sem upp komst, Margréti konu Lúðvíks hertoga af Bæjaralandi, og þrjá syni, Eirík, sem lést 1331 eftir fall af hestbaki á flótta undan óvinum, Ottó, sem reyndi að komast til valda eftir lát föður síns en varð ekkert ágengt, og Valdimar, sem ólst að mestu upp við keisarahirðina í Bæjaralandi.

Eftir lát Kristófers var Danmörk án konungs til 1340.

Heimildir breyta


Fyrirrennari:
Eiríkur menved
Konungur Danmerkur
(13201326)
Eftirmaður:
Valdimar 3.
Fyrirrennari:
Valdimar 3.
Konungur Danmerkur
(13291332)
Eftirmaður:
Valdimar atterdag
eftir 8 ár án konungs