Eiríkur menved eða Eiríkur 6. (127413. nóvember 1319) var konungur Danmerkur frá 1286 til dauðadags. Hann var krýndur á jóladag 1287 en þar sem hann var aðeins tólf ára þegar faðir hans, Eiríkur klipping, var myrtur var ríkinu stýrt næstu árin af móður hans, Agnesi af Brandenborg, ásamt fleirum.

Innsigli Eiríks menved, framhlið og bakhlið.

Aðalsmennirnir sem dæmdir voru útlægir fyrir morð föður hans sneru fljótlega aftur og lifðu sem útlagar í Danmörku, enda höfðu þeir þar töluverðan stuðning og voru tengdir eða skyldir mörgum helstu höfðingjaættunum. Eiríkur konungur lenti meðal annars í deilum við erkibiskupinn Jens Grand, sem var af Hvide-ættinni og studdi þá útlægu. Eiríkur handtók erkibiskupinn en hann slapp og flúði á náðir páfa, sem dæmdi Eirík í háar sektir. Eiríkur neitaði að greiða og Danmörk var þá lýst í bann. Eiríkur neyddist til að láta undan 1301 og greiða þunga sekt. Einn þeirra sem tóku þátt í samsæri gegn konungi var Kristófer bróðir hans, sem neyddist til að flýja land árið 1315.

Eiríkur hafði hug á að stækka veldi Dana í Norður-Þýskalandi að dæmi Valdimars sigursæla og árið 1302 fékk hann sig hylltan sem lénsherra í furstadæminu Rostock og ná löndunum norðan við Saxelfi. Þetta gekk þó ekki þrautalaust og árið 1316 tapaði hann orrustu við Stralsund. Friður var saminn ári síðar en stríðsreksturinn var dýr og það þurfti að leggja á nýja skatta. Konungurinn fékk lán hjá greifunum í Holtsetalandi, Jóhanni milda hálfbróður sínum og Geirharði 3. Bændauppreisnir voru gerðar bæði á Sjálandi og Jótlandi. Þær voru bældar niður en þann 13. nóvember dó Eiríkur og skildi eftir sig ríki sem var efnahagslega og pólitískt gjaldþrota.

Kona Eiríks var Ingibjörg, dóttir Magnúsar hlöðuláss Svíakonungs. Þau eignuðust fjórtán börn, sem öll fæddust andvana eða dóu í vöggu, svo að Kristófer bróðir Eiríks erfði ríkið.

Viðurnefnið menved er oftast talið vísa í orðasambandið „så man ved“ (nú „såmænd“ (svo sem, í raun, eiginlega; sannarlega)), sem líklega hefur verið konungi munntamt. Einnig hefur sú skýring komið fram að það þýði meinvættur eða óhræsi og hafa óvinir konungs þá gefið honum það auknefni.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Eiríkur klipping
Konungur Danmerkur
(12861319)
Eftirmaður:
Kristófer 2.