Valdimar 3. (um 13141364) var konungur Danmerkur 1326-1330 og hertogi af Slésvík (Valdimar 5.) 1325-1326 og frá því að hann lagði niður konungstign 1329 og til dauðadags.

Hertogi Valdimar 5. af Slésvík.

Valdimar var sonur Eiríks 2. hertoga af Slésvík og Aðalheiðar konu hans, en hún var systir Geirharðs 3. greifa af Holtsetalandi. Eiríkur hertogi var afkomandi Abels konungs og því kom Valdimar til greina sem ríkiserfingi eftir lát Eiríks menved en Kristófer bróðir hans var þó valinn konungur. Þegar Eiríkur dó 1325 vildu Geirharður og Kristófer báðir fá forræði yfir honum og hertogadæmi hans. Þau átök ásamt mikilli óánægju með harðstjórn og skattpíningu Kristófers urðu til þess að hann var rekinn úr landi og Valdimar gerður að konungi í hans stað. Geirharður móðurbróðir hans, sem líka var stærsti veðhafinn í skuldum Danmerkur, var útnefndur ríkisstjóri. Stjórn hans og hinna aðalsmannanna naut þó ekki vinsælda meðal bænda; bæði voru þeir flestir útlendingar og svo skattpíndu þeir almenning engu minna en Kristófer hafði gert. Bændauppreisnir voru gerðar 1328 og 1329 og þótt þær væru bældar niður gafst Geirharður upp á að halda Valdimar á konungsstóli. Kristófer sneri aftur 23. febrúar 1329 - varð þó raunar ekki konungur nema á Sjálandi og Skáni og aðeins að nafninu til - en Valdimar varð aftur hertogi af Slésvík og ríkti þar í 35 ár.

Þegar Valdimar varð fullorðinn þótti honum nóg um veldi móðurbróður síns, sem réði yfir Vestur-Holtsetalandi, Fjóni og Norður-Jótlandi og var farinn að seilast inn í Slésvík. Hann hafði því samband við Valdimar, yngsta son Kristófers 2., sem var við keisarahirðina í Bæjaralandi, og ýmsa jóska aðalsmenn, og urðu þeir sammála um að endurreisa konungdæmið. Geirharður bjóst til að kæfa þessa hreyfingu í fæðingu en var veginn í Randers 1. apríl 1340 af Niels Ebbesen. Eftir nokkur átök um sumarið gengu synir Geirharðs, Járn-Hinrik og Kláus, til friðarsamninga og Valdimar atterdag settist á konungsstól (en réði að vísu fyrst í stað aðeins yfir Norður-Jótlandi) með stuðningi Valdimars hertoga.

Kona Valdimars var Richardis af Schwerin-Wittenburg, og þau áttu synina Valdimar og Hinrik, sem erfði hertogadæmið eftir föður sinn.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Kristófer 2.
Konungur Danmerkur
(1326 – 1329)
Eftirmaður:
Kristófer 2.