John Lennon

Enskur tónlistarmaður og meðlimur Bítlanna (1940-1980)
(Endurbeint frá John Ono Lennon)

John Ono Lennon (fæddur John Winston Lennon; 9. október 1940 – 8. desember 1980) var enskur tónlistarmaður og lagahöfundur. Hann var helst þekktur sem stofnandi og meðlimur Bítlanna.

John Lennon
Lennon árið 1969
Fæddur
John Winston Lennon

9. október 1940(1940-10-09)
Dáinn8. desember 1980 (40 ára)
DánarorsökSkotinn
HvíldarstaðurÖsku dreift í Central Park
Störf
  • Söngvari
  • lagahöfundur
  • tónlistarmaður
Ár virkur1956–1980
Maki
Börn
Tónlistarferill
Stefnur
Hljóðfæri
  • Rödd
  • gítar
  • hljómborð
Útgefandi
Áður meðlimur í
Vefsíðajohnlennon.com
Undirskrift

Æviágrip

breyta

John Lennon var fæddur í Liverpool á Englandi. Móðir hans var Julia Stanley Lennon og faðir hans var Alfred Lennon (kallaður Freddie). Þegar Lennon var ungur drengur yfirgaf faðir hans fjölskylduna og í kjölfarið fól móðir hans systur sinni, Mary Smith (kölluð Mimi), að ala hann upp. Hjá Mimi frænku sinni og hennar manni var Lennon það sem eftir var barnæsku sinnar og á unglingsárum, en hitti þó móður sína reglulega.

Árið 1957 varð til fyrsta mynd hljómsveitarinnar sem síðar varð þekkt sem Bítlarnir. Hún hét í fyrstu The Quarry Men og var Lennon leiðtogi hennar. Skömmu eftir stofnun sveitarinnar hitti Lennon Paul McCartney í fyrsta skipti og varð hann fljótlega meðlimur. Þeir fóru fljótlega að semja lög saman og gerðu þeir með sér samkomulag um að þeir yrðu skráðir sameiginlega sem höfundar fyrir öllum lögum sem annar hvor eða þeir báðir semdu. Þetta samkomulag hélst allt þar til Bítlarnir hættu sem hljómsveit og því eru öll lög sem Lennon samdi fyrir Bítlana (einn eða með McCartney) skráð með höfundarréttinn Lennon–McCartney.

Árið 1958, þegar Lennon var 17 ára, dó Julia Lennon í bílslysi. Þessi atburður hafði mikil áhrif á Lennon og gaf elsta syni sínum nafnið Julian henni til heiðurs. Einnig samdi hann lagið „Julia“ til hennar. Julia hafði sjálf haft tónlistarhæfileika og kenndi John að spila á banjó.

Bítlarnir

breyta

George Harrison gekk til liðs við The Quarry Men árið 1958 og Ringo Starr árið 1962, eftir að nafni hljómsveitarinnar hafði verið breytt í The Beatles. Lennon er almennt talinn hafa verið leiðtogi sveitarinnar á upphafsárum hennar.

Árið 1962 giftist Lennon Cynthiu Powell, sem hann hafði verið í sambandi við í nokkur ár og árið 1963 eignuðust þau soninn Julian. Þegar vinsældir Bítlanna fóru að aukast, á árinu 1963, ráðlagði umboðsmaður þeirra, Brian Epstein, Lennon að halda hjónabandinu leyndu frá almenningi. Cynthia Lennon var því aldrei í sviðsljósinu þrátt fyrir hinar gífurlegu vinsældir Bítlanna. Þau skildu árið 1968 eftir að Cynthia komst að því að Lennon hafði haldið framhjá sér með japönsku listakonunni Yoko Ono.

Árið 1966 sagði Lennon, í viðtali við London Evening Standard, að Bítlarnir væru orðnir vinsælli en Jesús. Nokkrum mánuðum seinna var hluti af viðtalinu birtur í bandarísku blaði og olli þessi staðhæfing þá miklu fjaðrafoki þar í landi (aðallega í suðurríkjunum). Margar útvarpsstöðvar bönnuðu tónlist Bítlanna og haldnar voru samkomur þar sem plötur þeirra voru brenndar. Til að bregðast við þessu héldu bítlarnir blaðamannafund, þar sem Lennon baðst afsökunar. Sumir voru tilbúnir til þess að samþykkja afsökunarbeiðnina, aðrir ekki, en á endanum fjaraði málið út.

Eftir að Lennon og Ono tóku saman, urðu þau óaðskiljanleg og voru saman nánast öllum stundum. Ono fylgdi Lennon iðulega í stúdíóið þar sem Bítlarnir sömdu og tóku upp lög. Margir hafa talið þetta eina aðal ástæðu þess að hljómsveitin liðaðist í sundur, þar sem þetta á að hafa valdið togstreitu innan sveitarinnar. Lennon og Ono giftust árið 1969.

Árið 1969 tilkynnti Lennon hinum bítlunum að hann væri hættur í hljómsveitinni. Forstjóri Apple útgáfufyrirtækisins bað hann þó um að halda því leyndu að hann væri hættur. Í apríl 1970 tilkynnti Paul McCartney það opinberlega að Bítlarnir væru hættir saman, án þess að ráðfæra sig við hina Bítlana.

Sóló ferill

breyta

Lennon tók fyrstu skrefin í átt að einleiks ferli á meðan Bítlarnir voru ennþá starfandi. Á árunum 1968 og 1969 gáfu hann og Ono út þrjár plötur sem innihéldu aðallega mjög tilraunakennda, ómelódíska tónlist. Þetta voru plöturnar Unfinished Music No.1: Two Virgins (1968), Unfinished Music No.2: Life with the Lions (1969) og Wedding Album (1969).

Lennon hóf einleiks feril strax eftir að Bítlarnir hættu saman og gaf út plötuna John Lennon/Plastic Ono Band árið 1970. Árið 1971 kom svo út platan Imagine, þar sem er m.a. að finna lagið „Imagine“, eitt frægasta lag Lennons.

Árið 1971 fluttust Lennon og Ono til New York og átti Lennon aldrei eftir að koma aftur til Englands eftir það. Á meðan þau bjuggu ennþá á Englandi höfðu þau reynt að nota frægð sína til þess að breiða út boðskap friðar í heiminum og m.a. talað gegn Víetnamstríðinu. Þegar þau komu til Bandaríkjanna héldu þau þessu áfram og urðu áberandi í baráttunni gegn stríðinu. Í kjölfarið reyndu stjórnvöld í Bandaríkjunum að vísa Lennon úr landi á grundvelli þess að kannabisefni höfðu fundist í fórum hans í London árið 1968. Baráttan við innflytjendayfirvöld stóð allt til ársins 1975, en þá fékk Lennon loksins græna kortið.

Árið 1972 kom út platan Some Time in New York City og 1973 kom út platan Mind Games.

Plöturnar Walls and Bridges (1974) og Rock 'n' Roll (1975) komu út á tímabili í lífi Lennons sem vanalega er kallað „The Lost Weekend“. Á þessum tíma voru hann og Ono aðskilin og bjó hann í Los Angeles en hún í New York. Þetta tímabil einkenndist af miklu sukki af hálfu Lennons.

Árið 1974 spilaði Lennon í síðasta skipti opinberlega þegar hann mætti á svið með Elton John í Madison Square Garden í New York . Elton sem var góð vinur Lennons hafði veðjað við hann að ef lagið „Whatever Gets You Thru the Night“ sem þeir gerðu saman kæmist á topp vinsældarlistanna yrði Lennon að mæta á tónleika hjá sér og taka nokkur lög, sem Lennon gerði.

Árið 1975 fór hann aftur til New York og tók saman við Yoko. Þau eignuðust soninn Sean sama ár. Næstu árin voru róleg í lífi Lennons og sneri hann sér alfarið frá tónlist og einbeitti sér að því að vera heimilisfaðir.

Árið 1980 fór hann að taka upp tónlist á nýjan leik og það gerði Ono einnig. Afraksturinn varð platan Double Fantasy þar sem hvort um sig samdi og söng helminginn af lögunum.

Áður en Lennon lést voru hann og Ono byrjuð að vinna að annarri sameiginlegri plötu. Nokkur ár liðu áður en Ono gat fengið sjálfa sig til þess að klára plötuna, en hún kom að lokum út sem Milk and Honey árið 1984.

Dauði

breyta

Þann 8. desember 1980 lést John Lennon með sviplegum hætti þegar Mark David Chapman, geðsjúkur „aðdáandi“, skaut Lennon fjórum skotum í bakið fyrir utan Dakota bygginguna í New York, þar sem Lennon og Ono áttu heima. Lennon hafði gefið Chapman eiginhandaráritun sama kvöld og hann lést. Mark Chapman hafði planað að drepa Lennon í þrjá mánuði. Chapman var síðan dæmdur í 20 ára til lífstíðarfangelsi.

Samsæriskenningar

breyta

Helsta kenningin um dauða Lennons er að Mark Chapman hafi verið að vinna fyrir CIA og hafi verið fenginn til að drepa Lennon. John Lennon hafði sterkar pólitískar skoðanir og hann var mikið á móti stríðum. Það voru margir sem hlustuðu á hann og þess vegna átti CIA að hafa viljað drepa hann. Það er sagt að Chapman hafi ferðast mikið um heiminn en það er mjög skrítið því hann var ekki ríkur. Því er sagt að CIA hafi borgað ferðirnar fyrir hann og hafi verið að þjálfa hann í ýmsum herbúðum.

Önnur kenning fjallar um það að CIA hafi á þessum tíma verið að heilaþvo fólk og láta það gera ýmsa hluti sem voru ólöglegir. Það er talið að Chapman hafi verið hluti af þessu verkefni og hafi verið sendur til að drepa Lennon án þess að hann hafi viljað það.

Mjög ólíkleg kenning segir að Richard Nixon, Ronald Regan og Stephen King hafi myrt Lennon. Stephen King átti að hafa skotið Lennon og Chapman var borgað fyrir að þykjast vera morðinginn. Aðal rökin fyrir þessu eru að Stephen King líktist Chapman. Líklegar ástæður fyrir því að þeir hafi viljað drepa Lennon er útaf pólitísku skoðunum hans.

Arfleifð

breyta

Mikill fjöldi minnismerkja og minningarathafna eru tileinkaðar minningu John Lennon um allan heim.

Þann 9. október 2007 var Friðarsúla Yoko Ono tendruð í fyrsta sinn í Viðey á Íslandi. Hún er tendruð á hverju kvöldi frá 9. október (fæðingardag Lennon) til 8. desember (dánardagur Lennon) ásamt öðrum völdum dögum.

Útgefið efni

breyta

Með Bítlunum:

breyta

Einleikur eða með Yoko Ono:

breyta

Breiðskífur

breyta

Safnplötur

breyta

Tónleikaplötur

breyta

Smáskífur

breyta
  • 1969 „Give Peace a Chance“
  • 1969 „Cold Turkey“
  • 1970 „Instant Karma!“
  • 1971 „Mother“
  • 1971 „Power to the People“
  • 1971 „Imagine“
  • 1971 „Happy Xmas (War Is Over)“
  • 1972 „Woman Is the Nigger of the World“
  • 1973 „Mind Games“
  • 1974 „Whatever Gets You Thru the Night“
  • 1975 „#9 Dream“
  • 1975 „Stand by Me“
  • 1980 „(Just Like) Starting Over“
  • 1981 „Woman“
  • 1981 „Watching the Wheels“
  • 1982 „Love“
  • 1984 „Nobody Told Me“
  • 1984 „Borrowed Time“
  • 1984 „I'm Stepping Out“
  • 1984 „Every Man has a Woman who Loves Him“
  • 1985 „Jealous Guy“

Heimildir og ítarefni

breyta
  • Kane, Larry. Lennon Revealed. (Running Press, 2005).
  • Norman, Philip. John Lennon: The Life (Ecco, 2008).
  • Pang, May og Henry EdwardsLoving John: The Untold Story. (Warner Books, 1983).

Tenglar

breyta