Jevgeníj Prígozhín

Rússneskur viðskiptamaður og eigandi Wagner-hópsins (1961-2023)

Jevgeníj Víktorovítsj Prígozhín (rússneska: Евгений Викторович Пригожин; f. 1. júní 1961, d. 23. ágúst 2023) var rússneskur viðskiptamaður og olígarki sem var lengi einn nánasti bandamaður Vladímírs Pútín, forseta Rússlands. Prígozhín var gjarnan kallaður „kokkur Pútíns“ þar sem hann rak fjölda lúxusveitingahúsa sem elduðu og héldu viðburði fyrir rússnesk stjórnvöld.

Jevgeníj Prígozhín
Евгений Пригожин
Jevgeníj Prígozhín árið 2023.
Fæddur1. júní 1961(1961-06-01)
Dáinn23. ágúst 2023 (62 ára)
StörfAthafnamaður, veitingahúsarekandi, málaliði
Þekktur fyrirAð eiga Wagner-hópinn
MakiLjúbov Valentínovna Prígozhína
Börn2

Prígozhín var stofnandi og eigandi Wagner-hópsins, málaliðasamtaka sem ganga erinda Rússlandsstjórnar í ýmsum erlendum hernaðardeilum. Hann var jafnframt bendlaður við Netrannsóknarstofnunina (rússneska: Агентство интернет-исследований, umritað: Agentstvo ínternet-íssledovaníj), sem var sökuð um að reyna að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum með rekstri nettröllabúa.

Prígozhín lést þann 23. ágúst 2023 þegar flugvél hans brotlenti í Rússlandi. Dauða hans bar að tveimur mánuðum eftir að hann leiddi misheppnaða uppreisn gegn stjórn Pútíns.

Æviágrip

breyta

Jevgeníj Prígozhín fæddist í Leníngrad (nú Sankti Pétursborg) árið 1961. Þegar hann var tvítugur að aldri var hann dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir rán, líkamsárás og fjársvik. Prígozhín var látinn laus eftir níu ár, stuttu áður en Sovétríkin liðu undir lok.[1]

Eftir að Prígozhín var látinn laus hóf hann rekstur pylsuvagns í Pétursborg ásamt föður sínum. Hann keypti síðar hlut í fyrstu stórmarkaðskeðju Pétursborgar og stofnaði spilavíti og veitingahús sem áttu eftir að verða vinsæl.[2] Fyrsta veitingahús hans var opnað árið 1995 og var kallað „Gamla tollhúsið“ þar sem það var til húsa þar sem tollurinn hafði áður verið. Anatolíj Sobtsjak, borgarstjóri Pétursborgar, lagði oft leið sína þangað ásamt aðstoðarmanni sínum, Vladímír Pútín.[3]

Uppgangur Prígozhíns í viðskiptalífinu í Pétursborg var á sama tíma og Pútín var að klífa metorðastigann í stjórnmálum borgarinnar.[1] Árið 2001, eftir að Pútín var orðinn forseti Rússlands, kom Jacques Chirac Frakklandsforseti í opinbera heimsókn til Rússlands og snæddi ásamt Pútín á veitingastað Prígozhíns, þar sem Prígozhín þjónaði forsetunum sjálfur til borðs. Ári síðar bauð Pútín George W. Bush Bandaríkjaforseta til kvöldverðar á veitingahúsi Prígozhíns og árið 2003 hélt Pútín upp á afmæli sitt þar. Talið er að Pútín og Prígozhín hafi kynnst vel á þessum tíma og Prígozhín áskotnaðist gælunafnið „kokkur Pútíns“ vegna viðskipta þeirra.[2]

Strax og Prígozhín hóf veitingarekstur sinn árið 1996 stofnaði hann veitingaþjónustuna Concord og hlaut fljótt arðbæra samninga við ríkið um veitingaþjónustu við rússneska skóla og rússneska herinn. Concord sá jafnframt um veitingaþjónustu á opinberum viðburðum eins og innsetningarathöfnum Pútíns og Dmítríj Medvedev í forsetaembætti. Á fimm ára tímabili hlaut fyrirtækið samninga upp á andvirði 3,1 milljarðs Bandaríkjadala.[1]

Afskipti af kosningum í Bandaríkjunum

breyta
 
Prígozhín (til hægri) tekur á móti Vladímír Pútín og fylgdarmönnum hans í verksmiðju Concord árið 2010.

Talið er að Prígozhín hafi stofnað hina svokölluðu Netrannsóknarstofnun (rússneska: Агентство интернет-исследований; enska: Internet Research Agency) árið 2013, stuttu eftir að starfssamningi veitingafyrirtækja hans við rússneska herinn lauk. Netrannsóknarstofnunin, sem hafði þá um 400 starfsmenn á sínum snærum og aðsetur í Sankti Pétursborg, hafði í fyrstu það hlutverk að skrifa jákvæðar samfélagsmiðlafærslur um Vladímír Pútín og að gagnrýna andstæðinga hans.[4] Talið er að Prígozhín hafi fjármagnað Netrannsóknarstofnunina í gegnum tvö fyrirtæki sín, Concord Management And Consulting LLC og Concord Catering. Fyrirtækin tvö færðu greiðslur til Netrannsóknarstofnunarinnar í gegnum fjórtán mismunandi bankareikninga í ýmsum bönkum en skilgreindu þær sem greiðslur fyrir hugbúnaðarþjónustu og þróun.[5]

Netrannsóknarstofnunin er gjarnan kölluð „tröllaverksmiðja“ þar sem starfsfólk hennar vinnur við það að skrifa falsfréttir sem er síðan dreift á netinu, sér í lagi samfélagsmiðlum. Starfsfólk stofnunarinnar stundar það að búa til gerviaðganga að samfélagsmiðlum og skrifa ummæli, gjarnan um hitamál í þjóðfélagsumræðu, sem eignuð eru fólkinu sem er sagt eiga aðgangana.[2]

Árið 2016 hélt Netrannsóknarstofnunin uppi fjölda gerviaðganga sem höfðu það hlutverk að hafa áhrif á forsetakosningar í Bandaríkjunum sem haldnar voru það ár. Starfsfólk stofnunarinnar vann að því að skrifa samfélagsmiðlafærslur og dreifa fréttum til að styðja Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, og koma í veg fyrir að Hillary Clinton yrði kjörin forseti Bandaríkjanna.[5] Starfsmenn á samfélagsmiðladeild stofnunarinnar þóttust vera Bandaríkjamenn með aðsetur innan Bandaríkjanna og skrifuðu færslur undir formerkjum gervigrasrótarsamtaka með nöfnum eins og „Hermenn Jesú“ og „Sameinaðir múslimar Bandaríkjanna“.[4]

Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandaríska dómsmálaráðuneytisins, gaf árið 2018 út ákæru gegn Prígozhín og tólf öðrum Rússum og þremur fyrirtækjum vegna afskipta af bandarísku forsetakosningunum 2016.[1][6]

Prígozhín viðurkenndi opinberlega í nóvember árið 2022 að hann hefði haft afskipti af kosningum í Bandaríkjunum og sagðist ætla að halda því áfram.[6]

Wagner-hópurinn

breyta
 
Úkraínski bærinn Bakhmút í rústum í apríl 2023. Prígozhín og Wagner-hópurinn léku lykilhlutverk í orrustunni um bæinn, sem gereyðilagðist í átökunum.

Árið 2014 stofnaði Prígozhín Wagner-hópinn, samtök málaliða sem berjast í þágu Rússlands í ýmsum erlendum hernaðardeilum. Hópurinn var þá notaður við innlimun Rússlands á Krímskaga og sendur til að berjast með aðskilnaðarsinnum í Donbas-héruðunum í austurhluta Úkraínu.[7]

Wagner-hópurinn barðist með rússneska hernum í innrás Rússa í Úkraínu frá árinu 2022 og Prígozhín varð æ meira áberandi í rússnesku stjórnmálalífi í kjölfar þess. Í september 2022 var myndbandi lekið á netið þar sem Prígozhín sást heimsækja fangelsi í Rússlandi og bjóða föngunum þar sakaruppgjöf gegn því að þeir gengju til liðs við Wagner-hópinn og berðust með honum í Úkraínu.[8][9] Í kjölfar birtingar myndbandsins viðurkenndi Prígozhín í fyrsta sinn opinberlega að hann ætti Wagner-hópinn eftir að hafa neitað því í mörg ár og kallaði hópinn „eina af grunnstoðum Móðurlandsins“.[10]

Á tíma innrásarinnar gagnrýndi Prígozhín ítrekað yfirstjórn rússneska hersins, sér í lagi varnarmálaráðherrann Sergej Shojgú, fyrir að veita Wagner-hópnum ekki nægilegt liðsinni.[11] Deilur Prígozhíns við Shojgú og aðra herforingja snerust á köflum upp í ofbeldi milli Wagner-liða og rússneskra hermanna. Í júní 2023 bárust fréttir af því að leyniþjónustan FSB hefði gefið út handtökuskipun gegn Prígozhín vegna byltingaráróðurs hans gegn rússnesku stjórninni.[12]

Þann 23. júní 2023 hóf Wagner-hópurinn uppreisn gegn rússnesku stjórninni og tók yfir rússnesku borgirnar Rostov við Don og Voronezh. Vladímír Pútín sakaði Prígozhín um landráð vegna uppreisnarinnar og hét því að gerð yrði gagnsókn gegn Wagner-hópnum.[13] Uppreisninni lauk síðar sama dag eftir að Prígozhín gerði samning við ríkisstjórnina með milligöngu Alexanders Lúkasjenkó, forseta Belarús.[14] Samkvæmt samkomulaginu fengu Wagner-liðar sem tóku þátt í uppreisninni sakaruppgjöf, ákærur gegn Prígozhín voru felldar niður og hann fékk að fara til Belarús.[15]

Dauði

breyta

Þann 23. ágúst 2023 tilkynntu rússneskir ríkismiðlar að Prígozhín hefði farist í flugslysi nálægt Kúzhenkíno í Tverfylki.[16] Rússnesk stjórnvöld staðfestu fjórum dögum síðar að Prígozhín væri meðal þeirra sem létust þegar flugvélin hrapaði eftir erfðarannsókn á líkunum.[17] Pútín sagði um Prígozhín í kjölfar andláts hans að hann hefði verið „hæfaleikaríkur maður sem gerði mikil mistök“.[18]

Í desember 2023 birti The Wall Street Journal grein þar sem fullyrt var að Níkolaj Patrúshev, embættismaður í innsta hring Pútíns, hefði látið myrða Prígozhín með því að koma sprengju fyrir á væng flugvélar hans. Var þar vísað til heimildarmanna úr vestrænum leyniþjónustum og til fyrrverandi rússnesks njósnaforingja.[19]

Tilvísanir

breyta
  1. Stökkva upp til: 1,0 1,1 1,2 1,3 „„Kokkur Pútíns" viðurkennir afskipti af kosningum“. mbl.is. 7. nóvember 2022. Sótt 14. febrúar 2023.
  2. Stökkva upp til: 2,0 2,1 2,2 Dagný Hulda Erlendsdóttir (21. janúar 2023). „Kokkur Pútíns fram úr skugganum“. RÚV. Sótt 14. febrúar 2023.
  3. Oddur Ævar Gunnarsson (24. júní 2023). „Hver er pylsu­salinn í land­ráða­ham?“. Vísir. Sótt 27. júní 2023.
  4. Stökkva upp til: 4,0 4,1 Björn Bjarnason (23. febrúar 2018). „Rússnesk nettröll gegn Hillary“. Morgunblaðið. bls. 19.
  5. Stökkva upp til: 5,0 5,1 Samúel Karl Ólason (20. febrúar 2018). „Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju" í Pétursborg“. Vísir. Sótt 18. febrúar 2023.
  6. Stökkva upp til: 6,0 6,1 Samúel Karl Ólason (7. nóvember 2022). „Kokkur Pútíns viðurkenndi afskipti af kosningunum í Bandaríkjunum“. Vísir. Sótt 18. febrúar 2022.
  7. Freyr Gígja Gunnarsson (21. mars 2022). „Málaliðarnir sem eru fjármagnaðir af „kokki Pútíns". RÚV. Sótt 2. október 2022.
  8. Bogi Ágústsson (11. ágúst 2022). „Fangar berjast fyrir Rússa í Úkraínu“. RÚV. Sótt 2. október.
  9. Samúel Karl Ólason (15. september 2022). „„Kokkur Pútíns" býður föngum frelsi fyrir herþjónustu í Úkraínu“. Vísir. Sótt 3. október 2022.
  10. Samúel Karl Ólason (26. september 2022). „Kokkur Pútíns játar að eiga Wagner“. Vísir. Sótt 2. október 2022.
  11. Andri Yrkill Valsson (5. maí 2023). „Gagnrýnir Kreml og hótar að draga Wagner-liða frá Bakmút“. RÚV. Sótt 5. maí 2023.
  12. Samúel Karl Ólason (23. júní 2023). „Wagner í hart gegn rússneska hernum og Prigozhin eftirlýstur“. Vísir. Sótt 23. júní 2023.
  13. „Kokkur-Pútíns og uppreisn málaliðanna þokast í átt að Moskvu – En hver er þessi Prigozhin?“. DV. 24. júní 2023. Sótt 24. júní 2023.
  14. Samúel Karl Ólason (23. júní 2023). „Prigozhin segir uppreisninni lokið“. Vísir. Sótt 23. júní 2023.
  15. Samúel Karl Ólason; Hólmfríður Gísladóttir (24. júní 2023). „Wagner-liðar fá sakar­upp­gjöf og Prigoz­hin fer til Bela­rús“. Vísir. Sótt 25. júní 2023.
  16. Ísak Gabríel Regal (23. ágúst 2023). „Prigozhin meðal þeirra sem létust er flugvél brotlenti“. RÚV. Sótt 23. ágúst 2023.
  17. Sólrún Dögg Jósefsdóttir (27. ágúst 2023). „Prigoz­hin úr­skurðaður látinn eftir erfða­rann­sókn“. Vísir. Sótt 28. ágúst 2023.
  18. Freyr Gígja Gunnarsson (24. janúar 2023). „Pútín segir Prigozhin hafa verið hæfileikaríkan mann sem gerði mikil mistök“. RÚV. Sótt 14. febrúar 2023.
  19. „Patrusjev taldi Prigózjín ógna veldi Pútins og drap hann – hitti Össur í Reykjavík 2012“. Varðberg. 23. desember 2023. Sótt 25. desember 2023.