Alríkislögregla Rússneska Sambandsríkisins

(Endurbeint frá FSB)

Alríkislögregla Rússneska Sambandsríkisins (FSB)rússnesku: ФСБ, Федеральная служба безопасности Российской Федерации; Federalnaja slúzhba bezopasností Rossíjskoj Federatsíí) er mikilvægasta öryggisstofnun Rússneska sambandsríkisins og meginarftaki leyniþjónustustofnana frá tímum Sovétríkjanna kennd við Tsjeka, NKVD og KGB.

FSB er ábyrgt fyrir öryggi Rússneska sambandsríkisins og hefur til þess afar víðtækar heimilidir.

FSB er ábyrg fyrir öryggi Rússneska sambandsríkisins. Stofnunin sinnir gagnnjósnum, innra öryggi og öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfssemi og skipulagðri glæpastarfssemi, og innra eftirlit, m.a. með hernum. Allt lögreglustarf innan ríkja Rússlands heyrir undir FSB ef þurfa þykir.

Meginstarfssemi FSB er innan Rússneska sambandsríkisins en njósnir á erlendri grund eru á vegum sérstakrar stofnunar, Utanríkisleyniþjónustu Rússneska Sambandsríkisins (SVR). FSB sinnir þó í undantekningartilvikum rafrænum njósnum erlendis.

Stofndagur FSB markast við 3. apríl 1995 þegar Boris Jeltsín, þáverandi forseti Rússlands, undirritaði lög þess efnis að fyrirrennari Alríkisstofnunar gagnnjósna (FSK) fengi nýtt heiti, FSB og einnig aukin völd til gagnnjósna innan Rússlands.

Fjöldi starfsmanna FSB hefur ekki fengist staðfestur en talið er að allt að 350.000 manns vinni fyrir stofnunina.

Höfuðstöðvar FSB eru í fyrrum höfuðstöðvum KGB við Lúbjanka-torg í miðborg Moskvu.

Við lok seinni hluta áttunda áratugarins þegar ríkisstjórn og efnahagur Sovétríkjanna riðaði til falls, stóð leyniþjónustan KGB af sér niðurskurð betur en flestar aðrar Sóvíeskar ríkisstofnanir. Þrátt fyrir það var stofnunin lögð niður skömmu eftir að öfl innan KGB gerðu tilraun til valdaráns í ágústmánuði árið 1991 gegn Míkhaíl Gorbatsjov, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna.

Í ársbyrjun 1992 var þáttur KGB sem bar ábyrgð á innra öryggi færður undir ráðuneyti öryggismála, sem tveimur árum síðar varð Alríkisstofnun gagnnjósna (FSK), sem laut þá stjórnar forseta Rússneska Sambandsríkisins.

Fyrirrennari FSB, Alríkisstofnun gagnnjósna (FSK), var breytt með lögum beggja deilda Rússneska þingsins og var samþykkt þann 3. apríl 1995 af Boris Jeltsín, þáverandi forseta. Starfsseminni var gefið heitið FSB og henni veitt frekari völd, sem fólust m.a. í gagnnjósnum innan Rússlands sem og erlendis í samstarfi við stofnun Rússneska sambandsríkisins sem bar ábyrgð á njósnastarfssemi erlendis (SVR).

Árið 1998 skipaði Boris Jeltsín, fyrrum KGB-foringjann Vladímír Pútín sem forstöðumann FSB. Pútín tók við forsetaembættinu af Jeltsín um aldamótin 2000.

FSB er talin ein stærsta öryggisþjónusta Evrópu og þykir í störfum sínum afar skilvirk í gagnnjósnum, en hún hefur hlotið nokkura gagnrýni fyrir mannréttindabrot.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta