Heinrich Lübke
Karl Heinrich Lübke (14. október 1894 – 6. apríl 1972) var þýskur stjórnmálamaður sem var forseti Vestur-Þýskalands frá 1959 til 1969.
Heinrich Lübke | |
---|---|
Forseti Vestur-Þýskalands | |
Í embætti 12. september 1959 – 30. júní 1969 | |
Kanslari | Konrad Adenauer Ludwig Erhard Kurt Georg Kiesinger |
Forveri | Theodor Heuss |
Eftirmaður | Gustav Heinemann |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. október 1894 Enkhausen, Konungsríkinu Prússlandi, þýska keisaradæminu |
Látinn | 6. apríl 1972 (77 ára) Bonn, Vestur-Þýskalandi |
Þjóðerni | Þýskur |
Stjórnmálaflokkur | Kristilegi demókrataflokkurinn (1945–1972) Miðflokkurinn (1930–1933) |
Maki | Wilhelmine Keuthen (g. 1929) |
Undirskrift |
Lübke glímdi við lélega heilsu undir lok starfsferils síns. Hans er einkum minnst fyrir fjölda neyðarlegra atvika og skoplegra ummæla sem kunna að hafa orsakast af heilsubresti hans. Lübke sagði af sér þremur mánuðum áður en seinna kjörtímabili hans átti að ljúka vegna hneykslismáls sem tengdist störfum hans fyrir nasistastjórnina á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar.
Æviágrip
breytaHeinrich Lübke fæddist í sveitaþorpinu Enkhausen þann 14. október 1894 og var sonur handverkamanns. Hann hlaut styrk til háskólanáms og nam ræktunarfræði og landbúnaðarverkfræði. Lübke vann sem verkfræðingur í landbúnaðinum, meðal annars í landmælingum.[1] Árið 1926 beitti hann sér fyrir stofnun Smábændasamtaka Þýskalands (Deutsche Bauernschaft) og varð fyrsti framkvæmdastjóri þeirra.[2]
Árið 1931 var Lübke kjörinn á prússneska ríkisþingið sem þingmaður fyrir Kaþólska miðflokkinn. Honum var vikið úr opinberum embættum eftir valdatöku nasista árið 1933. Á valdatíð nasista var Lübke tvisvar handtekinn og sat í fangelsi í alls 20 mánuði. Eftir að honum var sleppt í seinna skiptið vann hann fyrir sér sem byggingaverkamaður í Berlín.[1]
Á nasistatímanum varð Lübke síðar trúnaðarmaður leynilögreglunnar og hafði umsjón með byggingu ýmissa fangabúða nasista á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann varð meðstjórnandi og síðan aðalforstjóri verkfræðiskrifstofunar Schlempp, sem vann að gerð fjarstýrðra V-1- og V-2-flugskeyta í Peenemünde á stríðsárunum. Verkfræðistofan tók einnig að sér byggingar þrælkunarbúða þegar tók að líða á stríðið. Lübke varð jafnframt meðlimur í hinum svokallaða Jägerstab-hóp sem Albert Speer stýrði. Hópurinn hafði það verkefni að smíða flugvélaverksmiðjur neðanjarðar til þess að þær yrðu verndaðar fyrir sprengjuárásum bandamanna.[3]
Lübke tók þátt í stofnun Kristilega demókrataflokksins eftir ósigur Þýskalands í seinni heimsstyrjöldinni og varð einn af forystumönnum flokksins í heimahéraði sínu, Vestfalíu. Breska hernámsliðið í Þýskalandi fól honum að annast landbúnaðar- og matvælamálefni héraðsins. Árið 1947, þegar lá við hungursneyð í Ruhrhéraði, vakti Lübke athygli þegar hann gekk hart fram gegn hernámsliðinu um að greiða þýskum bændum hærra verð fyrir landbúnaðarafurðir.[1]
Lübke var kjörinn á héraðsþing Vestfalíu árið 1946 og á sambandsþing Vestur-Þýskalands árið 1948. Hann sagði upp þingsæti sínu á sambandsþinginu árið 1950 þegar lög voru sett sem bönnuðu þingmönnum að eiga bæði sæti á sambandsþinginu og héraðsþingum. Árið 1953 var hann aftur kjörinn á sambandsþingið og varð sama ár ráðherra landbúnaðar-, sjávarútvegs- og skógræktarmála í ríkisstjórn Konrads Adenauer kanslara.[1]
Forseti Vestur-Þýskalands (1959–1969)
breytaÁrið 1959, þegar seinna kjörtímabili Theodors Heuss Þýskalandsforseta var að ljúka, tilnefndi Kristilegi demókrataflokkurinn Lübke forsetaefni sitt í forsetakosningum á þýska sambandsþinginu. Konrad Adenauer hafði áður haft hug á því að verða sjálfur forseti Þýskalands en hafði dregið í land með þær fyrirætlanir.[2] Lübke var kjörinn forseti af sambandsþinginu í júlí 1959.[1] Lübke var endurkjörinn forseti með stuðningi bæði Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna árið 1964.[4]
Á forsetatíð sinni vakti Lübke stundum kátínu landsmanna með óvenjulegri framkomu. Lübke þótti ekki fær ræðumaður og hann átti til að víkja frá handritum sínum við ræðuhöld. Meðal annars flutti hann ræðu um málefni Austur-Asíu í viðurvist sendiherra margra Asíulanda þar sem hann sagðist hafa tekið eftir því hve íbúar Teheran væru vel þvegnir. Lübke talaði ekki góða ensku en reyndi engu að síður oft að tjá sig á tungumálinu við erlenda þjóðarleiðtoga, oft með skoplegum niðurstöðum. Til dæmis á hann einu sinni að hafa mælt orðin „Equal goes it loose“ við Elísabetu Bretlandsdrottningu á tónleikum í Bonn þegar hann ætlaði að segja að tónleikarnir hæfust brátt. Þjóðverjar fóru að tala um þennan talsmáta sem „Lübke-ensku“ og skemmtu sér við að strengja saman setningar á henni.[5]
Lübke var að mestu óumdeildur á fyrsta kjörtímabili sínu. Mikill styr stóð hins vegar í kringum hann eftir að yfirvöld í Austur-Þýskalandi birtu árið 1966 skjöl frá gömlum höfuðstöðvum Gestapo í Stettin þar sem greint var frá störfum Lübke fyrir nasistastjórnina á stríðsárunum. Áður hafði lítið verið kunngert um pólitíska fortíð Lübke og hann hafði almennt verið talinn meðal þeirra þýsku ráðamanna sem höfðu óflekkað mannorð frá nasistatímanum. Árið 1968 fór rithöfundurinn Frank Arnau með frumrit þessara skjala til Bandaríkjanna og fékk rithandarsérfræðing að nafni J. Howard Haring til að bera undirskriftirnar á þeim saman við rithönd Lübke. Haring komst að þeirri niðurstöðu að skjölin og undirskrift Lübke á þeim væru ósvikin og niðurstöður hans voru síðan birtar í vikublaðinu Der Stern. Málið varð gríðarlegur álitshnekkir fyrir Lübke.[3]
Í febrúar 1968 lögðu 20 prófessorar við Háskólann í Bonn fram kröfu um að Lübke svaraði ásökununum gegn sér. Lübke steig fram og sagði ásakanirnar tilhæfulausar. Í nóvember sama ár tilkynnti Lübke hins vegar að hann hygðist láta af embætti í júní næsta ár, um þremur mánuðum áður en seinna kjörtímabili hans átti að ljúka.[3]
Lübke lést árið 1972.[6]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „Búfræðingur kosinn forseti Þýzkalands“. Morgunblaðið. 5. júlí 1959. bls. 22.
- ↑ 2,0 2,1 „Verður Lübke næsti forseti vestur-þýzka lýðveldisins?“. Tíminn. 20. júní 1959. bls. 6.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 „Er forseti Vestur-Þýzkalands hlægilegur?“. Þjóðviljinn. 11. febrúar 1968. bls. 5.
- ↑ „Dr. Lübke endurkjörinn forseti V-Þýzkalands“. Morgunblaðið. 3. júlí 1964. bls. 12.
- ↑ „Forseti á förum“. Alþýðublaðið. 12. nóvember 1968. bls. 6; 15.
- ↑ „Lubke látinn“. Morgunblaðið. 7. apríl 1972. bls. 12.
Fyrirrennari: Theodor Heuss |
|
Eftirmaður: Gustav Heinemann |