Miðflokkurinn (Þýskaland)

Miðflokkurinn (Deutsche Zentrumspartei eða bara Zentrum) er kaþólsk stjórmálahreyfing í Þýskalandi sem naut mikilla áhrifa á tímum þýska keisaraveldisins og Weimar-lýðveldisins.

Þýski Miðflokkurinn
Deutsche Zentrumspartei
Formaður Gerhard Woitzik
Stofnár 1870
Höfuðstöðvar Straberger Weg 12 41542, Dormagen, Norðurrín-Vestfalíu
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Kristileg lýðræðishyggja, kaþólsk stjórnarstefna, félagsleg íhaldsstefna
Einkennislitur Blár  
Sæti á sambandsþinginu
Sæti á Evrópuþinginu
Vefsíða [1]

Flokkurinn var stofnaður árið 1870 af Ludwig Windthorst og biskupnum Wilhelm Emmenuel von Ketteler til að standa vörð um réttindi kaþólikka í nýja þýska keisaraveldinu sem laut að mestu áhrifum prússneskra mótmælenda. Kaþólikkar fylktust brátt að baki flokknum vegna menningarstríðs (Kulturkampf) Ottos von Bismarck kanslara gegn kaþólsku kirkjunni. Miðflokkurinn naut nokkurrar sérstöðu meðal þýskra stjórnmálaflokka þar sem hann sótti stuðning sinn til margra stétta kaþólskra Þjóðverja, allt frá verkamönnum til aðalsmanna.

Greifinn Georg von Hertling varð fyrsti kanslarinn úr röðum Miðflokksmanna árið 1917. Frá 1919 til 1932 átti Miðflokkurinn aðild að næstum öllum ríkisstjórnum Þýskalands og fimm flokksmeðlimir til viðbótar urðu kanslarar Þýskalands: Constantin Fehrenbach, Joseph Wirth, Wilhelm Marx, Heinrich Brüning og Franz von Papen.

Þann 22. mars árið 1933 gerði formaður Miðflokksins, Ludwig Kaas, samkomulag við Adolf Hitler, nýjan kanslara Þýskalands, um að styðja frumvarp að neyðarlögum sem veittu Hitler alræðisvald. Með því að styðja frumvarpið undirritaði Miðflokkurinn í reynd eigin dauðadóm því að eftir að lögin voru samþykkt lét Hitler banna alla stjórnmálaflokka í Þýskalandi nema Nasistaflokkinn. Miðflokkurinn var leystur upp þann 5. júlí og var þá síðasti stjórnarandstöðuflokkurinn sem eftir stóð í Þýskalandi nasismans.

Eftir seinni heimsstyrjöldina var Miðflokkurinn endurreistur en flestir kjósendur hans höfðu þá fært sig yfir til hins nýstofnaða Kristilega demókrataflokks, sem var að miklu leyti skipaður gömlum Miðflokksmönnum. Markmiðið með Kristilega demókrataflokknum var að sameina þýska kaþólikka og mótmælendur í einum kristnum íhaldsflokki. Miðflokkurinn fékk kjörna fulltrúa á þýska ríkisþingið til ársins 1957, en þá datt flokkurinn loks út af þingi og hefur ekki átt afturkvæmt síðan. Miðflokkurinn í núverandi mynd er einungis marktækt stjórnmálaafl í kaþólskum höfuðvígjum eins og Norðurrín-Vestfalíu.

Bæverski Þjóðarflokkurinn, forveri Kristilega sósíalsambandsins (CSU) klauf sig frá Miðflokknum árið 1918 vegna þess að þáverandi stjórn Miðflokksins studdi stofnun miðstýrðs ríkis frekar en sambandsríkis.

Heimild

breyta