Hellenísk heimspeki

[edit]
Saga vestrænnar heimspeki
Fornaldarheimspeki
Forverar Sókratesar
Klassísk heimspeki
Hellenísk heimspeki
Rómversk heimspeki
Heimspeki síðfornaldar
Miðaldaheimspeki
Skólaspeki
Heimspeki endurreisnartímans
Heimspeki 15. aldar
Heimspeki 16. aldar
Nýaldarheimspeki
Heimspeki 17. aldar
Heimspeki 18. aldar
Heimspeki 19. aldar
Heimspeki 20. aldar
Rökgreiningarheimspeki
Meginlandsheimspeki
Heimspeki samtímans

Hellenísk heimspeki er strangt tekið einungis heimspeki helleníska tímans, það er að segja frá dauða Alexanders mikla árið 323 f.o.t. (í heimspekisögu er miðað við dauða Aristótelesar árið síðar) til ársins 31 f.o.t. En orðið er stundum einnig notað um rómverska heimspeki og heimspeki síðfornaldar enda urðu ekki skörp skil í sögu heimspekinnar með endalokum helleníska tímans.

Á hellenískum tíma blómstruðu einkum þrír skólar: epikúrismi, stóuspeki og efahyggja.

Hellenísk heimspeki þótti lengi vera annars flokks heimspeki, sem stæðist ekki samanburð við heimspeki Platons og Aristótelesar. Á síðustu áratugum 20. aldar varð viðhorfsbreyting meðal fræðimanna og heimspekinga til heimspeki þessa tímabils og nú þykir ljóst að á helleníska tímanum komu fram margar áhugaverðar nýjungar í heimspeki og stigin voru ýmis framfaraskref. Til dæmis mætti nefna stóíska rökfræði.

Skortur á frumheimildum veldur erfiðleikum í rannsóknum á þessu tímabili heimspekinnar. Ekkert heildsætt rit um heimspeki er varðveitt frá tímabilinu og yngri varðveittar heimildir eru afar misjafnar að gæðum.

Epikúrismi

breyta
 
Epikúros

Epikúrisminn var heimspeki Epikúrosar en Epikúros var undir miklum áhrifum frá Demókrítosi. Epikúros hélt fram rammri efnishyggju og varði eindahyggjuna (atómismann) sem Levkippos og Demókrítos höfðu fyrstir sett fram.

Frumspeki

breyta

Samkvæmt frumspeki Epikúrosar er heimurinn á endanum gerður úr örsmáum efnislegum eindum sem voru nefnd ódeili („atóm“) og sem svifu um í tómarúmi. Allt sem gerist er afleiðing af árekstrum ódeilanna, sameiningu þeirra þegar þær loða hver við aðra án tilgangs eða markmiðs með hreyfingu þeirra.

Eindirnar hafa frumlega eiginleika til dæmis stærð, lögun og massa. Aðrir eiginleikar, eins og litur og bragð, eru afleiðingar af flóknu samspili eindanna í líkömum okkar og í hlutunum sem við skynjum. Raunverulegir eiginleikar eindanna ákvarða skynjanlega eiginleika hluta. Til dæmis er það sem er biturt eða súrt á bragðið myndað úr hvössum eindum, en það sem er sætt á bragðið er myndað úr sléttari eindum. Samspil þessara einda og eindanna í tungum okkar valda því hvernig við upplifum bragð hluta. Sumir hlutir eru sérstaklega harðir og þéttir vegna þess að eindirnar eru fleiri og þéttari og haldast saman vegna lögunar sinnar (til dæmis vegna króka á þeim). Aðrir hlutir eru úr sérlega sléttum og sleipum eindum sem haldast illa saman.

Þekkingarfræði

breyta

Þekkingarfræði epikúrismans er raunhyggja. Hún lagði áherslu á skynjun og skynreynslu en samkvæmt henni er skynreynsla á endanum uppruni allrar þekkingar. Að baki þekkingarfræði epikúrismans var frumspekileg kenning um mannlega skynjun, byggð á eindahyggjunni, sem lýsir skynreynslu sem samspili eindanna í skynfærum okkar og einda sem losna frá hlutunum sem eru skynjaðir.

Í epikúrískri þekkingarfræði eru þrír mælikvarðar á sannleika, það er að segja hvort tiltekin fullyrðing sé sönn eða ekki. Þeir eru: Skynjun (aesþēsis), hugtök (prolepsis) og tilfinningar (paþē). Samkvæmt epikúrískri þekkingarfræði eru allar skynjanir réttar. Dæmi um hugtak er maður en allir þekkja hugtakið maður og vita hvað maður er. Uppruni hugtakaþekkingar manna er á endanum í skynreynslu.

Siðfræði

breyta

Epikúros hélt því fram að ánægjan væri hin æðstu gæði en hann taldi að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju og að í öllu skyldi gæta hófs.

Siðfræði epikúrismans byggir á þeirri kenningu að öll gæði og allt böl séu afleiðingar skynreynslu. Ánægjulegar skynjanir eru samkvæmt epikúrismanum góðar en sársaukafullar eða óþægilegar skynjanir eru að sama skapi slæmar.

Epikúrisminn var og er oft misskilinn sem hóflaus nautnahyggja byggð á eftirsókn eftir líkamlegri ánægju. Samkvæmt epikúrískri siðfræði eru hin æðstu gæði aftur á móti fólgin í sálarró sem fylgir því að losna undan hugarangri.

Í epikúrískri siðfræði er gerður tvennur greinarmunur á ánægju og sársauka eða vellíðan og vanlíðan. Í fyrsta lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði líkamleg og andleg. Í öðru lagi getur vellíðan og vanlíðan verið bæði í breytingu („kinetísk“ vellíðan/vanlíðan) eða ástand („statísk“ vellíðan/vanlíðan). Þegar vellíðan er fólgin í breytingu er hún fólgin í því að fjarlægja sársauka eða óþægindi eða vanlíðan (til dæmis að seðja hungur, svala þorsta eða losna við ótta), en þegar hún er ástand er hún einfaldlega skortur á vanlíðan og óþægindum (til dæmis að vera saddur). Samkvæmt epikúrískri siðfræði er andleg vellíðan æðri líkamlegri ánægju og vellíðan sem er fólgin í breytingu er æðri en stöðug vellíðan sem ástand.

Epikúrismi var því ekki nautnahyggja í nútímaskilningi. Epikúringar vöruðu við því að eltast óhóflega við ánægju vegna þess að slíkt leiðir oft til sársauka. Til dæmis varaði Epikúros við því að eltast of ákaflega við ástina þar eð slíkt leiðir oft til óróleika og sársauka. Rökin mætti ef til vill nefna „timburmannarökin“. Að eiga sér góða vini sem maður getur reitt sig á er hins vegar eitt mikilvægasta atriðið í ánægjulegu lífi.

Stóuspeki

breyta

Upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Kítíon en Krýsippos var annar mikilvægur málsvari hennar. Stóumenn voru efnishyggjumenn en þó ekki eins afdráttalausir og epikúringar. Þeir kenndu að lífinu skyldi lifað í samræmi við náttúruna og örlögin. Stóumenn voru að vissu leyti algyðistrúar og töldu að heimurinn allur væri guðlegur, hann væri gegnsýrður af skynseminni, logos, en það hugtak fengu þeir frá Herakleitosi. Þeir kenndu að dygðin væru einu gæðin og að löstur væri eina bölið, allt annað væri hlutlaust og hvorki bætti við eða drægi úr hamingju manns. Þetta viðhorf mildaðist er fram liðu stundir, meðal annars hjá Panætíosi og Pósidóníosi sem blönduðu stóuspekinni áhrif frá Platoni. Stóuspekin var gríðarlega vinsæl í Rómaveldi og hafði mikil áhrif á menn eins og Cíceró og Seneca og Markús Árelíus voru stóískir heimspekingar. Á nýöld hafði stóuspekin talsverð áhrif á Baruch Spinoza.

Efahyggja

breyta
 
Sextos Empeirikos

Efahyggjan átti sér tvær rætur. Annars vegar voru upphafsmenn hennar þeir Arkesilás og Karneades sem voru akademískir heimspekingar, það er að segja þeir tilheyrðu Akademíunni, sem var skóli sem Platon stofnaði í Aþenu um 385 f.o.t. Á 3. öld f.o.t. voru akademískir heimspekingar farnir að túlka samræður Platons sem efahyggjurit og töldu að Sókrates hefði verið efahyggjumaður. Þessir efahyggjumenn (sem nefndust ekki efahyggjumenn á sínum tíma, heldur akademískir heimspekingar) áttu fyrst og fremst í rökræðum við stóumenn og frá forsendum stóumanna leiddu þeir út að ekki væri hægt að vita neitt; sjálfir tóku þeir ekki undir forsendur stóumanna og héldu engu fram.

Hin rót efahyggjunnar er hjá Pyrrhoni frá Elís sem var sjálfur undir áhrifum frá Demókrítosi. Pyrrhon hélt því fram að það væri ekki hægt að vita neitt vegna þess að heimurinn væri óákvarðanlegur og ómælanlegur. Í stað þess að leita þekkingar ætti maður að sætta sig við að ekkert væri hægt að vita, losa sig við skoðanir sínar og því myndi fylgja sálarró. Strangt tekið er þetta viðhorf ekki efahyggja (sem ekki gæti fullyrt að ekkert væri hægt að vita) heldur neikvæð kenning um möguleikann á þekkingu.

Heimspekingurinn Ænesidemos, sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.o.t., sagði skilið við akademíuna (sem var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri raunverulegur efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þessi heimspeki hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, meðal annars á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes.

Tengt efni

breyta

Helstu hugsuðir

breyta

Annað efni

breyta

Frekari fróðleikur

breyta

Frumheimildir

breyta
  • Epicurus, The Essential Epicurus: Letters, Principal Doctrines, Vatican Sayings, and Fragments. Eugene Michael O'Connor (þýð.) (Buffalo: Prometheus Books, 1993). ISBN 0-87975-810-4
  • Epicurus, The Epicurus Reader: Selected Writings and Testimonia. Brad Inwood og Lloyd P. Gerson (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1994). ISBN 0-87220-241-0
  • Inwood, Brad og Gerson, Lloyd P. (ritstj.), Hellenistic Philosophy: Introductory Readings (Indianapolis: Hackett, 2. útg. 1998). ISBN 0-87220-378-6
  • Long, A.A. og Sedley, David (ritstj.), The Hellenistic Philosophers 2 bindi (Cambridge: Cambridge University Press, 1987). ISBN 0-521-27556-3
  • Sextus Empiricus, Against the Ethicists: (Adversus Mathematicos XI). Richard Bett (þýð.) (Oxford: Clarendon Press, 2000). ISBN 0-19-825097-5
  • Sextus Empiricus, Against the Logicians. Richard Bett (þýð.) (Cambridge: Cambridge University Press, 2005). ISBN 0-521-53195-0
  • Sextus Empiricus, Outlines of Scepticism. Julia Annas og Jonathan Barnes (þýð.) (Cambridge: Cambridge University Press, 2. útg. 2000). ISBN 0-521-77809-3
  • Sextus Empiricus, Selections from the Major Writings on Skepticism Man and God. Sanford G. Etheridge (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1985). ISBN 0-87220-006-X
  • Sextus Empiricus, Sextus Empiricus I: Outlines of Pyrrhonism. R.G. Bury (þýð.) (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1933/2000). ISBN 0-674-99301-2
  • Sextus Empiricus, Sextus Empiricus II: Against the Logicians. R.G. Bury (þýð.) (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1935/1997). ISBN 0-674-99321-7
  • Sextus Empiricus, Sextus Empiricus III: Against the Physicists, Against The Ethicists. R.G. Bury (þýð.) (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1936/1997). ISBN 0-674-99344-6
  • Sextus Empiricus, Sextus Empiricus IV: Against the Professors. R.G. Bury (þýð.) (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1949/2000). ISBN 0-674-99420-5
  • Sextus Empiricus, The Skeptic Way: Sextus Empiricus's Outlines of Pyrrhonism. Benson Mates (þýð.) (Oxford: Oxford University Press, 1996). ISBN 0-19-509213-9

Fræðileg umfjöllun

breyta
  • Algra, K., Barnes, J., Mansfeld, J. og Schofield, M. (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2005). ISBN 0-521-61670-0
  • Annas, Julia og Barnes, Jonathan, The Modes of Scepticism: Ancient Texts and Modern Interpretations (Cambridge: Cambridge University Press, 1985). ISBN 0-521-27644-6
  • Bett, Richard, Pyrrho, his antecedents, and his legacy (Oxford: Oxford University Press, 2000). ISBN 0-19-925661-6
  • Bobzien, Susanne, Determinism and Freedom in Stoic Philosophy (Oxford: Oxford University Press, 1998). ISBN 0-19-924767-6
  • Branham, R. Bracht, The Cynics: The Cynic Movement in Antiquity and Its Legacy (Los Angeles: University of California Press, 2000). ISBN 0-520-21645-8
  • Burnyeat, Myles og Frede, Michael (ritstj.), The Original Sceptics: A Controversy (Indianapolis: Hackett, 1997). ISBN 0-87220-347-6
  • Hankinson, R.J., The Skeptics (London: Routledge, 1998). ISBN 0-415-18446-0
  • Ierodiakonou, Katerina (ritstj.), Topics in Stoic Philosophy (Oxford: Clarendon Press, 1998). ISBN 0-19-924880-X
  • Inwwod, Brad, The Cambridge Companion to the Stoics (Cambridge: Cambridge University Press, 2003). ISBN 0-521-77985-5
  • Long, A.A., Epictetus: A Stoic and Socratic Guide to Life (Oxford: Oxford University Press, 2004). ISBN 0-19-926885-1
  • Long, A.A., Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics (Los Angeles: University of California Press, 1986). ISBN 0-520-05808-9
  • Long, A.A., Stoic Studies (Los Angeles: University of California Press, 2001). ISBN 0-520-22974-6
  • Striker, Gisela, Essays on Hellenistic Epistemology and Ethics (Cambridge: Cambridge University Press, 1996). ISBN 0-521-47641-0

Tenglar

breyta