Arkesilás
Arkesilás (Ἀρκεσίλαος) (316 f.Kr. – 241 f.Kr.) var grískur heimspekingur og upphafsmaður nýju Akademíunnar —efahyggjuskeiðs Akademíunnar.
Arkesilás | |
---|---|
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 316 f.Kr. |
Svæði | Vestræn heimspeki |
Tímabil | Fornaldarheimspeki |
Skóli/hefð | Akademísk efahyggja |
Helstu ritverk | Engin |
Helstu kenningar | Engin |
Arkesilás fæddist í Pitane í Æólíu. Hann hlaut þjálfun sína hjá stærðfræðingnum Átolýkosi frá Pitane og síðar í Aþenu hjá Þeófrastosi og Krantori, sem fékk hann til að ganga til liðs við Akademíuna. Hann kynntist Pólemoni og Kratesi náið og tók við stjórn skólans af honum.
Díogenes Laertíos segir að líkt og eftirmaður hans, Lakýdes, hafi Arkesilás dáið vegna ofdrykkju en vitnisburður annarra (m.a. Kleanþesar) og lifnaðarhættir Arkesilásar gera söguna tortryggilega. Arkesilás var í miklum metum meðal Aþeninga.
Kenningar hans, sem ráða verður af skrifum annarra (Cíceró, Akademían 1. 12, iv. 24; Um ræðumanninn iii. 18; Díogenes Laertíos iv. 28; Sextos Empeirikos Gegn kennimönnum vii. 150, Frumatriði pyrrhonismans i. 233), fólu í sér árás á stóuspekina, einkum hugmyndina um φαντασια καταληπτιχη (örugga skynjun, eða sannreynanlega skynreynslu), sem sjálfstyrkjandi mælikvarða á sannleikann.
Hann hélt því fram að styrkur sannfæringar skipti engu máli enda má venjulega finna jafnsterka sannfæringu um hið gagnstæða. Óvissan sem felst í skynjun á einnig við um niðurstöður skynseminnar. Af þessum sökum verður maður að sætta sig við sennileika, sem nægir manni til að lifa lífinu.
Hann beitti aðferð Sókratesar í kennslu en skildi ekki eftir sig nein rit. Hugsun hans var sögð afar frjó og röksemdafærslur hans báru venjulega vitni um ríka kímnigáfu hans.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Arcesilaus“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. apríl 2006.
Frekari fróðleikur
breyta- Hankinson, R.J., The Sceptics (London: Routledge, 1995).
Tengt efni
breytaTenglar
breyta- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Ancient Skepticism“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Arcesilaus“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Ancient Greek Skepticism“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „Arcesilaus“