Gvelfar og gíbellínar

(Endurbeint frá Gvelfar og Gíbellínar)

Gvelfar og gíbellínar (ítalska: guelfi e ghibellini) voru flokkar sem mynduðust á Norður-Ítalíu á hámiðöldum á tímum skrýðingardeilunnar. Gvelfar studdu páfann og drógu nafn sitt af Welf-ætt frá Bæjaralandi (Welf breyttist í guelfo), en gíbellínar studdu keisarann af Hohenstaufen-ætt og kenndu sig við kastala þeirra í Waiblingen (Wibeling sem breyttist í ghibellino). Þessar tvær ættir tókust á um krúnuna eftir lát Hinriks 5. árið 1125. Flokkarnir voru líka kallaðir kirkjuflokkurinn og keisaraflokkurinn.

Brjóstvirki með klofna stalla, merki gíbellína, á Húsi Rómeós í Veróna

Einstakar fjölskyldur, borgir og bæir kenndu sig við þann flokk sem þær studdu. Almennt séð voru gvelfar borgaralegir aðalsmenn sem byggðu auð sinn á verslun en gíbellínar úr hópi landeigenda. Borgir Norður-Ítalíu þar sem keisarinn reyndi að auka völd sín voru hallari undir gvelfa en borgir Mið-Ítalíu sem litu á útþenslu Páfaríkisins sem meiri ógn, voru hallari undir gíbellína. Borgir sem áttu í átökum sín á milli studdu oft ólíka flokka. Þannig voru til dæmis Písa og Siena gíbellínaborgir í andstöðu við gvelfaborgina Flórens. Gvelfaborgirnar voru Mílanó, Mantúa, Bologna, Flórens, Lucca og Padúa en borgir kenndar við gíbellína voru Como, Cremona, Písa, Siena, Arezzo, Módena og Parma.

Eftir miðja 13. öld náðu gvelfar yfirhöndinni í þessum átökum. Orrustan við Benevento árið 1266 batt enda á áhrif Hohenstaufen-ættarinnar á Ítalíu og páfi gerði Karl af Anjou að konungi yfir Sikiley. Með þessu bandalagi páfa og Anjou-ættarinnar urðu gvelfar ríkjandi flokkur á Norður-Ítalíu. Nokkrum árum síðar klofnuðu gvelfar í svarta gvelfa sem studdu páfann og hvíta gvelfa sem voru andsnúnir auknum áhrifum hans. Hvítir gvelfar, þar á meðal skáldið Dante Alighieri, voru gerðir útlægir frá Flórens árið 1302 og tilraun þeirra til að ná borginni aftur með hervaldi og stuðningi gíbellína árið 1304 mistókst.

Flokkaheitin gvelfar og gíbellínar voru notuð áfram á Ítalíu næstu aldirnar yfir þá sem studdu annars vegar Frakkakonung og hins vegar keisarann, einkum í Ítalíustríðunum, þar til Karl 5. keisari staðfesti yfirráð sín yfir Ítalíu árið 1529.

Eftirmál

breyta

Vísanir í átök gvelfa og gíbellína eru nokkrar í Hinum guðdómlega gleðileik Dantes og í Tídægru Boccaccios. Átökin mynda pólitískan bakgrunn smásögunnar um Mariotto og Gianozza eftir Masuccio Salernitano sem gerist í Siena og varð grunnurinn að sögunni Giulietta e Romeo eftir Luigi da Porto sem William Shakespeare gerði leikritið Rómeó og Júlía eftir.