Goðheimar
Goðheimar er dönsk teiknimyndasögusería. Upphaflega var hún gefin út af Interpresse forlaginu en síðan 1997 hefur Carlsen Comics séð um útgáfuna.
Saga Goðheima
breytaSeint á áttunda áratugnum fékk ungur teiknari að nafni Peter Madsen það tækifæri að búa til teiknimyndasögur um veröld víkinganna. Hann fékk Hans Rancke-Madsen til að hjálpa sér við skriftir og þeir ákváðu að byggja sögurnar á norrænni goðafræði. Þeir voru undir áhrifum frönsk/belgísku hreyfingarinnar sem hafði getið af sér Tinna, Ástrík og fleira sem nú er talið sígilt. Þeir notuðu Eddurnar sem heimildir við gerð bókanna og helstu sögupersónurnar voru þekkt goð eins og Þór og Óðinn auk manna og þursa. Fyrstu teiknimyndasögurnar sáust í danska dagblaðinu Politiken árið 1978 og fyrsta bókin kom út ári seinna við góðar undirtektir.
Þó að Eddurnar séu undirstaðan í teiknimyndasögunum er skáldaleyfið mikið notað og margt gengur greinilega í berhögg við þær. Kímnin er ekki langt undan og bækurnar geta tæpast talist barnabækur sökum mikils ofbeldis og nektar. Mikil vinna var lögð í hverja bók og stundum liðu mörg ár á milli þeirra.
Árið 2007 komu Goðheimar fyrst á internetið þegar Jótlandspósturinn birti fjórtándu bókina í heild sinni, eina blaðsíðu í hverri viku.
Árið 2009 kom út síðasta bókin í seríunni, Vølvens syner, sem gjallar um fimbulvetur og ragnarök.
Bækurnar hafa verið þýddar á mörgum tungumálum, t.d. Norðurlandatungumálunum, hollensku og indónesísku. Fyrstu fimm bækurnar voru þýddar á íslensku (fyrstu þrjár af Guðna Kolbeinssyni, hinar af Bjarna Frímanni Karlssyni) og gefnar út af Iðunni á árunum 1979-1989. Þær voru svo endurútgefnar af Iðunni á árunum 2010-2014 og næstu bækur í bókaflokknum hafa komið út að mestu árlega síðan.
Ár | Titill á dönsku | Titill á íslensku | Byggt á... |
---|---|---|---|
1979 | Ulven er Løs | Úlfurinn bundinn (1979; endurútgefin 2010) | Snorra-Edda |
1980 | Thors Brudefærd | Hamarsheimt (1980; endurútgefin 2011) | Þrymskviða |
1982 | Odins Væddemål | Veðmál Óðins (1982; endurútgefin 2012) | Snorra-Edda og Ynglingasaga |
1987 | Historien om Quark | Sagan um Kark (1988; endurútgefin 2013) | Ekkert |
1989 | Rejsen Til Udgårdsloke | Förin til Útgarða-Loka (1989; endurútgefin 2014) | Snorra-Edda |
1990 | De Gyldne Æbler | Gulleplin (2015) | Snorra-Edda |
1991 | Ormen i Dybet | Krækt í orminn (2016) | Snorra-Edda og Hýmiskviða |
1992 | Frejas Smykke | Brísingamenið (2017) | Snorra-Edda og Sörla saga |
1993 | Den Store Udfordring | Hólmgangan (2019) | Snorra-Edda |
1997 | Gudernes Gaver | Gjafir guðanna (2020) | Snorra-Edda |
1998 | Mysteriet om Digtermjøden | Ráðgátan um skáldamjöðinn (2021) | Snorra-Edda og Ynglingasaga |
2001 | Gennem Ild og Vand | Gegnum eld og vatn (2022) | Snorra-Edda og Grímnismál |
2006 | Balladen om Balder | Feigðardraumar (2023) | Snorra-Edda, Baldurs draumar og Gesta Danorum |
2007 | Muren | "Múrinn" | Snorra-Edda og Skírnismál |
2009 | Vølvens syner | "Sýnir völvunnar" | Snorra-Edda og Völuspá |
Sögupersónur
breytaSögupersónur Goðheima eru þær persónur sem koma fyrir í fornritunum auk nokkurra skáldaðra. Aðalfókusinn er á systkinin Þjálfa og Röskvu og dvöl þeirra í Ásgarði. Þeir Æsir sem koma mest við sögu eru Þór, Óðinn og Loki. Einnig má nefna Baldur, Heimdall, Frigg, Sif auk margra annarra. Vanir koma einnig mikið við sögu, þá sérstaklega systkinin Freyr og Freyja. Æsirnir og Vanirnir eru hetjur Goðheima, hafa mikla hæfileika og krafta en eru jafnframt breyskir eins og mennirnir. Jötnarnir eru yfirleitt hinir vondu í bókunum, forljótir og yfirleitt heimskir. Þeir geta þó búið yfir miklum kröftum og verið stórvarasamir. Á meðan Æsirnir og Vanirnir verða góðkunningjar lesenda bókanna er sjaldgæfara er að sömu jötnar komi fram í fleiri en einni bók. Meðal helstu jötna ber að nefna Hými, Þrym og Útgarða-Loka. Ein þekktasta persóna Goðheima er jötnastrákurinn Karkur en hann kemur hvergi fram í fornritunum. Einnig ber að nefna að fjölmörg dýr og kynjaskepnur koma fram í bókunum, svo sem Fenrisúlfur, Miðgarðsormur og Sleipnir.