Hólmgangan (danska: Den store udfordring) er níunda bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1992. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Hún byggir á frásögn Skáldskaparmála Eddu af viðureign Ása-Þórs við jötnakonunginn Hrungni.

Söguþráður

breyta

Mannapilturinn Þjálfi lætur sig dreyma um að Þór standi við loforð sín um að taka hann með til að berja jötna. Þegar loksins virðist ætla að verða af því hrindir táningurinn Magni upp dyrunum og kynnir sig sem son Þórs og skessunnar Járnsöxu. Þegar myndar togstreita milli Þjálfa og hins nýtilkomna keppinautar um athygli þrumuguðsins.

Á sama tíma er Óðinn á ferðalagi í Jötunheimum. Hann áir við hirð ruddans Hrungnis og fara þeir að metast um ágæti reiðskjóta sinna: Slepni og Gullfaxa. Óðinn verður hlutskarpari í kappreiðinni en Hrungnir sest upp á æsi í Bilskirni og lætur dólgslega. Að lokum er Þór nóg boðið og hann skorar á jötuninn í hólmgöngu. Þór heldur til einvígisins með Þjálfa og Magna sér til halds og trausts.

Hrungni til aðstoðar í hólmgöngunni skapa jötnarnir Mökkurkálfa, níu rasta háan leirkarl, ramman af afli en með merarhjarta. Eftir snarpa viðureign fellir Þór Hrungni, en höfuðlaus skrokkurinn fellur ofan á Þór og heldur honum föstum og meðvitundarlausum. Á meðan tekst Þjálfa að fella Mökkurkálfa með því að vera frjár á fæti. Við það leggur jötnaliðið á flótta. Eftir stendur að losa Þór undan hræi jötunsins og mistekst hverjum guðanna á fætur öðrum það, uns Magni sviptir Hrungni ofan af föður sínum og uppsker lof og virðingu. Þjálfi uppgötvar að Magni hafði svindlað og spennt á sig megingjarðir Þórs til að öðlast styrk, en ákveður að þegja yfir leyndarmálinu til að Æsir taki Magna í sátt.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Samkvæmt goðsögninni var Magni aðeins þriggja nátta gamall þegar hann vann lyftingarafrekið. Höfundar sögunnar leysa það með því að láta Magna segjast fyrst hafa orðið sonur Þórs þegar hann uppgötvaði faðernið þremur dögum fyrr.
  • Persóna Magna hafði ekki birst áður í sagnaflokknum en varð föst persóna í bókunum upp frá þessu.

Íslensk útgáfa

breyta

Hólmgangan kom út hjá Forlaginu árið 2019, í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar.

Heimildir

breyta
  • Valhalla - Den samlede saga 3. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2583-1.