Gegnum eld og vatn
Gegnum eld og vatn (danska: Gennem ild og vand) er ellefta bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 2001. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans kom Henning Kure að gerð handritsins. Hún byggir á frásögn Snorra-Eddu, einkum varðandi sköpun Jarðarinnar, frásögn Grímnismála af því þegar jötuninn Geirröður tók Óðinn til fanga og Skáldskaparmála af fundum Geirraðar og Óðins.
Söguþráður
breytaÓðinn og Loki eru staddir í Bjarmalandi í konungsríki Geirraðar, sem er illur konungur sem svikið hafði Agnar hinn göfuglynda bróður sinn í tryggðum. Geirröður hefur gengist jötnum á hönd og á meira að segja tvær illskeyttar jötnadætur. Eymd og volæði er allsráðandi í ríkinu. Ekki tekst betur til í rannsóknarleiðangri þeirra Óðins og Loka en að Geirröður konungur handsamar þá, en áttar sig ekki á því hverjir gíslar hans séu. Með göldrum heldur hann Óðni föngnum milli tveggja brennandi elda meðan hann freistar þess að yfirheyra hann um sitt rétta nafn - en Loka er sleppt lausum gegn loforði um að snúa aftur með verðmætan gísl í stað þeirra félaga.
Loki heldur til hallarinnar Bilskirnis að sækja Þór og telur að með kröftum hans og hamrinum Mjölni verði þeim ekki skotaskuld að berja á jötnunum og frelsa Óðinn. Loki og Þór halda af stað til hallar Geirraðar í Bjarmalandi, en á leiðinni upplýsir Þór að hann hafi skilið hamarinn eftir heima til að sýna fram á að hann gæti leyst vandamál með vitsmunum en ekki bara ofbeldi. Þetta reynist misráðið því jötnar handsama félagana snarlega, en þá kemur Viðar hinn þögli ás, þeim til bjargar og slæst í för með þeim áleiðis til Geirröðar.
Í varðhaldinu í höllinni kemst Óðinn í kynni við hugrakkan drenghnokka sem er alinn upp við kúgun og ofríki jötna og telur að þannig hafi ástandið alltaf verið. Óðinn rekur fyrir hann sköpunarsögu veraldarinnar, þar á meðal tilurð jötna og guðanna. Drenghnokkanum mistekst að frelsa Óðinn og er sjálfur gripinn af Geirröði. Loki og Þór komast í hann krappann þegar jötnadætur Geirröðar reyna að hindra för þeirra með því fyrst að míga með slíkum ósköpum að stórflóð hlýst af og síðar með því að reyna að kremja þá undir þaklofti, en Þór nær með ýta á móti með göngustaf Viðars að vopni og endar á að brjóta bak jötnadætranna tveggja.
Þór og Loki koma aðvífandi á síðustu stundu, þegar Geirrröður hefur uppgötvað leyndarmál Óðins. Um leið kemur í ljós að drenghnokkinn reynist vera Agnar sonur hins hugdjarfa Agnars sem Geirröður hafði svikið. Geirröður deyr í átökum við þá og Agnar verður konungur ríkisins eftir að jötnaþjóðin hefur sig á brott.
Fróðleiksmolar
breyta- Viðar hinn þögli ás, sonur Óðins og frillu hans Gríðar jötnameyjar kemur í fyrsta sinn við sögu í bókaflokknum.
- Höfundar bókarinnar steypa tveimur ólíkar persónur úr goðsögnum saman í eina: jötninum Geirröði og Geirröði konungi.
Íslensk útgáfa
breytaGegnum eld og vatn komu út hjá Forlaginu árið 2022, í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar.
Heimildir
breyta- Valhalla - Den samlede saga 4. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2584-8.