Brísingamenið (Goðheimar)
Brísingamenið (danska: Frejas smykke) er áttunda bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1992. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Hún byggir á frásögn Eddu og Sörla þætti.
Söguþráður
breytaÞað vorar í Ásgarði, frjósemisgyðjan Freyja vekur allt til lífsins og ástin svífur í loftinu. Guðinn Heimdallur verður ástfanginn af Freyju, sem Óðinn lítur einnig hýru auga. Óðinn ágirnist jafnframt hið einstæða brísingamen Freyju Loki lætur ástarhjal þetta fara í taugarnar á sér og dylgjar við Óðinn um vergirni Freyju. Óðinn tekur því illa og skipar Loka að færa sér brísingamenið.
Loki beitir blekkingum til að fá Heimdall til að stela skartgripnum. Freyja reynir að draga Heimdall á tálar, sem slær hann út af laginu. Heimdallur ásakar Freyju um lauslæti, en iðrast orða sinna þegar í stað. Loki stelur brísingameninu en Heildallur endurheimtir það eftir æsilegan bardaga þar sem þeir báðir bregða sér í ýmissa kvikinda líki. Brísingamenið kemst þó í hendur Óðins sem hyggst nota það sem skiptimynt til að njóta ásta með Freyju. Hún kennir honum lexíu um ástina og rifjar upp söguna um Óð, fyrrum eiginmann sinn sem gefið er í skyn að hafi í raun verið Óðinn sjálfur. Óðinn verður að sætta sig við einn blóðdropa úr Freyju sem endurgjald fyrir menið, en Freyja hleypir Heimdalli inn í meyjarskemmu sína og opnar faðm sinn fyrir honum.
Fróðleiksmolar
breyta- Brísingamenið hefur talsverða sérstöðu í Goðheima-bókaflokknum að því leyti að hún hefur sterka kynferðislega undirtóna og Freyja er ítrekað sýnd klæðalítil eða nakin. Þetta er jafnframt eina sagan þar sem Heimdallur er í einhvers konar hetjuhlutverki en í öðrum sögum er hann yfirleitt í hlutverki treggáfaðs aðstoðarmanns.
- Ýmsar goðsögulegar vísanir koma fyrir í bókinni. Auk sögunnar um Óð, hinn brottflúna fyrrum eiginmann Freyju, er vikið að fjandskap Loka og Heimdallar. Heimdallur klæðist hvítum fötum, sem vísar til viðurnefnis hans sem hinn hvíti ás. Þá er meginefni sögunnar fengið úr Sörla þætti í í Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu, þar sem segir frá því hvernig Freyja eignaðist brísingamen með því að lofa dvergunum sem smíðuðu það blíðu sinni.
- Mannabörnin Þjálfi og Röskva ásamt trölladrengnum Karki koma ekkert við sögu í bókinni, sem er fátítt í sagnaflokknum.
Íslensk útgáfa
breytaBrísingamenið kom út hjá Forlaginu árið 2017, í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar.
Heimildir
breyta- Valhalla - Den samlede saga 3. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2583-1.