Hamarsheimt
Hamarsheimt (danska: Thors Brudefærd) er önnur bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1980. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins, sem byggir að nokkru á frásögn Þrymskviðu af því þegar jötnar ræna hamrinum Mjölni. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku.
Söguþráður
breytaÞór vaknar í höll sinni Bilskirni og uppgötvar að hamrinum Mjölni hefur verið stolið. Loki ályktar að jötunninn Þrymur muni hafa stolið honum. Sú reynist raunin og krefst jötunninn þess að fá gyðjuna Freyju í lausnargjald. Æsir hyggjast ganga að þessum afarkostum en Loka hugkvæmist þó að klókara væri að klæða Þór í kvenmannsföt, senda hann á fund Þryms í gervi Freyju og endurheimta þannig hamarinn og koma um leið fram hefndum.
Þór, Loki og mannabörnin Þjálfi og Röskva halda á fund Freys, með viðkomu hjá jötninum Útgarða-Loka, sem sér samstundis í gegnum ráðabruggið en lætur ekki á neinu bera. Sífellt fleiri jötnar átta sig á að ekki sé allt með felldu, en með klókindum tekst Loka að tryggja að enginn ljóstri leyndarmálinu upp við hinn hrekklausa Þrym. Hjónavígslan fer fram, en í upphafi hennar færir Þrymur brúði sinni hamarinn dýrmæta að gjöf. Þór gengur í kjölfarið berserksgang og drepur Þrym og fjölda veislugesta. Sögunni lýkur á því að ferðalangarnir snúa aftur til Ásgarðs þar sem Sif hefur eignast tvíbura. Hún segir körlunum í hópi ásanna til syndanna fyrir að hafa komið illa fram við Freyju, en talar fyrir daufum eyrum.
Fróðleiksmolar
breyta- Jötnastrákurinn Karkur kemur fyrir sem bakgrunnspersóna á nokkrum stöðum í sögunni og stendur fyrir hrekkjabrögðum. Í íslensku þýðingunni er hann þó kallaður Bergur. Hann átti eftir að fá stærra hlutverk í seinni bókum.
- Tvíburarnir Móði og Þrúður eru nýfædd í lok sögunnar. Eftir því sem bókaflokknum vindur fram eldast þau og þroskast, að því er virðist mun hraðar en mannabörnin Þjálfi og Röskva.
- Ýmsar vísanir í aðrar myndasögur og sjónvarpsþætti má finna í sögunni. Þannig bregður kunnum persónum úr Prúðuleikurunum fyrir í hlutverki hljómsveitar í brúðkaupsveislunni.
- Höfundar Goðheimasagnanna sáu fyrir sér að brandarar um samskipti kynjanna yrðu fyrirferðarmiklir í sögunni og fengu því Per Vadmand til liðs við sig, en hann hafði reynslu af gerð slíkra myndasagna. Minna varð úr kynjastaðalmyndaglensi en til stóð en Vadmand smellpassaði inn í höfundateymið og framhald varð á samstarfinu.
Íslensk útgáfa
breytaHamarsheimt kom út hjá Iðunni árið 1980, sama ár og á frummálinu. Þýðandi var Guðni Kolbeinsson. Hún var endurútgefin árið 2011 með nýrri forsíðu.
Heimildir
breyta- Valhalla - Den samlede saga 1. Carlsen. 2012. ISBN 978-87-114-2448-3.