Förin til Útgarða-Loka

Förin til Útgarða-Loka (danska: Rejsen Til Udgårdsloke) er fimmta bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1989. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Bókin, sem og fyrra ævintýri Sagan um Kark, fylgja í meginatriðum teiknimyndinni Valhalla frá árinu 1986.

Söguþráður

breyta

Sagan hefst á því að hrafnarnir Huginn og Muninn flytja Óðni þær fréttir að Þór og Loki séu farnir til Jötunheima að skila Karki af sér, en að jötnarnir sitji á svikráðum. Útgarða-Loki er sjónhverfingameistari og tekst ítrekað að villa um fyrir ferðalöngunum, s.s. með því að bregða sér í líki ógnarstórs risa. Þegar Þór og föruneyti koma loks til Útgarða-Loka er þeim boðið til ýmis konar kappleikja, þar sem taparinn skyldi sitja uppi með Kark.

Meðal keppnisgreina eru kappát, spretthlaup, kappdrykkja, lyftingar og glíma. Brögð eru hins vegar í tafli og tapa æsirnir í hverri greininni á fætur annarri. Minnstu má muna að Þór láti lífið í glímunni, þar sem andstæðingurinn er í raun ellin sjálf. Þjálfi sér í gegnum blekkingarnar með hjálp hrafnanna og að lokum tekst honum að bjarga Þór frá bana. Útgarða-Loka gremst að hafa ekki tekist að koma Þór fyrir kattarnef, en huggar sig við að hafa losnað við Kark sem stingur af úr Jötunheimum og fylgir mannabörnunum aftur í Ásgarð.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Sagan gerist að nær öllu leyti í Jötunheimum og byggist á frásögn Gylfaginningar af því þegar Útgarða-Loki beitti Þór brellum og sjónhverfingum.

Íslensk útgáfa

breyta

Förin til Útgarða-Loka kom út hjá Iðunni árið 1989. Þýðandi var Bjarni Fr. Karlsson. Hún var endurútgefin árið 2014 með nokkuð breyttri forsíðu.

Heimildir

breyta
  • Valhalla - Den samlede saga 2. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2447-6.