Óðinn
Óðinn er æðstur guða í norrænni og germanskri goðafræði, þar sem hann er guð visku, herkænsku, stríðs, galdra, sigurs og skáldskapar. Óðinn er andinn og lífskrafturinn í öllu sem hann skapaði. Með Vilja og Vé skapaði hann himin, jörð, Ask og Emblu. Óðinn lærði rúnirnar þegar hann hékk og svelti sjálfan sig í níu nætur í Aski Yggdrasils, þá lærði hann líka Fimbulljóðin níu.
Á jörðinni birtist Óðinn mönnum sem gamall eineygður förumaður í skikkju og með barðabreiðan hatt eða hettu og gengur þá undir mörgum nöfnum. Hann getur haft hamskipti hvenær sem er og sent anda sinn í fugls- eða dýrslíki erinda sinna og hann getur ferðast til dauðraheims ef honum hentar.
Óðinn ríður hinum áttfætta Sleipni og tveir úlfar fylgja honum, sem bera nöfnin Geri og Freki, einnig á hann tvo hrafna, Huginn og Munin, sem flytja honum tíðindi. Í Valhöll koma til hans vopndauðir menn.
Óðinn var sífellt að sækjast eftir meiri visku. Hann gekk til Mímis við Mímisbrunn einn daginn. Hann vildi fá að drekka úr brunni hans og fékk það í skiptum fyrir annað auga sitt.
Óðinn átti spjót (Gungnir) sem gerði honum fært að ráða gangi bardaga og því var gott að heita á hann í stríði.
Börn og barnsmæður
breytaÓðinn var, líkt og höfuðguðir margra annarra goðafræða, duglegur við að eignast börn og það með mörgum kvinnum.
- Frigg var eiginkona Óðins og með henni eignaðist hann tvo syni, Hermóð hinn hvata og Baldur.
- Skaði var seinni kona Óðins, hún var áður gift Nirði í Nóatúnum. Þeirra sonur var Sæmingur.
- Jötunynjan Gríður átti með honum soninn Víðar, sem er einn þeirra sem lifir af Ragnarök og hefnir föður síns í þeim.
- Gunnlöð, sem einnig er Jötunynja, eignaðist með honum Braga. Samkvæmt Snorra-Eddu virðist sem Óðinn hafi tælt hana til að sofa hjá sér í þrjár nætur fyrir þrjá sopa af skáldskaparmiðinum. Hávamál sýna þetta þó öðruvísi, og segja alla þátttakendur hafa verið sátta.
- Með Jörðu eignaðist Óðinn einn sinn frægasta son, það er Þór.
- Hin mannlega Rindur var, óviljug, móðir Vála sem drap Höð fyrir drápið á bróður þeirra beggja.
Nafnsifjar
breytaNafn hans samanstendur af liðunum óð og inn. Óð merkir vit og sál, jafnvel orka og lífskraftur en -inn merkir dróttinn í þessu tilfelli og merkir Óðinn því dróttinn lífskraftsins. Hann kallar sig mörgum öðrum nöfnum, svo sem Alföður, Valföður, Bölverkur, Síðhöttur, Vegtamur, Grímnir og Herjafaðir.
Æsir eignast skáldamjöðinn
breytaÞegar æsir og vanir sömdu frið spýttu þeir allir hráka sínum í ker og sköpuðu þannig spakvitran jötun, Kvasir að nafni. Síðar drápu tveir dvergar Kvasi, blönduðu blóði hans saman við hunang og bjuggu þannig til skáldamjöðinn sem fyllti þrjú stór keröld. Jötunninn Suttungur rændi af þeim miðinum og faldi hann í fjalli einu. Óðinn fór þangað til að reyna að ná miðinum og skreið inn í fjallið í ormslíki. Þar lá hann í þrjár nætur með dóttur Suttungs sem gætti mjaðarins og fékk hana til að gefa sér þrjá sopa af miðinum. Í hverjum sopa tæmdi hann eitt kerjanna. Hann flaug svo í arnarlíki heim í Ásgarð og spýtti þar miðinum í ker. Þannig eignuðust goðin skáldskaparmjöðinn.
Á leið sinni til Ásgarðs var Óðinn eltur og náðist næstum því. Lét hann þá spýju ganga aftur af sér til að létta á sér á fluginu og dugði það honum til að sleppa inn í Ásgarð áður en hann væri gripinn. Við þetta er kennt að kalla leirburð (það sem er illa kveðið) aftur af Óðni.
Heimildir
breyta- Cottrell, Arthur. 1997. Norse Mythology. Ultimate Editions, London.
- „Auga Óðins“. Mál og menning. 2003.
- Roy Willis. Goðsagnir heimsins. 1998. Mál og menning, Reykjavík.
- Jan De Vries: Altgermanische Religionsgeschichte. Walter De Gruyter, Berlin - New York, 19703.