Gulleplin (danska: De Gyldne æbler) er sjötta bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1990. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Hún byggir á frásögn Skáldskaparmála í Eddu Snorra Sturlusonar og Gylfaginningu.

Söguþráður

breyta

Í upphafi sögu kemur fram að sjávarguðinn Njörður er í konuleit, en á sama tíma í Jötunheimum hugsar jötunninn Þjassi um það eitt að gifta dóttur sína Skaða til að eignast erfingja. Hún vísar öllum vonbiðlum á bug.

Óðinn, Loki og Þór eru á ferðalagi og gantast félagarnir með að Loki sé piparsveinn. Þeir hitta örn sem reynist Þjassi í dulargervi og lýkur samskiptum þeirra á því að Loki lofar að færa Þjassa töfraepli Iðunnar sem færa guðunum eilífa æsku. Þessu næst daðrar Loki við Iðunni og blekkir hana með sér út í skóg þar sem Þjassi kemur aðvífandi og handsamar hana.

Æsirnir taka að eldast einn af öðrum og skilja ekki í brotthvarfi Iðunnar. Mannabörnin Þjálfi og Röskva upplýsa að hún hafi síðast sést í fylgd Loka. Til að losna undan reiði guðanna segist Loki hafa gripið til þessa ráðs til að vinna ástir Skaða, sem Æsirnir telja fullnægjandi afsökun. Þór vill ólmur halda á fund Þjassa til að biðja um hönd dóttur hans fyrir Loka. Þar finna þeir Iðunni og nema hana á brott. Þjassi hyggur á hefndir og eltir hópinn í Ásgarð þar sem Þór drepur hann. Skaði heimtar bætur og Óðinn fellst á að hún fái að kjósa sér eiginmann úr hópi guðanna. Loki kemur því til leiðar að hún þarf að velja þá af fótunum einum saman. Skaði, sem hefur augastað á Baldri, velur þann sem hefur hreinustu fæturna. Það reynist hins vegar vera Njörður sem er með hreinustu fæturna eftir að ösla öldurnar. Sambúð þeirra reynist þó skammvinn.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Í upprunalegu goðsögninni voru Óðinn, Loki og Hænir saman á ferðalagi þegar þeir hittu Þjassa í arnarlíki. Þar sem Hænir hafði enn ekki verið kynntur til sögunnar í bókaflokknum og skipti þar að auki litlu máli í frásögninni var Þór látinn taka stöðu hans.
  • Loki er ótvírætt í aðalhlutverki í bókinni, í fyrsta sinn í sagnaflokknum.
  • Goðsagnarminni um að Loki hafi reynt að draga úr harmi Skaða með því að binda snæri um hreðjar sér og festa það við horn illskeytts geithafur er nýtt í sögunni, þó þannig að Iðunn bregður bandinu á Loka til að hefna fyrir hrekki hans.

Íslensk útgáfa

breyta

Veðmál Óðins kom út hjá Forlaginu árið 2015, í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Það var fyrsta nýja bókin um langt skeið en áður hafði Forlagið endurútgefið fimm fyrstu bækurnar sem allar höfðu áður komið út á íslensku.

Heimildir

breyta
  • Valhalla - Den samlede saga 2. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2447-6.