Gjafir guðanna
Gjafir guðanna (danska: Gudernes gaver) er tíunda bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1997. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Hún byggir á frásögn Snorra-Eddu af því þegar Loki klippir hárið af Sif, ástkonu Þórs og veðmáli hans í kjölfarið við dverga sem leiðir til þess að Æsir eignast mikla dýrgripi.
Söguþráður
breytaBókin hefst á sögustund við varðeld þar sem Loki, Þór, Sif, Magni og mannabörnin Þjálfi og Röskva sitja saman. Þau fullorðnu rifja upp söguna af því þegar Sif kemur til Ásgarðs sem ung og rík ekkja og verður fljótlega ástfangin af Þór. Útgáfur hvers og eins þeirra af atburðarásinni eru nokkuð ólíkar. Þór var afar klunnalegur við að tjá ást sína og þótt Loki lofi honum aðstoð sinni virtist hann fremur spilla fyrir.
Til að telja Þór trú um að honum hafi sjálfum tekist að draga Sif á tálar klippir Loki allt hárið af henni og bakar sér ofsareiði Þórs. Loki sér þann kost vænstan að halda til dvergheima í von um að finna töfrahár úr skíragulli. Hann hittir fyrir dvergana Ívaldasyni sem búa til töfrahárið, en í leiðinni tekst Loka að narra út úr þeim með prettum fleiri kjörgripi: spjót sem smýgur í gegnum hvað sem fyrir verður og skip sem hægt er að brjóta saman og geyma í vasa sínum.
Á heimleiðinni rekst Loki á smíðadvergana Brokk og Sindra og hyggst endurtaka leikinn í von um að eignast fleiri góða gripi. Hann býður dvergunum til keppni um hvor eigi betri gripi og leggur höfuð sitt að veði. Þeir Sindri ákveða að leggja ágæti gripanna undir dóm Ásanna. Dvergarnir skapa gullfallegan gölt, gullhringinn Draupni sem getur í sífelldu af sér nýja hringa og hamarinn Mjölni. Til að bæta stöðu sína í veðmálinu reynir Loki að spilla fyrir smíðinni en tekst það ekki að því frátöldu að skaftið á hamrinum reynist óheppilega stutt.
Í Goðheimum hitta Loki og dvergurinn fyrir frjósemisguðinn Frey og færa honum göltinn Gullinbursta og skipið Skíðblaðni. Freyr kann betur að meta svínið en Loki felur sig á bak við að Freyr sé af Vanaætt og teljist því ekki til Ása. Þvínæst færa þeir Óðni spjótið Gungni og hringinn Draupni. Óðinn er fégjarn og kýs því gullhringinn, en aftur bjargar Loki sér með því að benda á að þeir Óðinn séu fóstbræður og því ósanngjarnt að kalla hann til sem dómara.
Að lokum halda þeir á fund Þórs og telur Loki sig eiga sigurinn vísan þar sem hann hljóti að velja gullhárið til að vinna ástir Sifjar. Í ljós kemur að Sif og Þór hafa þegar fellt hugi saman og þótt gullhárið fari Sif prýðisvel kann Þór betur að meta hamarinn Mjölni. Dvergurinn hefur unnið veðmálið og býr sig undir að höggva höfuðið af Loka, sem bargar sér á síðustu stundu með því að benda á að dvergurinn eigi kannski hausinn, en hálsinn sé eign Loka og honum megi ekki spilla. Dvergurinn heldur snúðugur á braut en saumar þó fyrst saman varirnar á Loka.
Fróðleiksmolar
breyta- Fjögur ár liðu milli níundu og tíundu bókarinnar í Goðheimaflokknum. Á þeim tíma var Peter Madsen m.a. upptekinn við að teikna myndasögur um ævi Jesús Krists.
Íslensk útgáfa
breytaGjafir guðanna komu út hjá Forlaginu árið 2020, í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar.
Heimildir
breyta- Valhalla - Den samlede saga 4. Carlsen. 2010. ISBN 978-87-114-2584-8.