Gerhard Schøning (2. maí 1722 á Lofoten18. júlí 1780) var norskur skólamaður og sagnfræðingur, sem síðast var leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn.

Gerhard Schøning.

Æviágrip

breyta

Gerhard Schøning fæddist á bænum Skotnesi í Buksnes prestakalli á Lofoten í Norður-Noregi. Foreldrar hans voru Andreas Schøning (um 1680–1740), kaupmaður, og kona hans Martha Ursin. Eftir undirbúningsnám á heimaslóðum fór hann árið 1739 til náms í dómkirkjuskólanum í Þrándheimi. Benjamin Dass rektor skólans gerði sér grein fyrir hæfileikum þessa nemanda og veitti honum sérstaka leiðsögn. Eftir stúdentspróf 1742, fór Schøning í Kaupmannahafnarháskóla og lauk guðfræðiprófi 1744 og meistaraprófi 1748.

Árið 1751 varð hann rektor í dómkirkjuskólanum í Þrándheimi, tók við af Benjamin Dass. Með honum þangað fór danski sagnfræðingurinn Peter Frederik Suhm, og voru þeir nánir samverkamenn í sagnfræði næstu árin, ásamt hinum lærða manni Johan Ernst Gunnerus. Þegar Gunnerus var skipaður biskup í Þrándheimi 1758, fékk vísindalegt samstarf þeirra meira vægi, og til að styrkja það enn frekar stofnuðu þeir þrír vísindafélag árið 1760, Þrándheimsfélagið. Árið 1767 var nafni þess breytt í Konunglega norska vísindafélagið, eftir að það fékk formlega viðurkenningu konungs. Félagið hóf útgáfustarfsemi árið 1761, og birti Schøning margar greinar í ritum þess. Þeir Suhm og Schøning skiptu með sér verkum, þannig að sá fyrrnefndi vann að sögu Danmerkur, en Schøning að sögu Noregs.

Árið 1765 var Schøning boðið að verða prófessor í sagnfræði og mælskulist (latínu) í Sórey í Danmörku (Sorø akademi). Hann þáði það þó að það fæli í sér launalækkun, því að þar gafst betra næði til fræðistarfa. Þar varð hann samstarfsmaður Jóns Eiríkssonar, sem auðveldaði honum aðgang að fornum íslenskum heimildum. Þeir unnu einnig saman að útgáfu á Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, sem kom út í tveimur bindum 1772; Henrik Hielmstierne ritari danska Vísindafélagsins fékk þá til verksins eftir fráfall Eggerts.

Í ágúst 1775 var Schøning skipaður leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn, sem var vel launað embætti, og gegndi hann því til dauðadags, 1780.

Gerhard Schøning var félagi í Konunglega danska vísindafélaginu frá 1758, og hann varð jústitsráð 1774. Í Osló er gata sem ber nafn hans.

Gerhard Schøning giftist (1756) Frederikke Hveding (um 1724 – 1788); þau voru barnlaus.

Fræðistörf

breyta

Schøning hóf sagnfræðirannsóknir í Kaupmannahöfn og gaf út fyrsta rit sitt árið 1750. Á Þrándheimsárunum gaf hann út nokkur fræðileg rit, sem öfluðu honum virðingar í fræðaheiminum.

Árið 1762 gaf hann út brautryðjandaverk um Niðarósdómkirkju, þar sem fram kemur mikil þekking höfundarins á fornum heimildum. Lýsingar hans á kirkjunni hafa mikið gildi því þær sýna hvernig hún var fyrir umfangsmiklar breytingar sem gerðar voru á henni á 19. öld.

Árið 1769 kom út Afhandling Om de norskes og en del andre nordiske Folks Oprindelse, sem átti að vera inngangur að sögu Noregs. Fyrsta bindið af Noregs-sögu Schønings kom út 1771: Norges Riiges Historie. Annað bindið kom tveimur árum seinna og náði það til ársins 961. Þetta var fyrsta tilraun til að skrifa sögu Noregs, þar sem hún er sett í menningarsögulegt samhengi. Hann náði að ljúka þriðja bindinu, sem nær til 995, og kom það út eftir dauða hans, 1781. Noregssaga Schønings er barn síns tíma og telst nú úrelt verk.

Árin 1773–75 fékk Schøning konunglegan styrk til að ferðast um Noreg og safna upplýsingum um lífshætti fólks og fornar hefðir. Afraksturinn var einstætt safn af rituðum lýsingum og teikningum, sem hefur verið mikið notað af fræðimönnum, þó að mikill hluti þess lægi lengi óútgefinn í söfnum í Kaupmannahöfn. Tvö hefti af ferðalýsingunum voru prentuð 1778–1782, en þær voru prentaðar í heild í þremur bindum 1910–1926.

Þegar Schøning var skipaður leyndarskjalavörður árið 1775, varð hann að hætta rannsóknarferðum sínum um Noreg og snúa aftur til Danmerkur. Helst hefði hann viljað halda áfram verki sínu um sögu Noregs, en honum var nú falið að vinna að viðhafnarútgáfu Heimskringlu, sem þá lá aðeins fyrir í hinni sænsku útgáfu Johans Peringskiölds frá því um 1700. Jón Ólafsson úr Svefneyjum vann með honum að útgáfunni, og komu fyrstu tvö bindin út 1777–1778. Þriðja bindið var hálfnað þegar Schøning dó. Skúli Thorlacius tók þá við verkinu, og kom það út 1783. Þessi útgáfa var með aðalsbrag hvað frágang snertir: í stóru broti, íslenskur texti í vinstri dálki, dönsk þýðing Jóns Ólafssonar í hægri dálki og latínuþýðing Schønings neðst á síðu. Textameðferðin fullnægir þó ekki nútímakröfum. Þessari útgáfu var síðar haldið áfram með útgáfu fleiri konungasagna, og lauk henni árið 1826 með 6. bindi, sem Finnur Magnússon sá um. Þar er mikið skýringarefni, ættarskrár og kort, og er þetta verk með allra glæsilegustu fornritaútgáfum.

Schøning var vel heima í íslenskum fornbókmenntum og hafði lengi haft í huga að gefa út Konungsskuggsjá, en þau áform féllu niður þegar hin vandaða útgáfa Hálfdanar Einarssonar (og Jóns Eiríkssonar) kom út í Sórey 1768.

Sem leyndarskjalavörður tók Schøning sæti í Árnanefnd, sem hafði umsjón með handritasafni Árna Magnússonar.

Gerhard Schøning arfleiddi Konunglega norska vísindafélagið í Þrándheimi að bókasafni sínu, sem var um 11.000 bindi.

Helstu rit

breyta
  • Nogle Anmærkninger over vore gamle nordiske Forfædres Giftermaal og Bryllupper, København 1750.
  • Forsøg til de nordiske landes, særdeles Norges, gamle Geografi, København 1751.
  • Forsøg til Forbedringer til den gamle danske og norske Historie, København 1757. — Meðhöfundur: P. F. Suhm.
  • Beskrivelse over den tilforn meget prægtige og vidtberømte Dom-Kirke i Trondhjem, Trondheim 1762.
  • Afhandling Om de norskes og en del andre nordiske Folks Oprindelse, Sorø 1769.
  • Afhandling Om de gamle Grækeres og Romeres rette Begreb og Kundskab om de nordiske Lande. — Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskabs Skrifter 9, København 1761, s. 151–306.
  • Norges Riiges Historie 1–3, Sorø 1771–73 og København 1781. (Anden Deel, Tredie Deel)
  • (útgáfa): Heimskringla edr Noregs Konga-Sögor af Snora Sturlusyni 1–2, København 1777–78.
  • Reise, som gjennem en Deel af Norge i de Aar 1773, 1774 og 1775 paa H. M. Kongens Bekostning er gjort og beskreven, København 1778–82. — Heildarútgáfa í 3 bindum, Trondheim 1910–26, Ljósprentuð útgáfa, Trondheim 1979–80.
  • Tegninger samlet eller utført av Gerhard Schøning i forbindelse med hans reiser i 1770-årene og hans arbeider med norsk historie og topografi, Oslo 1968. — Útgefendur: A. Berg og E. Sinding-Larsen. Foreningen til norske Fortidsminnesmerkers Bevaring.

Heimild

breyta

Tenglar

breyta