Jón Eiríksson
Jón Eiríksson (31. ágúst 1728 – 29. mars 1787) var lögfræðingur og konferensráð í Kaupmannahöfn. Jón kvæntist Christine Maria Lundgaard árið 1761. Þau áttu 10 börn og komust 7 þeirra til fullorðinsára.
Jón Eiríksson fæddist á Skálafelli í Suðursveit og stundaði nám í Skálholtsskóla en þar hafði Ludvig Harboe biskup mikið dálæti á honum. Jón fór síðar með honum til Kaupmannahafnar og þaðan til foreldra biskups í Slésvík. Árið 1746 fór Jón aftur með honum til Kaupmannahafnar og þaðan til Niðaróss þar sem Harboe tók við biskupsembætti. Jón settist þar í skóla og var þar til 1748. Þá fór hann til náms í Kaupmannahafnarháskóla, og þar fékk hann svokallað Regéns og er þess getið að hann hafi þá nálega verið búinn að týna niður íslensku. Íslendingar álösuðu honum fyrir það og mun hann því hafa reynt að lesa allt sem hann komst yfir á íslensku og fengið aðgang að handritasafni Árna Magnússonar á bókasal háskólans. Hann tók lærdómspróf 1749.
Árið 1750 bað jústitsráð Bolle Willum Luxdorph Harboe biskup að útvega sér íslenskan stúdent sem gæti komið sér niður í hinni gömlu tungu Norðurlanda og benti hann á Jón. Fyrir áeggjan Luxdorph hóf Jón að læra lög og fékk opinbert skírteini í lögvísi 22. ágúst 1758. Árið 1759 fékk hann prófessorstöðu við Háskólann í Sórey og var þar í 12 ár. Hann varð félagi í hinu konunglega norska vísindafélagi 1769, en árið 1771 var hann kallaður til starfa í hinu nýstofnaða norska kammeri og mun það hafa verið að undirlagi Moltkes greifa. Síðar fluttist Jón með honum inn í Tollkammerið. Árið 1772 varð Jón félagi í Árnamagnæanisku Fornfræðanefndinni, og Etatsráð í Rentukammerinu árið 1777.
Jón varð forseti í Hinu íslenska Lærdómslistafélagi árið 1779. Hann fékk konferensráðsnafnbót árið 1781 og varð um svipað leyti bókavörður við konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn.
Árið 1785 var hann í nefnd sem átti að gera uppástungur um bætt ástand á Íslandi, verslunarfrelsi og sölu á eignum Skálholtsstóls og Skálholtsskóla og flutning biskupsdæmisins til Reykjavíkur, og árið eftir, 1786, var hann í nefnd sem athugaði kjör bænda í Danmörku.
Jón var vinur biskupanna Finns Jónssonar og Hannesar Finnssonar og landfógetans Skúla Magnússonar.
Jón yfirkeyrði sig á vinnu og framdi að síðustu sjálfsmorð með því að stökkva af Löngubrú milli Kaupmannahafnar og Amager og drukknaði.