Konunglega danska vísindafélagið

Konunglega danska vísindafélagið (danska: Videnskabernes Selskab - fullu nafni: Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab) var stofnað 13. nóvember 1742 til að efla vísindi og tækni í Danmörku. Frumkvæðið að stofnun félagsins áttu Johan Ludvig Holstein greifi, Hans Gram prófessor og konunglegur sagnaritari, Erik Pontoppidan yngri prófessor í guðfræði og Henrik Henrichsen (síðar Hielmstierne) ritari í danska Kansellíinu. Þann 11. janúar 1743 fékk félagið konunglega vernd og stuðning Kristjáns 6. og við sama tækifæri kom fram að stefna þess væri að rannsaka sögu, staðhætti og tungumál Danmerkur og Noregs. Öðrum fræðigreinum var svo fljótlega bætt við.

Eitt af ritum Vísindafélagsins danska: Maximilian Hell: Observatio transitus Veneris ante discum Solis (Athugun á göngu Venusar fyrir sólskífuna), Hafniæ 1770.

Vísindafélaginu er skipt í tvær deildir, hugvísindadeild (upphaflega sögu- og heimspekideild) og náttúruvísindadeild (upphaflega stærðfræði- og náttúruvísindadeild). Aðaláherslan er á frumrannsóknir.

Frá árinu 1745 hefur félagið gefið út ritraðir og einstök rit á sviði náttúruvísinda og hugvísinda.

Á árunum 1763–1843 lét félagið kortleggja Danmörku og hertogadæmin, og fékkst þannig fyrsta áreiðanlega staðfræðikort af landinu. Kortin voru unnin í mælikvarða 1:20.000, en gefin út í mælikvarða 1:120.000.

Annað verkefni félagsins var dönsk orðabók (Videnskabernes Selskabs Ordbog), sem kom út á árabilinu 1793–1905 í 8 bindum, en var orðin úrelt áður en útgáfu lauk.

Félagið á og rekur nokkra vísinda- og styrktarsjóði og skipar stjórn Carlsbergsjóðsins úr hópi félagsmanna. Félagið hefur einnig um langan aldur skilgreint og auglýst fjölda verðlaunaverkefna.

Í Konunglega danska vísindafélaginu eru um 250 danskir og 250 erlendir félagsmenn. Af þeim dönsku er ⅓ í hugvísindadeildinni og ⅔ í náttúruvísindadeildinni. Félagið á stóra fasteign með góðu bókasafni við Dantes Plads í miðbæ Kaupmannahafnar, þar sem fundir eru haldnir annan hvern fimmtudag.

Vísindafélagið og Ísland

breyta

Fljótlega eftir stofnun félagsins beindust sjónir félagsins að Íslandi, sem varð til þess að tveir ungir stúdentar, Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson, voru sendir í rannsóknarferðir til Íslands. Ferðuðust þeir um landið 1750 og 1752–1757 og söfnuðu náttúrugripum fyrir félagið og undirbjuggu ítarlegt rit um náttúru landsins: Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem kom út í Kaupmannahöfn 1772. Ferðabókin er gagnmerkt rit og mikilvæg heimild um land og þjóð.

Nokkrir Íslendingar hafa verið félagsmenn eða heiðursfélagar í Vísindafélaginu danska, t.d. Þorvaldur Thoroddsen, Björn M. Ólsen og Finnur Jónsson.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta