Fossafjöll
Fossafjöll (Cascade Range á ensku) eru fjallgarður sem liggur frá suðurhluta Bresku Kólumbíu til norðurhluta Kaliforníu í vesturhluta Norður-Ameríku. Fjöllin eru hluti af Eldhringnum á Kyrrahafi sem er eldvirkt svæði. Hæsta fjallið er Mount Rainier í Washington-fylki og er 4392 metrar [1].
Hæstu fjöllin eru eldkeilur sem rísa hátt yfir umhverfið og auk Mount Rainier eru meðal annars áberandi: Mount Baker og Mount Adams (Washington fylki), Mount Hood (hæsta fjall Oregon), Mount McLoughlin (Oregon) og Mount Shasta (fimmta hæsta fjall Kaliforníu). Í norðurhluta fjallanna eru vernduð svæði eins og North Cascades-þjóðgarðurinn, í suðri eru Crater Lake-þjóðgarðurinn og Lassen Volcanic-þjóðgarðurinn. Elsta heimild um notkun á nafninu Fossafjöll (Cascade Range) er frá breska grasafræðingnum David Douglas í byrjun 19. aldar.
Gróður og dýralíf
breytaÍ vesturhlíðum Fossafjalla vaxa tré eins og degli, marþöll og ryðelri. Í austurhlíðunum þar sem þurrara er, vaxa í ríkara mæli gulfura, klettafura, risalerki, fjallaþöll, fjallaþinur, eðalþinur, fjallalerki og mýralerki.
Svartbjörn, sléttuúlfur, rauðgaupa, fjallaljón, bjór, hjartardýr, vapítihjörtur og elgur eru meðal spendýra. Úlfur hefur numið land að nýju í fjöllunum Bandaríkjamegin. Nokkrir tugir grábjarna eru á svæðinu.
Eldvirkni
breytaSíðustu gos í fjallgarðinum eru gos í Lassen Peak (Kaliforníu) sem gaus frá 1914 til 1921 og gos í Mount St. Helens (Washington-fylki) árið 1980. Smágos í St. Helens hafa verið árin 2004-2008. Af eldfjöllum í Fossafjöllum hefur St. Helens gosið tíðast síðustu 10 þúsund árin.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Cascade Range“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. febrúar 2016.
- Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi. Örn og Örlygur. 1984.
Tilvísanir
breyta- ↑ Gosið í Mount St. Helens, Harry Truman og kettirnir hans Lemúrinn. Skoðað 15. febrúar, 2016.