Eldhringurinn
Eldhringurinn eða Kyrrahafseldhringurinn er svæði sem nær umhverfis Kyrrahaf þar sem eldgos og jarðskjálftar eru algeng. Eldhringurinn er í raun hálfhringur, 40.000 km langur, þar sem 90% af öllum jarðskjálftum heims og 81% af stærstu jarðskjálftum heims eiga sér stað. Þar eru líka staðsett 452 eldfjöll sem eru meira en 75% af öllum eldfjöllum heims. Eldhringurinn nær frá Nýja Sjálandi, eftir Indónesíu endilangri, að Filippseyjum, eftir endilöngu Japan, Kúrileyjum og Aleuteyjum, niður vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna, eftir Mið-Ameríku og Suður-Ameríku eftir Andesfjöllum. Meðal þekktustu eldfjalla á hringnum eru Krakatá, Pínatúbó og Mount St. Helens.
Nýlegar mannskæðar hamfarir á Eldhringnum eru meðal annars jarðskjálftinn í Tōhoku 2011, jarðskjálftinn í Chile 2010 og jarðskjálftinn í Indlandshafi 2004.