Dulsmál voru sakamál nefnd þegar kona ól barn á laun, myrti það eða bar út, stundum í vitorði með barnsföður eða öðrum. Gott dæmi um dulsmál má finna í tímaritinu Ísafold, árið 1874. Það hljómar svo:

Gæsalappir

Barnsburður í dulsmáli: Á býlinu hjá Reykjavík hefur 19 vetra gömul stúlka, fósturdóttir húsbóndans, alið barn í dulsmáli, og myrt það á hryllilegan hátt. Það var einhvern dag um réttirnar í haust, að stúlka þessi kvartaði um kveisu og lagðist upp í rúm. Kvaðst hún eiga vanda til þess kvilla og lét lítið yfir. En kveisan var í rauninni léttasótt, og ól hún barnið þar í rúminu, án þess að heimilisfólkið, sem var á gangi út og inn um svefnherbergið, yrði þess vart; hafði þó að sögn hennar barnið grátið, er það var fætt. Síðan tók hún sjálfskeiðung, er hún átti, og banaði barninu með honum. Hún geymdi síðan líkið undir koddanum þangað til morguninn eftir. Þá alfrísk, og grunaði engan athæfi hennar. Reyndar hafði fundist blóð í fötum hennar og eins í rúminu; en hún kvað blóð hafa „staðið með sér“ þetta langan tíma, og hefði hún látið það allt í einu. Hún kvað og blóð þetta hafa valdið þykkt þeirri, er sumir höfðu þóttst sjá á henni, en sem nú var horfin. Þykktina hafði hún annars klætt svo vel af sér, að fáir urðu hennar varir. En rúmum mánuði eftir þetta laust allt í einu upp orðsveim um útburð í Sauðagerði, og vissi enginn, hvaðan sá kvittur kom. Var þá hafin rannsókn um þetta. Komst þá glæpurinn upp, sem nú er frá skýrt. Líkið af barninu fannst eftir tilvísan móðurinnar sjálfrar. Hafði hún lagt það skammt frá barminum á mógröfinni, svo vatn flaut aðeins yfir, og nokkra móhnausa ofan á. Á líkinu fundust 8 stingir, 2 í hjartastað.“

— Ísafold, 14. nóvember.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.