Útlegð

(Endurbeint frá Skóggangur)

Útlegð merkir það þegar fólk hrekst úr samfélagi því sem það tilheyrir vegna lögbrota eða átaka, og fær ekki að snúa aftur. Útlægt fólk „leggst út“, það er fer frá heimahögum sínum og flyst út í óbyggðir eða til annarra landa. Útlegðardómum fylgir yfirleitt að fólk telst friðlaust eða griðlaust í heimahögum sínum, sem merkir að það standi utan við vernd laga og réttar og sé þannig í reynd réttdræpt.

Útlegð á þjóðveldisöld

breyta

Á þjóðveldisöld var útlegð ein þriggja tegunda refsinga sem beitt var samkvæmt lögum Grágásar. Útlegð táknaði þá ekki að menn væru dæmdir útlægir úr samfélaginu, heldur misháar fébætur (útlegð = „að leggja út fé“) sem sekur maður átti að greiða þeim sem hann hafði brotið gegn og var þetta því vægasta tegund refsinga. Á seinni tímum hefur orðið útlegð verið notað um hinar tvær tegundir refsinga þjóðveldisaldar, fjörbaugsgarð (þegar menn voru skyldaðir til að fara úr landi í þrjú ár) og skóggang (þegar menn voru dæmdir friðlausir og réttdræpir og urðu að vera í felum í óbyggðum til að eiga von um að komast af).

Þeim sem var dæmdur fjörbaugsgarður nefndust fjörbaugsmenn. Þeim var skylt að fara af landi brott innan þriggja sumra frá því að þeir voru dæmdir og skyldu þeir dveljast erlendis í þrjú ár. Fjörbaugsgarður var séríslensk refsing sem tekin var upp skömmu fyrir kristnitöku.

Skóggangur var harðasta refsingin samkvæmt Grágás. Þeir sem dæmdir voru sekir skógarmenn nutu ekki lengur réttarverndar, voru griðlausir og útskúfaðir úr samfélaginu og réttdræpir hvar sem til þeirra náðist og áttu oftast ekki annars úrkosti en að leggjast út - í Noregi í skógum en á Íslandi frekar í óbyggðum. Sumir fundu sér hellisskúta eða annað afdrep nærri byggð og þá oft í nágrenni við einhverja sem voru þeim vinveittir og gátu liðsinnt þeim. Á meðal skógarmanna sem þekktir eru úr Íslendingasögum má nefna Gretti sterka, Gísla Súrsson, Hörð Grímkelsson og Þorgeir Hávarsson.