Aftaka er einn flokkur manndrápa, og er orðið notað þegar ríki, samfélag, hersveit eða annar hópur fólks stendur að baki ákvörðun um að ráða manneskju af dögum í nafni eða þágu laga, réttlætis, hugmyndafræði, ofsókna, öryggis, trúar, til að valda ógn og skelfingu eða af öðrum ástæðum sem hópurinn sammælist um að séu knýjandi. Orðið er aðeins haft um aflífanir á mönnum en aldrei dýrum.

Múgæðisaftaka (enska: lynching), telst það er hópur manna, þá einatt múgur eða æstur hópur, ræðst á manneskju eða manneskjur og tekur af lífi án dóms og laga, í krafti tilfinninga, haturs og/eða hugmyndafræði.

Aftökur á vegum dómstóla

breyta

Það telst aftaka þegar manneskja er drepin til uppfyllingar á dauðadómi lögmæts dómstóls. Til framkvæmdar á dauðarefsingu hafa mörg ríki beitt opinberum aftökum, og er almenningur þá hvattur til að fylgjast með aðgerðinni, enda er refsingunni þá ekki aðeins beint gegn hinum dæmda heldur ætlað að fæla aðra frá sömu brotlegu breytni. (Sjá nánar færslu um dauðarefsingar.) Þegar dauðarefsing og aftökur tíðkuðust á Íslandi, á tímabilinu 1550 til 1830, var ekki óalgengt að fyrir alvarlegustu brot væri þess krafist í dómsorði Alþingis að höfuð brotamanns yrði fest á stjaka að lokinni afhöfðun, og látið standa þar, á opinberum vettvangi, öðrum til viðvörunar.[1]

Þó er ekki sjálfsagt að aftökur á vegum dómstóla séu opinberar. Samkvæmt ársskýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International yfir dauðadóma og aftökur árið 2018[2] er talið að kínversk stjórnvöld taki fleira fólk af lífi en stjórnvöld nokkurs annars ríkis og nemi aftökur í Kína þúsundum á ári. Um þessar aftökur eru þó engin talnagögn aðgengileg, enda eru þær ekki opinberar heldur varðveittar sem ríkisleyndarmál.

Aftökur í tengslum við hernað

breyta

Manndráp sem framið er á vígvelli herja eða í öðrum beinum átökum telst ekki aftaka, en aftaka er það þegar herdómstóll dæmir menn af lífi og framfylgir dómnum að því loknu. Sögulega eru aftökur býsna algeng aðferð nýs yfirvalds, eða hóps sem gerir tilkall til yfirráða, til að treysta vald sitt á svæði eða yfir samfélagi. Til dæmis má nefna aftökuna á Jóni Arasyni, biskup, og sonum hans tveimur, við siðaskiptin á Íslandi. Ógrynni fólks hefur látið lífið í aftökum sem beitt hefur verið í þágu trúarofsókna, ofsókna gegn minnihlutahópum og við þjóðarmorð.

Upp úr aldamótunum 2000 hafa staðið deilur um lagalegan og siðferðilegan grundvöll fyrir þeim manndrápum sem herir og/eða leyniþjónustur framkvæma með drónum, en slíkum aðgerðum svipar að mörgu leyti frekar til aftöku en hefðbundins hernaðar.

Aftökur á Íslandi

breyta

Aftökum fjölgaði á Íslandi eftir siðaskipti og var þá dæmt eftir Stóradómi.[3] Innan rannsóknarverkefnisins Dysjar hinna dæmdu við Háskóla Íslands hefur verið unnið að kortlagningu aftökustaða á Íslandi. Þar má finna gögn um 238 skrásettar aftökur, sem birtast í töflunni hér að neðan.[4] Þessar aftökur áttu sér allar stað á tímabilinu 1550 til 1830, það er frá upphafi siðaskipta til loka þess tíma sem oftast er kenndur við upplýsingu. Sjá nánar í færslunni Aftökur á Íslandi.

Eitt og annað um aftökur

breyta

Sjá einnig

breyta

Tenglar

breyta
  • „Hvenær var síðasta aftakan á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  • „Agnes og Friðrik“; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1934
  • „Á aftökustaðnum“; grein í Morgunblaðinu 1957

Tilvísanir

breyta
  1. Skrá á vef rannsóknarverkefnisins Dysjar hinna dauðu, á slóðinni https://dhd.hi.is/gogn/Info.pdf, sótt 15.2.20202.
  2. Amnesty International Global Report: Death Sentences And Executions 2018, sótt á vef Amnesty 18.2.2020, hér: https://www.amnesty.org/download/Documents/ACT5098702019ENGLISH.PDF Geymt 25 janúar 2021 í Wayback Machine
  3. Fátækir fórnarlömbin í aftökusögu Íslendinga Vísir.is, skoðað 25. júlí 2018.
  4. Dysjar hinna dæmdu, skoðað 15. febrúar 2020.